Topp 10: Kvikmyndir eftir teiknimyndasögum

Teiknimyndasögur hafa fært okkar margar frábærar kvikmyndir.

Kristinn Haukur Guðnason
roadtoperdi
Auglýsing

Síðustu 15 ár eða svo hafa Marvel, DC Comics og Dark Horse Comics pumpað út eins mikið af ofurhetjukvikmyndum, byggðum á teiknimyndasögum, eins og þeir mögulega geta. Flestar eru þær áþekkar og einkennast fremur af gróðasjónarmiðum heldur en listrænni sköpun. Árið 2017 er engin undantekning og mun m.a. gefa okkur þriðju Thor-myndina, sjöttu Spider-Man myndina, tíundu X-Men myndina  og tvær myndir um Wonder Woman. En þó að formið sé gróflega ofnotað þá er það ekki alsæmt og fjölmargar frábærar kvikmyndir hafa verið gerðar sem byggðar eru á teiknimyndasögum.

10. Kick-Ass (2010)

Teiknimyndasögurnar um Kick-Ass birtust fyrst á prenti í febrúar árið 2008 og peningamennirnir hjá Marvel gátu ekki beðið því þremur mánuðum seinna var hafist handa við að skrifa kvikmyndahandrit um hetjuna. Kick-Ass er nokkurs konar satíra á ofurhetjuformið því að einu eiginlegu “ofurkraftarnir” sem hann hefur er að vera nógu taugaskaddaður til að finna ekki fyrir sársauka. Ofan á það er búningurinn hans einn sá ljótasti sem til er og lítur út eins og of stór kafarabúningur. Flestar persónurnar eru börn eða unglingar og myndin er augljóslega stíluð inn á þann hóp líkt og Spider-Man á sínum tíma. Internetið spilar stóra rullu sem og skólalífið. Bestu karakterar myndarinnar eru feðginin Hit-Girl og Big Daddy sem eru alvöru ofurhetjur en til að undirstrika satíruna er Big Daddy leikinn af Nicolas Cage sem er fyrir löngu búinn að brenna allar brýr að baki sér sem alvarlegur leikari og er nú eins konar internet-brandari. Kick-Ass minnir nokkuð á Mystery Men (1999) í sínu góðlátlega háði á aðrar ofurhetjur, og það tekst einstaklega vel.

Auglýsing

9. From Hell (2001)

From Hell er byggð á seríu sem Alan Moore skrifaði á árunum 1989 til 1996 og fjallar um leitina að raðmorðingjanum Kobba kviðristu (Jack the Ripper). Morðin áttu sér stað í Lundúnum á árunum 1888 til 1891 og eru enn óleyst. Mýmargar kenningar eru til um hver Kobbi var, þar á meðal sú sem sett er fram í From Hell. Teiknimyndaserían og kvikmyndin eru mjög ólík, bæði hvað varðar söguþráð og andrúmsloft. Í teiknimyndasögunni er strax sagt hver morðinginn er, þ.e. læknir konungsfjölskyldunnar William Gull, og fylgst er náið með honum og sálarlífi hans. Í myndinni er því haldið leyndu en fremur fylgst með yfirskilvitlega rannsóknarlögreglumanninum Frederick Abberline, leiknum af sjarmatröllinu Johnny Depp. Sagnfræðilega eru bæði teiknimyndasagan og kvikmyndin vafasamar í besta falli (sérstaklega varðandi frímúrararegluna), en sem listaverk og glæpasaga standa þær fyrir sínu. From Hell er spennandi, hrollvekjandi, einstaklega vel kvikmynduð og vel gerð í alla staði.


8. Ghost World (2001)

Unglingsstúlkur víða um heim lásu Ghost World upp til agna um miðjan tíunda áratuginn og þegar samnefnd kvikmynd kom út varð hún samstundis költari. Vinkonurnar Enid (Thora Birch) og Rebecca (Scarlet Johansson) eru nýútskrifaðar úr menntó og vita ekkert hvað þær ætla að gera við líf sitt. Þær fyrirlíta umhverfi sitt og tala nær eingöngu í kaldhæðni. Skarð kemur í vináttuna þegar Enid verður hrifin af skrítnum eldri einfara (Steve Buscemi) á meðan Rebecca fullorðnast og finnur sig í nýrri vinnu. Handrit myndarinnar er ekki skrifað beint eftir söguþræði teiknimyndasögunnar en vakti engu að síður mikla lukku. Boðskapurinn skilaði sér alveg jafn vel og ungt fólk átti auðvelt með að tengja sig við vinkonurnar tvær og aðstæður þeirra. Því að þrátt fyrir að vera ótrúlega niðurdrepandi og neikvæðar eru þær heillandi og fyndnar á sinn hátt. Þrátt fyrir góða gagnrýni fékk myndin mjög litla dreifingu og er í dag talinn falinn gimsteinn.

7. The Addams Family (1991)

Charles Addams teiknaði Addams fjölskylduna fyrir tímaritið The New Yorker í hálfa öld, frá 1938 til 1988, og gaf út bækur með samanteknu efni. Fjölskyldan skuggalega birtist einnig í þekktum sjónvarpsþáttum á sjöunda og áttunda áratugnum. Árið 1991 tók kvikmyndatökumaðurinn Barry Sonnenfeld það að sér að leikstýra fyrstu kvikmyndinni við góðar undirtektir áhorfenda en skelfilegar undirtekir gagnrýnenda. Handrit myndarinnar er ekki merkilegt og húmorinn oft á tíðum kjánalegur. En persónur myndarinnar eru eftirminnilegar og einstaklega vel leiknar á sinn ýkta hátt. Hin 10 ára gamla Christina Ricci varð samstundis stjarna eftir að hafa túlkað Wednesday, tilfinningalaust raðmorðingjabarn, og Raul Julia skein sem hinn blóðheiti og akróbatíski fjölskyldufaðir Gomez. Christopher Lloyd á þó myndina skuldlaust sem hinn snarruglaði Fester frændi, enda snýst myndin að mestu leyti um hann. Brellur myndarinnar voru langt á undan sinni samtíð og gotneska leikmyndin á pari við bestu verk Tim Burton.


6. Sin City (2005)

Frank Miller leikstýrði Sin City ásamt Robert Rodriguez, sögu sem hann skrifaði sjálfur í upphafi tíunda áratugarins. Sjónrænt séð er kvikmyndin eins og teiknimyndasaga vakin til lífs. Hún var öll tekin upp í kvikmyndaveri með grænskjá, svarthvít með einstaka litaslettum hér og þar. Þessi aðferð dregur fram einstakt andrúmsloft teiknimyndasögunnar sem sameinar bæði glæpasagnahefð film noir tímans og hömlulaust ofbeldi. Talið í myndinni er einnig að miklu leyti tekið beint upp úr sögunum enda er hún stútfull af einlínungum. Líkt og teiknimyndasögurnar er kvikmyndin safn smásagna sem gerast þó á sama stað og á sama tíma. Myndin er prýdd stórstjörnum á borð við Bruce Willis, Jessicu Alba, Elijah Wood, Clive Owen og Benicio Del Toro. Uppáhald flestra er þó Mickey Rourke sem leikur berserkjatröllkarlinn Marv. Sin City er virkilega sérstök reynsla og vakti athygli gagnrýnenda og bíógesta. Aðdáendur vildu vitaskuld framhald, en þegar Rodriguez og Miller færðu þeim það loksins 9 árum seinna féll það í mjög grýttan jarðveg.

5. La Vie d´Adéle – Chapitres 1 &2 (2013)

Líf Adéle, kafli 1 & 2 er þekkt á ensku sem Blue Is the Warmest Colour sem er bein þýðing á titli teiknimyndasögunnar sem hún er byggð á, Le bleu est une couleur chaude. Julie Maroh skrifaði söguna árið 2010 og líkt og Maroh sjálf eru tvær aðalsögupersónurnar, Adéle og Emma, samkynhneigðar. Myndin er ástarsaga sem gerist yfir langan tíma og myndin sjálf er næstum þrír klukkutímar á lengd. Adéle og Emma eru í mynd allan tímann og því kynnist maður þeim og sambandi þeirra mjög vel og þá sérstaklega Adéle sem kemur út úr skápnum á skólaárunum. Myndin inniheldur grófar kynlífssenur sem sumir myndu segja óþarfar en þær voru einnig til staðar í teiknimyndasögunni. Leikkonurnar Adéle Exarchopolous og Léa Seydoux eru báðar óaðfinnanlegar í hlutverkum sínum og voru stór þáttur í því að myndinni var veittur Gullpálminn á Cannes kvikmyndahátíðinni vorið 2013.


4. Deadpool (2016)

Wade Wilson, eða Deadpool, er ein af seinni tíma ofurhetjunum úr Marvel heiminum, skapaður árið 1991. Upprunalega var hann býsna óáhugaverður karakter en hann sprakk út eftir að hann öðlaðist meðvitund um að hann væri teiknimyndapersóna. Vinsældirnar skýrðust einnig á hversu klúr, fyndinn og mannlegur hann er. Eftir að Marvel byrjuðu að dæla út ofurhetjumyndum upp úr aldamótum var því einungis tímaspursmál hvenær Deadpool kæmist á hvíta tjaldið því hann er fullkominn fyrir þann miðil. Margir efuðust hins vegar þegar tilkynnt var að Ryan Reynolds myndi leika hann því að Reynolds hafði áður leikið Grænu Luktina í skelfilega misheppnaðri mynd árið 2011. Hér sló hann hins vegar í gegn. Söguþráður myndarinnar Deadpool er hræómerkilegur en hann skiptir í raun engu máli. Það er persónan Deadpool og húmorinn gerir myndina ógleymanlega enda var hún hátt skrifuð hjá gagnrýnendum og fyllti öll kvikmyndahús.


3. Batman (1989)

Teiknimyndasögurnar um Batman komu fyrst út árið 1939 og þróuðust á ýmsa vegu í gegnum áratugina. Almenningur þekkti hins vegar Batman fyrst og fremst úr súrum grínþáttum frá sjöunda áratugnum með Adam West í aðalhlutverki. Hin dökka og alvarlega Batman leikstjórans Tim Burton breytti því algerlega. Michael Keaton, sem jafnan er þekktur fyrir lífleg gamanhlutverk, er svo stífur að það varla hreyfist í honum blóðið nema þá rétt til að lúskra aðeins á fjendum sínum. Andstæðan við hann er hinn vitfirrti, afmyndaði en umfram allt líflegi Jóker sem er jafnframt senuþjófur myndarinnar. Jack Nicholson skapaði illmenni sem engum hefur enn tekist að skáka þrátt fyrir urmul ofurhetjumynda. Þrjár misheppnaðar framhaldsmyndir fylgdu í kjölfarið á tíunda áratugnum áður en Christopher Nolan tók seríuna upp á sína arma árið 2005 og gerði hana enn drungalegri og ofbeldisfyllri við góðar undirtektir.


2. 300 (2006)

300 er byggð á samnefndri teiknimyndasögu Frank Miller frá árinu 1998 og segir af orrustunni um Thermopylae milli Grikkja og Persa og goðsögninni um hina 300 Spartverja. Þó hún sé sagnfræðilega vafasöm þá er hún algerlega sönn bók Millers, ramma fyrir ramma. Líkt og teiknimyndasagan er 300 sjónrænt ferðalag. Myndin hefur rauðbrúnan tón og kvikmyndatakan byggir á vel tímasettum hraðabreytingum. Búningarnir og leikmyndin eru ýkt, bardagarnir ótrúverðugir og persónusköpunin er nákvæmlega engin. Annars lagið bregður fyrir skrímslum og afmynduðu fólki líkt og um fornan sirkus sé að ræða. En þannig er líka bók Millers og 300 er því ekki að þykjast vera neitt annað en hún er. Það verður að segjast eins og er að leikaranum Gerard Butler tekst fullkomlega að skapa tölvuleikjaútgáfu af Spörtukóngnum Leonidas I og í leiðinni varð til eitt þekktasta internet-meme samtímans: THIS IS SPARTA!!!


1. Road to Perdition (2002)

Road to Perdition var gerð eftir fyrstu bókinni í samnefndri seríu eftir Max Allan Collins. Myndin gerist í Chicago og nágrenni á fjórða áratugnum og fjallar um írsku og ítölsku glæpagengin. Svik og hefnd er meginþema myndarinnar en einnig samband feðra og sona. Stórleikararnir Tom Hanks og Paul Newman bera myndina uppi og sá síðarnefndi var tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir vikið. Þá spilar Jude Law einnig stóra rullu sem fyrirlitlegur flugumaður. Myndin er einmanaleg, hráslagaleg og ofbeldisfull líkt og teiknimyndasagan. En tveir helstu kostirnir við hana eru áhrifamikil tónlist Thomas Newman og einstök kvikmyndataka Conrad L. Hall. Hall nýtti ramma úr myndasögunni að miklu leyti við tökur sem og ýmis málverk sem gerð voru á þessum tíma í Chicago. Það sem einkennir töku myndarinnar eru þó hin fjölmörgu löngu skot sem eru eins og listaverk í sjálfu sér. Hall fékk óskarsverðlaun fyrir Road to Perdition en því miður lést hann skömmu áður en hann gat tekið við þeim.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar