Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Nasdaq Iceland, segir stöðuna góða á íslenskum hlutabréfamarkaði, en vill meina að hana megi bæta með aukna þátttöku almennings og leyfisveitingu á verðbréfalánum.
Í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar segir Magnús mikla framþróun hafa verið á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarin ár. Máli sínu til stuðnings vísar hann meðal annars í fjölda skráðra fyrirtækja, en þau eru orðin 20 nú samanborið við 11 á árunum eftir efnahagshrunið. Einnig nefnir hann fjölda daglegra viðskipta, en þau hafa þrjátíufaldast frá 2010. Að sögn Magnúsar hefur vöxturinn „ekki átt sér stað með neinum látum heldur jafnt og þétt, eiginlega hægt og hljótt“.
Frá apríl 2009 hefur hækkun hlutabréfaverðs numið ríflega 250% eða sem samsvarar að meðaltali 18% á ári. Virði íslenska hlutabréfamarkaðarins nemur um 1.100 milljörðum í dag, en það er um sex og hálfu sinnum meira en árið 2009. Stærstu fyrirtækin á íslenska hlutabréfamarkaðnum eru Marel og Össur, en samanlagt markaðsvirði þeirra nemur um 43% af virði markaðsins.
Samkvæmt Keldunni er samanlagt bókfært eigið fé fyrirtækjanna helmingi lægra en markaðsvirði þeirra, eða um 455 milljarðar.
Auglýsing
Skattaafslættir og verðbréfalán
Í grein sinni bendir Magnús Harðarson á að þrátt fyrir að vel hafi tekist til við endurreisn hlutabréfamarkaðar þá sé mikilvægt að nýta meðbyrinn og treysta umgjörð hlutabréfamarkaðar enn frekar, en þátttaka almennings á honum er enn lítil. Beinn eignahlutur einstaklinga í markaðsvirði sé einungis um 4% í ár, en á árunum 2002-2007 hafi hún verið á bilinu 11-17%.
Samkvæmt Magnúsi er mikilvægt að efla þátttöku almennings til að stuðla að góðri sambúð atvinnulífs og alls almennings. Þetta hafi Svíar áttað sig á, en þeir hafa beitt skattalegum hvötum til aukinnar fjárfestingar almennra borgara. Þar þurfi einstaklingar sem fjárfesta í gegnum svokallaða fjárfestingasparnaðarreikninga ekki að greiða skatt af söluhagnaði, heldur aðeins flatan skatt af meðalstöðu fjármagns á reikningum.
Enn fremur bendir greinarhöfundur á möguleikann á verðbréfalánum. Lánin séu mikilvæg fyrir þróun markaðarins, til dæmis flokki vísitölufyrirtækið FTSE markaði ekki sem þróaða nema að umrædd lán séu til staðar.
Að lokum segir Magnús að vel hafi tekist til við endurreisn hlutabréfamarkaðar. Með góðum vilja og samtakamætti markaðsaðila og löggjafans mætti þannig gera hann að öllu leyti sambærilegan við þá markaði sem standa fremstir á heimsvísu.