Samhliða miklum uppgangi aukinnar sjálfvirkni í atvinnulífi, meðal annars með vaxandi notkun gervigreindar, mun þörfin fyrir skapandi hugsun og ýmis mannleg atriði verða enn mikilvægari.
Endurhugsa þarf menntakerfið frá grunni og ýmsar grunnhugmyndir, sem voru í brennidepli fyrir iðnbyltinguna, eru nú sprellifandi á nýjan leik. Krefjandi verður fyrir stjórnmálamenn að skapa nýtt regluverk og stefnu í mennta- og velferðarmálum, ekki síður í þróunarlöndunum heldur en þeim sem ríkari eru.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein í The Economist um þá byltingu sem framundan er í atvinnumálum í heiminum, vegna innreiðar gervigreindar og aukinnar sjálfvirkni.
Miklar breytingar
Í greininni kemur fram að aðferðir við að mennta fólk muni breytast mikið, t.d. með aukinni myndbandanotkun fyrirlestra og betri aðgengi að gögnum. Þetta muni auka afköst menntakerfisins og einnig gera það mögulegt að leggja áherslu á réttu atriðin, jafnvel þvert á landamæri og auknu samstarfi háskóla.
Joel Mokyr, professor við Northwestern University, segir í viðtali við The Economist að staðan nú minni um margt að stöðu mála í iðnbyltingunni og eftir stríðsárin, þar sem miklar breytingar samhliða aukinni vélvæðingu umbyltu kennsluaðferðum og áherslum í stefnumálum hjá stjórnvöldum.
Sífelld endurnýjun
Í greininni segir jafnframt, að það sé fyrir löngu orðið ljóst að menntun þarfnast muni meiri endurnýjunar, heldur en oft er af látið, og prófgráður muni ekki verða mikill mælikvarði á hæfileika í framtíðinni, heldur frekar svotil stanslaus endurnýjun á þekkingu.
Í náinni framtíð muni hins vegar reyna enn meira á þetta, og því meiri sveigjanleiki sem einstaklingar búi yfir, því betra fyrir möguleika þeirra á vinnumarkaði framtíðarinnar.
Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, fjallaði um þessar miklu breytingar sem framundan er í mennta- og atvinnumálum, í Tæknivarpinu í byrjun ársins. Hann sagði möguleikana sem muni leysast úr læðingi með aukinni gervigreind í reynd vera óendanlega, og samfélögin muni breytast mikið og hratt á næstu árum og áratugum.