Innkoma Costco á íslenskan verslunar- og heildsölumarkað eru mikil tíðindi og er greinilegt að mikils skjálfta gætir hjá samkeppnisaðilum. Formleg opnun er á morgun í Kauptúni klukkan 09:00.
En hvaða fyrirtæki er þetta og hvers vegna gæti innkoma Costco haft mikil áhrif á íslenska markaðnum?
1. Costco, í þeirri mynd sem nú þekkist, var stofnað árið 1983 í Seattle í Bandaríkjunum, en höfuðstöðvarnar eru þar á svæðinu, nánar tiltekið í Issaquah. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og býður þeim sem eru með áskrift hjá Costco, betri verð á fjölbreytilegum vörum sem fyrirtækið selur í stórum verslunum sínum. Verðmiðinn á fyrirtækinu er nú 76 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur upphæð sem er tæplega átta sinnum verðmeiri en allur íslenski hlutabréfamarkaðurinn, eða um átta þúsund milljörðum króna.
2. Hjartað í starfseminni er í Bandaríkjunum þar sem yfir 500 vöruhús á vegum fyrirtækisins eru en 94 vöruhús eru í Kanada. Í Evrópu eru 28 vöruhús í Bretlandi en samtals eru þau nú 730 talsins, og stefnir félagið að miklum vexti á næstu árum.
3. Samtals eru 85 milljónir manna með Costco aðildaráskrift, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra, en til samanburðar þá eru Amazon Prime meðlimir - sem greiða mánaðarlega til Amazon - um 70 milljónir. Þessi tvö af stærstu og mest hratt vaxandi smásölufyrirtækjum heims eru bæði með höfuðstöðvar á Seattle svæðinu. Costco er þriðja verðmætasta smásölufyrirtæki heims á eftir Walmart og Amazon, sem er langsamlega verðmætasta félagið, með markaðsvirði upp á 460 milljarða Bandaríkjadala.
4. Í krafti þessarar miklu stærðar hefur félagið geta stundað hagkvæm innkaup. Ekki síst það atriði gæti haft mikið að segja á Íslandi, þar sem félagið er nýtt á markaði á Íslandi og gæti nýtt sér það með því að bjóða mun lægra verð en aðrir - bæði heildsalar og verslanir - þegar það er að koma sér fyrir á markaði. Samkvæmt frétt Stöðvar 2 frá því á laugardag þá hafa nú þegar, áður en verslunin opnar formlega, 35 þúsund keypt Costco aðild. Það þykir einstakt í sögu fyrirtækisins, sé horft til hlutfalls af heildarstærð markaðarins.
5. Fyrstu vísbendingar um verðlagningu benda til þess að innkoma Costco gæti stuðlað að mikilli lækkun á verðum á ýmsum vörum, þar á meðal á eldsneyti. Upphafsverðið er 169,9 krónur á bensínlítrann en viðmiðunarverðið í maí, hjá íslensku olíufélögunum, hefur verið 195,5 krónur, samkvæmt bensínvakt Kjarnans (lesendur eru hvattir til að fylgjast með henni). Í verslunum Costco fást alls konar vörur. Bíldekk, sjónvörp, matvara, lyf, áfengi í heildsölu, leikföng, húsgögn, og raunar margt, margt fleira. Í krafti þessa fjölbreytileika reynir Costco að bjóða sem mesta verslunarupplifun fyrir þá sem hafa Costco aðild.
6. Þrátt fyrir að Costco sé risavaxið á alla mælikvarða, í samanburði við íslenska hagkerfið, þá á eftir að koma í ljósi hversu mikil áhrifin af innkomu fyrirtækisins verða á Íslandi. Stærsta smásölufyrirtæki landsins, Hagar, var með árlegar tekjur upp rúmlega 80 milljarða í fyrra, en það rekur verslanir á eftir þrjátíu stöðum um land allt. Costco er hins vegar aðeins með þessa einu veru verslun, og takmarkast áhrifin því þó nokkuð vegna þessa. En það er ekki síst á sviði heildverslunar fyrir fyrirtæki þar sem áhrifin gætu orðið mikil. Aukin samkeppni um verð, neytendum til heillar, er hins vafalítið það sem mun skipta mestu máli fyrir heimilin.