Tuttugu stærstu iðnríki heims hafa samþykkt opinbera tilkynningu G20-ráðstefnunnar sem lauk í dag. Angela Merkel, kanslari Þýskalands og gestgjafi í Hamborg þar sem ráðstefnan fór fram, tilkynnti þetta síðdegis í dag.
Öll ríkin voru samstíga nema í loftslagsmálum þar sem Bandaríkin kröfðust að fjallað væri um aukinn rétt til að grafa eftir jarðefnaeldsneyti.
Verkefni Merkel sem fundarstjóri á ráðstefnunni var stórt enda þurfti hún að sætta ólíkari sjónarmið um sameiginlega hagsmuni þessara tuttugu stærstu hagkerfa heims en oft áður.
Stefna nýrra stjórnvalda í Bandaríkjunum undir forystu Donalds Trump var það sem hægði á samningaferlinu enda hefur Trump lýst vilja sínum til þess að einangra Bandaríkin í hinum hnattræna heimi.
Merkel er talin hafa unnið nokkuð frækinn sigur með því að ljúka ráðstefnunni með sameiginlegri yfirlýsingu allra 20 aðilanna. Henni hefur tekist að sýna diplómatískan mátt sinn í aðdraganda þingkosninga í Þýskalandi í september þar sem Merkel sækist eftir umboði til kanslaraembættisins fjórða kjörtímabilið í röð.
Ráðstefnan fór fram með mikil mótmæli í bakgrunni. Mörg þúsund mótmælendur gengu götur Hamborgar og mótmæltu. Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda. Meira en 200 lögreglumenn eru slasaðir og tugir mótmælenda voru teknir höndum.
Bandaríkin gegn hinum
Loftslagsmálin reyndust vera það viðfangsefni ráðstefnunnar sem erfiðast var að lenda. Svo fór að Bandaríkin fengu því framgengt að klausu um jarðefnaeldsneyti var bætt við.
Klausan er eftirfarandi í lauslegri þýðingu: „Bandaríkin leggja sig fram við að starfa náið með vinaríkjum og hjálpa þeim að sækja og notfæra sér auðlindir jarðefnaeldsneytis á mun hreinni og afkastameiri hátt.“
Allar aðrar þjóðirnar sem áttu aðild að ráðstefnunni undirstrikuðu stuðning sinn við Parísarsamkomulagið. Bandaríkin er eina ríkið í heiminum sem hefur sagt sig frá samkomulaginu.
Þetta er í fyrsta sinn sem afurð G20-fundar er útlistuð loftslags- og orkustefna. Náttúruverndarsamtökin Climate Action Network benda á þessa staðreynd: „Allar þjóðir, nema ein, viðurkenna að þetta snýst um að vernda heilsu fólks, standa vörð um lífríki jarðar, styðja við aukna hagsæld og stöðugleika hnattræna kerfisins.“
Nær allir leiðtogar G19-ríkjanna hvöttu Donald Trump til þess að afturkalla ákvörðun sína um að hætta í Parísarsamkomulaginu.
Maraþonfundur Pútíns og Trump
Donald Trump og Vladimír Pútín funduðu í fyrsta sinn sem leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands í hliðarsal ráðstefnunnar í gær, föstudag. Ásamt þeim sátu utanríkisráðherrar þjóðanna fundinn, þeir Rex Tillerson og Sergei Lavrov.
Kjarninn fjallaði um fund þeirra á vefnum í gær.
Donald Trump virðist eiga mun meira samaneiginlegt með Vladimír Pútín en öðrum leiðtogum á ráðstefnunni. Pútín og Trump funduðu mun lengur en nokkur hafði gert ráð fyrir að þeir gerðu í gær. Fundur þeirra stóð í tvær klukkustundir og fimmtán mínútur en hafði upphaflega verið áætlaður í hálfa klukkustund.
Trump og Pútín eru sagðir hafa hlegið saman að óvæginni fjölmiðlaumfjöllun um sjálfa sig. Vel fór á með þeim á fundinum og þeir töluðu saman á beinskeyttan máta.
Bandaríski forsetinn spurði Pútín út í meint afskipti Rússa af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum á síðasta ári. Pútín þvertók fyrir að Rússar hafi átt nokkurn þátt í slíkum árásum.
Leiðtogarnir ræddu lengi um Úkraínu og lögðu línurnar fyrir hugsanlegu samstarfi í stríðinu í Sýrlandi.
Fréttaskýrandi The Economist, Arkady Ostrovsky, rýndi í fundinn í sjónvarpsinnslagi á BBC News í gærkvöldi. Hann telur Trump og Pútín hafa sæst á einu lykilatriði; Þeir ætla ekki að pissa utan í staura hvors annars.
Heiminum skipt í austur og vestur
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var eini fulltrúi Bandaríkjanna fyrir utan Trump sem sat fundinn. Hann sagði leiðtogana hafa fallist á að draga ekki gamlar deilur fram í samskiptum sínum, til þess að geta unnið saman í málefnum Sýrlands, ISIS og Norður-Kóreu.
Tillerson hélt blaðamannafund eftir maraþonfundinn þar sem hann lýsti stemmningunni fyrir fjölmiðlamönnum. Engar myndavélar voru leyfðar á blaðamannafundinum svo hér að neðan er hljóðupptaka af utanríkisráðherranum.
Tillerson lýsir stemmningunni á fundinum
Ivanka Trump í stað Donalds
Hið óvanalega gerðist á fundi leiðtoganna í morgun, laugardag, að Ivanka Trump, dóttir Donalds, tók sæti hans við leiðtogaborðið. Ivanka sat þar í umboði föður síns við hlið Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Xi Jinping, foreta Kína.
Ivanka tók sæti föður síns á meðan forsetinn átti fund með kollega sínum frá Indónesíu í hliðarherbergi. Ivanka er ráðgjafi föður síns í Hvíta húsinu. Það þykir hins vegar óvanalegt að ráðgjafar taki fremsta sætið á fundum sem þessum. Vanalega eru það hátt skrifaðir embættismenn sem hlaupa í skarðið.
Á vef BBC segist reyndur fréttamaður ekki muna eftir fordæmi fyrir þessari uppákomu. Það var rússneskur sendifulltrúi sem tók mynd af Ivönku Trump við leiðtogaborðið og sendi á Twitter. Færslunni var síðar eytt.