Alls hafa 3.514 einstaklingar nýtt sér heimild til að nota séreignarsparnað sinn sem útborgun fyrir íbúð frá miðju ári 2014 og fram til loka mars 2017. Samtals hefur þessi hópur nýtt 1,1 milljarð króna til að afla sér húsnæðis. Um er að ræða bæði þá sem höfðu átt húsnæði áður og þá sem voru að kaupa sér sína fyrstu fasteign. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Um er að ræða samblöndu tveggja úrræða. Annars vegar heimild sem allir Íslendingar fengu, sem hluta af Leiðréttingunni, til að nota séreignarsparnaðinn sinn skattfrjálst sem útborgun vegna húsnæðiskaupa. Sú heimild gildir frá miðju ári 2014 og fram til júníloka 2019. Hins vegar er um að ræða úrræði stjórnvalda fyrir fyrstu fasteignarkaupendur, sem kallast „Fyrsta fasteign“. Það snýst um að leyfa þeim sem eru að kaupa fyrstu fasteign að nýta séreignarsparnað sinn skattfrjálst til að greiða niður lán, nota sem útborgun eða lækka afborganir í tíu ár.
Ljóst er að nýting á ofangreindum úrræðum er langt frá því sem lagt var upp með þegar þau voru kynnt.
„Fyrsta fasteign“ átti að skila 15 milljarða skattafslætti
Fyrra úrræði, sem heimilaði notkun á séreignarsparnaði sem útborgun vegna húsnæðiskaupa frá miðju ári 2014 til júníloka 2019, hefur ekki nýst mörgum landsmönnum. Kjarninn greindi frá því í fyrra að þegar tvö ár voru liðin af þeim tíma sem heimild til slíkra nota voru liðin höfðu landsmenn nýtt 520 milljónir króna í þeim tilgangi.
15. ágúst í fyrra, rúmum tveimur mánuðum fyrir kosningar, kynntu Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra síðan áætlun ríkisstjórnar sinnar fyrir fyrstu fasteignakaupendur, sem kölluð var „Fyrsta fasteign“. Í áætluninni fólst að ríkissjóður myndi gefa fyrstu fasteignarkaupendum 15 milljarða króna skattaafslátt á tíu ára tímabili, ef þeir myndu kjósa að nota séreignarsparnað til að kaupa húsnæði. Fyrstu fasteignarkaupendum yrði auk þess gert kleift að nota séreignarsparnað til að lækka mánaðarlegar afborganir lána sinn til viðbótar við að greiða hann beint inn á höfuðstól þeirra. Heildaráhrif aðgerðanna, þ.e. samtala séreignarsparnaðar sem notaður yrði sem útborgun og þess skattaafsláttar sem ríkið ætlaði að gefa, átti að vera 50 milljarðar króna.
Ef skattafslátturinn átti að ná að verða 15 milljarðar króna þurftu 14 þúsund manns að nýta sér úrræðið strax á árinu 2017 og svo þyrftu um tvö þúsund manns að bætast við á hverju ári.
Kjarninn kallaði eftir tölum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hversu margir væru að nýta sér úrræðin tvö. Samkvæmt þeim tölum er nýtingin mun minni en reiknað var með í kynningum stjórnmálamannanna. Samtals hafa 3.514 einstaklingar nýtt sér úrræðin tvö og þeir hafa samtals notað 1,1 milljarð króna sem útborgun fyrir húsnæði. Samkvæmt því má ætla að veittur skattafsláttur ríkisins vegna úrræðanna tveggja sé nú um 400 milljónir króna.
Ætluðu að banna „Íslandslán“ til sumra
Það var ýmislegt fleira kynnt sem hluti af „Fyrstu fasteign“. Bjarni og Sigurður Ingi kynntu til að mynda að lagt yrði fram frumvarp sem myndi banna völdum Íslendingum að taka 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, svokölluð „Íslandslán“. Stór hluti þjóðarinnar yrði reyndar undanskilin því banni því ungt fólk, tekjulágir og einstaklingar sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli myndu áfram geta tekið þessi lán. Því var alls ekki verið að afnema verðtryggingu með neinum hætti með stjórnvaldsákvörðunum með þessari aðgerð líkt og sumir vildu láta í veðri vaka.
Frumvarpið var lagt fram en umsagnaraðilar og þeir sérfræðingar sem kallaðir voru fyrir efnahags- og viðskiptanefnd voru flestir sammála um að markmið þess væri óljóst og að algjörlega óvíst væri hvort þær leiðir sem lagðar voru til myndu skila nokkrum árangri. Stjórnarþingmaðurinn Vilhjálmur Bjarnason, sem sat í nefndinni, skilaði séráliti um málið og kallaði frumvarpið „bjánaskap“. Það dagaði á endanum uppi og hefur ekki verið lagt fram aftur.