Mikill munur er á kosninganiðurstöðum og kjörsókn eftir aldri í nýafstöðum allsherjarkosningunum til enska þingsins. Eru þetta niðurstöður úr könnun bresku greiningastofnunarinnar YouGov, sem birt var á dögunum. Niðurstöðurnar virðast vera í takt við þróun sem hefur átt sér stað á Vesturlöndum.
Í kjölfar allsherjarkosninganna sem fóru fram í Englandi 8. júní síðastliðinn framkvæmdi breska greiningastofnunin YouGov könnun á kosninganiðurstöðum og kjörsókn eftir aldri, stétt, kyni, menntun og stöðu á vinnumarkaði. Úrtak könnunarinnar var stórt, en tæp 53 þúsund kjósenda svöruðu henni.
Samkvæmt könnuninni er gífurlegur munur á kosninganiðurstöðum eftir aldurshópum. Aðeins 19% kjósenda undir tvítugu kusu Íhaldsflokkinn, á meðan sama hlutfall meðal kjósenda yfir sjötugu er 69%. Svo sterk er fylgnin milli aldurs og atkvæða til Íhaldsflokksins að með hverju aldursári jukust líkur bresks kjósenda á að kjósa Íhaldsflokkinn um tæpt 1%.
Bein fylgni var einnig milli kjörsóknar og aldurs, en hún var aðeins 57% kjósenda undir tvítugu, miðað bið 84% kjósenda yfir sjötugt. Þar sem mikill munur hafi verið á kjörsókn og stjórnmálaskoðunum eftir aldri er ljóst að sigur Íhaldsflokksins hafi aðallega verið tilkominn vegna eldri kjósenda, en flokkurinn hlaut um 44% atkvæða í kosningunum.
Þrátt fyrir að kjörsókn ungra kjósenda hafi verið undir meðallagi var hún meiri en búist var við í aðdraganda kosninganna. Samkvæmt niðurstöðum YouGov er hægt að álykta að óvænt kjörsókn ungra kjósenda hafi verið ein af meginástæðum þess að Verkamannaflokkurinn hafi fengið mun meiri atkvæði en búist var við. Þegar blásið var til kosninga 18. apríl mældist flokkurinn í 25%, en fékk svo rúmlega 40% atkvæða á kjördag.
Samhliða kjörsókn og aldri einnig virtist menntunarstig einnig tengjast kosninganiðurstöðum með marktækum hætti. Kjósendur með lægra menntunarstig voru mun líklegri til að hafa kosið Íhaldsflokkinn, 55% kjósenda sem höfðu lokið GCSE-próf (ígildi gagnfræðaprófs) eða minna kusu hann, samanborið við 32% kjósenda með háskólagráðu. Kosningaúrslit voru einnig skoðuð eftir kyni og þjóðfélagsstöðu, en ekki reyndist mikill munur á kjörfylgi flokka milli þeirra hópa.
Svipuð þróun á Vesturlöndum
Niðurstöður könnunarinnar samrýmast ágætlega niðurstöðum annarra kannanna, bæði í Englandi (hér og hér) og í Bandaríkjunum. Kjörsókn eldri kjósenda hefur að jafnaði verið meiri en yngri kjósenda og eru þeir einnig líklegri til að kjósa íhaldssama flokka. Niðurstaða þessara tveggja þátta gæti þannig leitt til aukins vægis íhaldssamari flokka á þingi en endurspegli stjórnmálaskoðunum allra sem eru kjörgengir. Vægi eldri kjósenda hefur einnig aukist samhliða hækkandi meðalaldurs á Vesturlöndum á síðustu áratugum, en ástandið hefur orðið að hugtaki innan stjórnmálafræðinnar, sem á ensku er kallað „gerontocracy”.
Sennilegt er að slíkt ástand ríki að einhverju leyti á Íslandi líka, en líkt og Kjarninn greindi frá fyrir tveimur árum voru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn langvinsælastir meðal kjósenda 68 ára og eldri. Einnig virðast eldri kjósendur vera mun duglegri að skila sér á kjörstað á Íslandi. Í síðustu Alþingiskosningum kusu 69% kjósenda undir tvítugu, samanborið við 90% kjósenda á aldursbilinu 65-69 ára, eins og sést á mynd að ofan.