- Lengi hafði verið rætt um að stofna þyrfti nýtt millidómstig á Íslandi. Á árunum eftir hrunið voru margir sérfræðingar á því að nauðsynlegt væri að setja það á fót til að létta álagi af Hæstarétti en tryggja að sönnunarfærsla færi fram á tveimur dómstigum. Undirbúningsnefnd var skipuð og hún skilaði af sér skýrslu árið 2014. Í maí 2016 samþykkti Alþingi svo frumvarp þess efnis að hið nýja millidómsstig, Landsréttur, yrði stofnað.
- Ákveðið var að dómarar í Landsrétti yrðu 15 talsins og samhliða yrði dómurum við héraðsdómstóla fjölgað úr 38 í 42. Dómurum við Hæstarétt Íslands yrði hins vegar fækkað úr níu í sjö.
- Þann 10. febrúar 2017 voru embætti 15 dómara við Landsrétt auglýst til umsóknar, en rétturinn mun hefja starfsemi sína í byrjun árs 2018. Alls sóttu 37 um stöðurnar, fjórtán konur og 23 karlar. Fjórir drógu síðar umsóknir sínar til baka.
- Árið 2010 var lögum um skipan dómara breytt þannig að fimm manna dómnefnd var sett á laggirnar til að velja dómara og vægi ákvörðunar nefndarinnar aukið þannig að ráðherra yrði bundinn við niðurstöðu hennar. Þessar breytingar voru m.a. gerðar til að auka tiltrú á dómstóla og þrískiptingu valds á Íslandi í kjölfar afar umdeildra skipana dómara þar sem rökstuddur grunur var um að annað ef hæfni hefði ráðið för við skipun. Er hægt að nefna skipun Þorsteins Davíðssonar, sonar Davíðs Oddssonar, í embætti héraðsdómara án þess að hann hafi verið talinn nálægt því hæfastur umsækjenda. Það má líka rifja upp skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar, náfrænda Davíðs, í embætti Hæstaréttardómara þrátt fyrir að þrír umsækjendur hafi verið taldir hæfari. Lagabreytingin gerði þó ráð fyrir að dómsmálaráðherra geti vikið frá niðurstöðu dómnefndar og lagt nýja tillögu fyrir Alþingi til samþykktar, samkvæmt lögunum. Í ljósi þess að skipan í Landsrétt var umfangsmesta nýskipun dómara í Íslandssögunni var ákveðið að listinn yfir þá sem tilnefndir yrðu til verksins yrði lagður fyrir Alþingi óháð því hvort dómsmálaráðherra legði til breytingar eða ekki. Um yrði að ræða fyrsta skipti sem Alþingi kæmi að skipun dómara.
- 12. maí birti Kjarninn lista yfir þá 15 sem dómnefndin hafði metið hæfasta til að sitja í Landsrétti. Um er að ræða þann lista sem sendur hafði verið út til umsækjenda um embættin. Það vakti athygli að dómnefndin hefði talið nákvæmlega 15 umsækjendur hæfa til að gegn nákvæmlega 15 embættum. Um var að ræða tíu karla og fimm konur. Þeir sem voru á listanum voru: Aðalsteinn E. Jónasson hæstaréttarlögmaður, Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, Davíð Þór Björgvinsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Eiríkur Jónsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hæstaréttarlögmaður, Jóhannes Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, Jón Höskuldsson héraðsdómari, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður, Oddný Mjöll Arnardóttir prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, Sigurður Tómas Magnússon atvinnulífsprófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness. Eftir að Kjarninn birti listann kom dómsmálaráðuneytið því á framfæri að dómnefndin hefði ekki enn lokið störfum.
- 29. maí afhenti Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra forseta Alþingis tillögu sín að skipun í embætti 15 dómara við Landsrétt. Tillaga Sigríðar var önnur en sú sem dómnefnd hafði lagt til. Fjórir umsækjendur sem dómnefnd hafði talið á meðal þeirra 15 sem hæfastir voru í embættin hlutu ekki náð fyrir augum ráðherra og í þeirra stað voru fjórir aðrir settir inn á listann. Kynjahlutföll voru nú þannig að átta karlar og sjö konur yrðu dómarar við réttinn. Í ljós kom að Sigríður taldi 23 umsækjendur hæfasta, en ekki 15, og hún valdi þá sem hún gerði tillögu um úr þeim hópi. Dómsmálaráðherra rökstuddi þó ekki breytta röðun sína með kynjasjónarmiðum heldur sagðist hún hafa aukið vægi dómarareynslu. Hún lagði ekki fram nein gögn sem sýndu fram á hvernig það hafi verið gert. Ástráður Haraldsson, einn þeirra sem dómnefnd hafði mælt með en Sigríður fjarlægði af listanum, sendi samdægurs bréf til forseta Alþingis þar sem hann sagði að þau frávik sem ráðherra geri á tillögu dómnefndarinnar uppfylli á engan hátt kröfur sem gera verði varðandi skipan dómara og sem umboðsmaður Alþingis og dómstólar hafi lagt til grundvallar. Um sé að ræða ólögmæta embættisfærslu. Sigríður hafnaði því algjörlega.
- Daginn eftir, 30. maí, birti Kjarninn lista dómnefndarinnar yfir hæfi umsækjenda. Þar kom í ljós að einn þeirra sem Sigríður fjarlægði af listanum, Eiríkur Jónsson, hafði verið með sjöundu hæstu einkunnina samkvæmt nefndinni. Þar kom enn fremur fram að einn þeirra sem Sigríður ákvað að skipa, Jón Finnbjörnsson, hafði verið metinn á meðal þeirra minnst hæfu af nefndinni. Hann sat í 30. sæti á listanum af 33 umsækjendum. Auk þess var ljóst að rökstuðningur dómsmálaráðherra, um að auka vægi dómarareynslu, rímaði ekki við einu fyrirliggjandi úttektina á dómarareynslu. Í 117 blaðsíðna ítarlegri umsögn dómnefndar um umsækjendur er reynsla umsækjenda af dómsstörfum meðal annars borin saman. Þar kemur í ljós að þrír umsækjendur sem lentu neðar en Eiríkur í heildarhæfnismati dómnefndar voru með minni dómarareynslu en hann, en rötuðu samt sem áður inn á lista Sigríðar yfir þá sem hún vill skipa í dómarasætin 15. Jón Höskuldsson, sem dómnefndin setti í 11. sæti, hlaut heldur ekki náð fyrir augum ráðherra. Jón er þaulreyndur dómari og hefði átt að færast upp listann frekar en niður hann ef slík reynsla væri metin umfram aðra. Í hans stað ákvað Sigríður m.a. að skipa Ásmund Helgason, sem hafði verið settur í 17. sæti af dómnefnd. Í umsögn Jóns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að hann og Ásmundur hafi verið skipaðir héraðsdómarar sama dag, 15. maí 2010. Ásmundur þótti þó hafa eilítið meiri reynslu vegna þess að hann hefur auk þess setið í félagsdómi og verið ad hoc-dómari í Hæstarétti í einu máli. Þá er ótalið að Ólafur Ólafsson, sem dómnefnd mat einn þeirra fjögurra sem hafi næst mesta dómarareynslu, hlaut ekki náð fyrir augum Sigríðar þrátt fyrir að hafa lent í 27. sæti á upphaflegum lista dómnefndar, eða þremur sætum ofar en Jón Finnbjörnsson, sem Sigríður ákvað að tilnefna.
- Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Lögmannafélag Íslands gagnrýndi ákvörðun dómsmálaráðherra um að breyta röðun á listann og í umsögnum sem hæstaréttarlögmaðurinn Jóhannes Karl Sveinsson sendi inn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagðist hann hafa verið í áfalli þegar hann las rökstuðning dómsmálaráðherra. Þau uppfylli engar lágmarkskröfur stjórnsýslu um rökstuðning og standist auk þess „enga efnislega skoðun“. Jóhannes Karl segir í umsögninni að það sé „alþekkt að sumir ráða ekki við freistinguna að skipa vini sína, skoðanabræður og systur eða jafnvel ættingja í embætti. Þeir ganga fram hjá þeim sem þeir telja með óheilbrigðar skoðanir á þjóðmálum eða þeir telja sig eiga eftir að jafna einhverjar sakir við. Síðustu 10 árin hefur réttarkerfið glímt við afleiðingar af skipunum af þessum toga í embætti dómara. Vantraust og tortryggni gripu um sig eftir skipanir í lok árs 2007 með dapurlegum afleiðingum fyrir alla sem í hlut áttu[...]Þegar svona forkastanleg vinnubrögð sjást þá leita menn annarra skýringa. Lét dómari stjórnmálaskoðanir (fortíðar) ráða þegar tilteknir umsækjendur voru látnir gossa út af dómnefndarlistanum? Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt. Alþingi er skylt að taka málið til gaumgæfilegrar skoðunar og má ekki taka að sér hlutverk stimpilpúða fyrir framkvæmdavaldið í þetta sinn. Það er allt of mikið í húfi!“
- Tekist var harkalega á um málið á Alþingi í kjölfarið. Stjórnarandstaðan sagði tillögu dómsmálaráðherra vera alveg órökstudda og kallaði eftir lengri tíma til að fara yfir málið. Til stóð að afgreiða málið miðvikudaginn 31. maí, og ljúka þingstörfum þann sama dag. Það náðist ekki og þetta eina mál varð til þess að þing þurfti að koma saman 1. júní. Þar var hnakkrifist um málið og stjórnarliðar kynntu ýmis sjónarmið sín fyrir því að styðja tillögur ráðherra. Þau voru t.d. að Alþingi ætti ekki að hafa vald til að taka ákvörðun í svona máli þar sem það bæri ekki ábyrgð, heldur ráðherrann. Aðrir sögðu kynjasjónarmið hafa ráðið úrslitum og enn aðrir sögðust telja að ráðherrann hefði rökstutt mál sitt nægjanlega vel, en hún bar við auknu vægi dómarareynslu í rökstuðningi sínum. Stjórnarandstaðan lagði fram frávísunartillögu sem var felld 31-30. Hún gerði ráð fyrir meiri málsmeðferðartíma fyrir tillögu ráðherra. Í kjölfarið var tillaga ráðherra samþykkt með 31 atkvæða þingmanna Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar gegn atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna. Framsóknarflokkurinn sat hjá. Svandís Svavarsdóttir, VG, og Brynjar Níelsson, Sjálfstæðisflokki, voru ekki viðstödd atkvæðagreiðsluna, vegna tengsla við umsækjendur um starf dómara við Landsrétt. Svandís var gift Ástráði Haraldssyni og á með honum Börn og eiginkona Brynjars er ein þeirra sem ráðherra skipaði í Landsrétt.
- Málinu er þó ekki lokið. Ástráður Haraldsson hefur stefnt íslenska ríkinu vegna skipunarinnar. Þegar hefur verið óskað eftir því að málið fái flýtimeðferð og í stefnunni er gerð krafa um miskabótakröfu upp á eina og hálfa milljón króna, að bótaskylda verði viðurkennd og að ákvörðun Alþingis um skipun dómara verði gerð ógild. Tveir aðrir sem fjarlægðir voru af skipanalistanum, Jón Höskuldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hafa sagt að þeir séu að íhuga stöðu sína. Auk þess hafa fulltrúar Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd farið fram á að þáttur dómsmálaráðherra í málinu verði rannsakaður.
Tíu staðreyndir um skipan dómara í Landsrétt
Skipan dómara við nýjan Landsrétt er gríðarlega umdeild. Fjallað var ítarlega um málið í nýjasta sjónvarpsþætti Kjarnans. Og hér er yfirlit yfir aðalatriði þess.
Auglýsing
Við þurfum á þínu framlagi að halda
Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.
Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.
Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.
Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.
Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.
Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.
Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.
MorgunpósturinnEkki missa af neinuNánar