Loftslagsmál eru eitt mikilvægasta viðfangsefni mannkyns um þessar mundir. Loftslagsmál fjalla ekki aðeins um byggileika afskekktra eyja eða skógarelda sem ógna heimilum milljóna um heim allan. Loftslagsmál varða tilveru mannkyns á jörðinni.
Loftslagsmál eru þess vegna ekki aðeins verkefni stjórnmálamanna eða veðurfræðinga heldur verkefni alls mannkyns. Það er mikilvægt að allir sem hafa til þess einhver efni leggi hönd á plóg.
Enn eru þó þeir sem telja loftslagsvandann ekki vera raunverulegan. Efasemdafólk skiptist raunar í tvo hópa: Þau sem hafna því að hlýnun loftslags sé að eiga sér stað og þau sem segja vandamálið raunverulegt en halda því fram að það sé ekki af mannavöldum.
Sannfæring fólks, hvort sem það er um að loftslagsvandinn sé raunverulegur eða ekki, byggir oftar en ekki á því sem okkur er sagt. Meirihluti mannkyns mun ekki finna fyrir loftslagsvandanum á eigin skinni fyrr en eftir mörg ár eða áratugi.
Fólk verður því að taka afstöðu til þess sem vísindamenn hafa sýnt fram á og bera sig eftir skýringum á því sem það skilur ekki. Það getur reynst erfitt að kynna sér allar mögulegar birtingarmyndir loftslagsbreytinga.
Hér á eftir fara fimm atriði sem allir ættu að geta verið sammála um að séu raunverulega til marks um að loftslagsbreytingar séu þegar farnar að hafa áhrif á veröldina okkar og lífsviðurværi.
Mengun er slæm
Það er augljóst að súrefni og loftgæði eru lífsnauðsynlegir þættir fyrir allt líf á jörðinni. Það liggur í augum uppi að lífsgæði fólks skerðast verulega ef loftgæðin eru slæm, enda eykur það líkurnar á öndunarfærasjúkdómum, eykur óþægindi og getur dregið fólk til dauða ef aðstæðurnar eru sérstaklega slæmar í lengri tíma.
Í drögum að nýrri áætlun um loftgæði á Íslandi til 12 ára, sem birt var á vef Umhverfisstofnunar á fimmtudag, kemur fram að nærri 80 ótímabær dauðsföll megi rekja til útsetningar svifryks á Íslandi á hverju ári.
Ísland er hins vegar mun betur statt en mörg önnur ríki heims. Það þekkja eflaust flestir myndir úr stærstu borgum Kína þar sem mengun innan borganna er svo mikil að ekki sést á milli húsa.
Manneskjan mengar
Það vefst enginn í vafa um að með auknum umsvifum mannfólks á jörðinni þá hefur mannfólkinu tekist að menga vistarverur sínar í náttúrunni. Við röskum heilu vistkerfunum með áhrifum okkar, hvort sem það er við uppgröft náttúrulegra efna eða við notkun þeirra.
Þegar hvað verst hefur farið hafa heilu landsvæðin orðið óbyggileg vegna umsvifa mannsins. Þekktasta dæmið um þetta er kannski kjarnorkuslysið í Chernobyl í Úkraínu, þar sem geislun er svo mikil að engu lifandi er hætt að vera þar nema hljóta varanlegan skaða af.
Allt mannfólk mengar líka á hverjum einasta degi, hjá því verður ekki komist. Sumir menga hins vegar mun meira en aðrir og má nær undantekningarlaust skipta mannkyni í hópa eftir búsetu á jörðinni hvað þetta varðar. Þar sem velmegun er meiri mengar fólk meira.
Það verður óhjákvæmilegur fylgifiskur mannfólks að það mengar. Lausnin er hins vegar að draga úr þessari mengun þar sem það er hægt.
Á Íslandi geta einstaklingar brugðist við með því að keyra minna, nýta sér vistvænni samgöngur, flokka rusl, versla vistvænni vörur og taka fjölnota poka með í innkaupaferðir. Svona mætti lengi telja upp lausnir.
Hægt er að kynna sér betur hvernig þú getur brugðist við á sérstökum vef Umhverfisstofnunar fyrir einstaklinga.
Ofsaveður
Hnattrænt hitastig hefur hækkað hratt undanfarna áratugi. Hitamet á ársgrundvelli hafa fallið oft á síðustu árum. Árið 2016 var til dæmis lang heitasta ár að jafnaði síðan nútímamælingar hófust á síðari hluta 19. aldar.
Sveiflurnar eru hins vegar ekkert ofboðslega miklar á hverjum stað fyrir sig, en þær geta haft gríðarleg áhrif á veðrakerfi. Mun fleiri ofsaveður víða um heim eru rakin til hækkunar meðalhitastigs um fáeinar gráður.
Breytt veðurmynstur hafa einnig haft breytingar á úrkomumynstri í för með sér. Stór hluti mannkyns reiðir sig sérstaklega á árstíðabundin úrkomutímabil sem hafa raskast. Á stórum svæðum rignir orðið lítið sem ekkert allan ársins hring sem ógnað hefur vatnsbúskap og neysluvatnstöðu fjölmennra svæða. Fjölmennasta ríki Bandaríkjanna, Kalifornía, hefur glímt við þetta vandamál undanfarin ár.
Ísinn hverfur
Hlýnun jarðar hefur það í för með sér að ísbreiður heimsins, hvort sem það er í sjó eða á landi, bráðna. Það liggja ekki flókin vísindi að baki þessari staðreynd; Ís bráðnar og verður að vatni ef hitastigið umhverfis hann er hærra en 0 gráður.
Stórar ísbreiður á norður- og suðurhveli jarðar gegna mikilvægu hlutverki í temprun hitastigs á jörðinni. Það er hlutverk sem vísindamenn eru sífellt að skilja betur, eftir því sem ísbreiðurnar, sérstaklega á norðurskautinu, bráðna meira.
Hvítur ísinn endurkastar geislum sólar aftur út í geim. Sólarorkan bindist þess vegna ekki innan lofthjúps jarðar eða í höfunum. Eðli málsins samkvæmt endurkastast færri sólargeislar, því minni sem ísbreiðan er.
Bráðinn ísinn, vatnið, rennur á endanum allur til sjávar. Aukið magn ferskvatns og mun kaldara vatn hefur áhrif á hafstrauma og þar af leiðandi mannvist á jörðinni. Heitir hafstraumar sem berast til Íslands flytur einnig hlýrra loft hingað (hvort sem við kunnum að meta lægðirnar eða ekki) og skapa skilyrði fyrir fiskitegundir í höfunum umhverfis landið.
Loftslagsflótti
Manneskjan er mjög háð náttúrunni og á allt undir því komið að náttúrulegar aðstæður breytist ekki í umhverfi sínu. Vegna loftslagsbreytinga hafa náttúrulegar aðstæður hins vegar verið að breytast þannig að fólk þarf að yfirgefa heimkynni sín.
Breytingarnar geta verið vegna þurkka, eyðimerkurmyndunar, hækkunar sjávarborðs eða breytingar á árstíðabundinni úrkomu. Vegna þurrka er hættan á gróðureldum mun meiri en ella, vegna mikilla svæðisbundinna hitabreytinga myndast eyðimerkur því engar plöntur geta gróið í þurrum hitanum og bráðnun heimskautaíss veldur hækkun á yfirborði sjávar sem gengur á land og hrifsar með sér allt sem í vegi verður.
Allt eru þetta vandamál sem fólk víða í heiminum glímir við í dag.
Stjórnvöld í eyríkinu Kíríbati hafa til dæmis fest kaup á landsvæði á Fiji-eyjum til þess að tryggja fólki sínu stað í veröldinni eftir að eyjurnar sökkva í sæ.
Mongólar berjast við Gobi-eyðimörkina sem étur sífellt stærri svæði af Mongólíu og ógnar efnahagslegri afkomu samfélagsins.
Talið er að fólksflótti vegna loftslagsbreytinga muni verða ein helsta ástæða stríðs og átaka í framtíðinni, þegar náttúran hristir upp í gæðum jarðar og baráttan um lífsnauðsynjar hefst fyrir alvöru.
Þessi spá kann að hafa ræst nú þegar. Vísindamenn hafa fært rök fyrir (sjá td. hér og hér) því að uppreisnin í Arabaheiminum í byrjun þessa áratugs, oft kölluð arabíska vorið, hafi verið hrundið að hluta til vegna loftslagsbreytinga. Fæðuskortur hafi aukið á þá óánægju sem var fyrir í þessum samfélögum. Enn er barist á banaspjótum í Sýrlandi, jafnvel þó ástæður átakanna séu aðrar nú.