Fyrsta heildstæða rannsóknin sem er gerð hefur verið á straumvatni á Suðurskautslandinu bendir til þess að árstíðabundið leysingavatn sé mun meira á Suðurskautinu en áður var talið. Niðurstöðurnar eru sagðar breyta hugmyndum vísindamanna á því hversu viðkvæmur jökullinn á Suðurskautinu sé fyrir hitabreytingum framtíðar.
Rannsóknin var unnin af hópi vísindamanna frá The Earth Institute við Columbia Háskóla í Bandaríkjunum og miðaði hún að því að mæla leysingavatnið á Suðurskautslandinu. Mikið af þessu vatni rennur til sjávar ofan af jöklinum sem þekur allt Suðurskautslandið. Leysingavatn hefur jafnframt runnið eftir mörgum farvegum síðan snemma á síðustu öld.
Með bættri tækni er nú hægt að fá gleggri mynd af því hvert þetta leysingavatn rennur og sú mynd er ekki falleg. „Þetta er ekki að gerast í framtíðinni – þetta er mjög útbreitt núna og hefur verið það um áratuga skeið,“ er haft eftir Jonathan Kingslake, jöklafræðingi í rannsóknarhópnum.
Hópurinn kortlagði affall vatns frá ísbreiðunni á eitt kort. Margir þessara „ósa“ ef svo má að orði komast hafa verið þekktir í lengri tíma en aldrei hefur það verið tekið saman með heildstæðum hætti hversu víða vatnið rennur ofan af jöklinum.
Á myndinni hér að neðan merkir hver rauður kross sjálfstætt affall eða ós.
Stuðst var við myndir af yfirborði ísbreiðunnar til þess að kortleggja vatnsstrauma á yfirborðinu, skilgreina safnár og ósa. Rannsóknin leiddi í ljós að nærri 700 sjálfstæð safnkerfi eru að finna á ísbreiðunni sem renna svo hringinn í kringum Suðurskautslandið til sjávar.
Vatnsflaumurinn á ísbreiðunni hefur jafnframt skapað risavaxin lón sem spanna fleiri kílómetra í þvermál. Rannsóknin hefur einnig leitt í ljós að vatn á fljótandi formi er að finna í meira en 1.300 metra hæð yfir sjávarmáli. Það var talið ómögulegt að finna fljótandi vatn í svo mikilli hæð á Suðurskautinu.
„Ég held að flestir jarðskautafræðingar hafi talið rennandi vatn vera töluvert fágætt á yfirborði Suðurskautsins. En við fundum mikið af því, á mjög stórum svæðum,“ segir Kingslake.
Kingslake segir gögnin sem aflað hefur verið vera of rýr til þess að hægt sé að segja hvort vatnsflaumurinn hafi aukist síðustu sjö áratugina. „Við höfum enga ástæðu til þess að ætla það. En án frekari gagnaöflunar getum við ekki sagt til um það. Nú er það mjög mikilvægt til framtíðar að komast að því hvernig þessi kerfi muni breytast við frekari hlýnun, og hverslags áhrif þetta mun hafa á ísbreiðuna.“
Hlýnun knýr frekari hlýnun
Höfundar rannsóknarinnar fjalla um hvernig bráðnun jökulíss veldur enn frekari bráðnun. Flest þeirra safnkerfa sem kortlögð voru á ísbreiðunni hófust nærri fjallstindum sem rísa upp úr jöklinum, eða á svæðum þar sem kröftugir vindar hafa blásið snjó ofan af bláleitum ísnum. Þessi svæði eru dekkri en hvítur snjórinn og draga þess vegna meiri orku úr sólargeislunum sem veldur bráðnun. Vatnið rennur svo yfir ísinn og bræðir farveg niður í móti og í gegnum snjóinn sem liggur yfir öllu.
Jökulfossar á Nansen-ísbreiðunni
Ef hitaspár þessarar aldar ganga eftir fyrir Suðurskautslandið mun þetta ferli eiga sér stað í mun meira mæli. „Þessi rannsókn sýnir okkur að mun meiri bráðnun á sér stað en við héldum,“ er haft eftir Robin Bell, jarðskautafræðingi við Columbia, á vef Columbia. „Við hærra hitastig mun þetta aðeins aukast.“
Vanalega frýs leysingavatnið aftur á veturna svo bráðnun af völdum þess er talin vera smávægileg. Suðurskautsjökullinn er hins vegar að bráðna og áhyggjur jöklafræðinganna sem komu að rannsókninni beinast að þeim breytingum sem eru að eiga sér stað. Mesta ístapið úr jöklinum á sér stað við sporða hans, þar sem stórir ísjakar brotna frá jöklinum vegna hlýrra hafstrauma og fljóta burt út á hafið þar sem þeir bráðna á endanum.