... Í það minnsta fyrir stjórnmálamenn og stefnumótendur.
Lausnin gengur út á að beita viðurkenndum efnahagslegum hvötum markaðshagkerfisins til þess að dragar úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Ef hægt er að innleiða þessa markaðslausn í regluverk ríkja heims er hér um að ræða snjalla lausn á vandamáli sem markaðs- og stjórnmálafræðingar hafa velt fyrir sér um nokkurt skeið.
Loftslagsvandinn hefur verið skilgreindur sem „mesti og víðtækasti markaðsbrestur allra tíma“ í loftslagsskýrslu Nicolas Stern sem hann skilaði breskum stjórnvöldum árið 2006. Þar er meðal annars lagt til að hið opinbera grípi inn í, til þess að leiðrétta þennan markaðsbrest, með skattlagningu á kolefni. Þannig sé hægt að setja verð á kolefnið sem samfélag manna blæs út í andrúmsloftið.
Lausn Halsteads er af svipuðum toga, nema að opinberu gjöldin eiga ekki að enda í samfélagssjóðum heldur skapa hvata fyrir fyrirtæki til þess að fjárfesta í lofslagsvænni eignum og þjónustu.
Fjórir punktar
Halstead stofnaði The Climate Leadership Council ásamt mörgum mikilsmetnum einstaklingum og stórfyrirtækjum árið 2016. Meðal stofnfélaga eru fyrrverandi utanríkisráðherrar og fjármálaráðherrar Bandaríkjanna, sem nær allir eiga það sameiginlegt að hafa starfað undir íhaldssamari forsetum Repúblikanaflokksins þar í landi.
Svo einhver nöfn séu nefnd: fyrrverandi stjórnmálamennirnir James A. Baker, George P. Shultz, Steven Chu og Michael Bloomberg, hagfræðingarnir Gregory Mankiw og Martin Feldstein, og eðlisfræðingurinn Stephen Hawking.
Lausnin sem loftslagsráðið kynnti í febrúar á þessu ári er í fjórum liðum og miðar að því að búa til virði úr umhverfis- og samfélagsvænni vörum og þjónustu, á kostnað þeirra sem menga meira.
Þær hindranir sem koma í veg fyrir loftslagsvænni þróun af hálfu stjórnvalda eru, að mati loftslagsráðsins: Sálfræðilegar hindranir, hindranir í alþjóðastjórnmálum og innanríkisflokksátök.
Þessi lausn varð til í Bandaríkjunum og miðar að því að bæta bandarískt regluverk með tilliti til loftslagsmála. Kjarninn vill hins vegar benda á að þessar lausnir má auðveldlega heimfæra á önnur ríki, þar með talið Ísland.
Á vef loftslagsráðsins má lesa um fjórar stoðir áætlunarinnar um það sem kalla má í lauslegri þýðingu kolefnismótframlag (e. carbon dividends plan).
1. Vaxandi kolefnisskattar
Grunnstoð þessarar lausnar felst í því að kolefnisskattar séu innheimtir sem hafa engin áhrif á ríkissjóð (e. revenue-neutral). Þannig er hægt að setja verðmiða á útblástur gróðurhúsalofttegunda og bæta upp fyrir bresti markaðarins; þessa með að markaðurinn tekur hvorki tillit til samfélagsþátta eða umhverfisins.
Gert er ráð fyrir að kolefnisskattarnir hækki á milli ára til framtíðar, sem ætti að mynda hvata fyrir fjárfestingu í umhverfisvænni tækni hraðar en ella.
2. Kolefnismótframlag til skattgreiðenda
Hér er rúsínan í pylsuendanum. Með þessari stoð eru kolefnisskattarnir gerðir vinsælir því allir innheimtir kolefnisskattar eru greiddir aftur til skattgreiðenda. Með þessu verður það auðveldara fyrir stjórnmálamenn og stefnumótunarvaldið að koma kolefnissköttunum til leiðar.
Um væri að ræða flata endurgreiðslu á innheimtum kolefnissköttum; sem sagt samanlögð fjárupphæð deilt í fjölda skattgreiðenda. Hægt er að ímynda sér að Ríkisskattstjóri mundi skrá mótframlagið á álagningarseðilinn, þar sem útvarpsgjöldin eru til dæmis innheimt.
3. Loftslagstollar
Til þess að gera þessa markaðslausn við loftslagsvandanum „smitandi“ verða settir upp kolefnistollar á innflutning og útflutning til og frá löndum sem hafa ekki komið sér upp sambærilegu kerfi.
Vegna þessarar stoðar skiptir í raun engu hvar þessi lausn verður innleidd fyrst, því hún er smitandi.
4. Óþarfa löggjöf felld úr gildi
Þetta er sá punktur sem á helst við í Bandaríkjunum og rímar vel við orðræðu fulltrúa Repúblikanaflokksins. Í grunninn gengur þessi punktur út á að vegna nýrra, síhækkandi og vinsælla kolefnisskatta eru aðrar loftslagsreglugerðir óþarfar. Það er hins vegar álitamál hversu róttækar reglugerðahreinsanirnar ættu að vera.
Fáar gagnrýnisraddir
Lausn Climate Leadership Council er að mörgu leyti mjög góð og sem kenning hljómar þetta eins og vinnandi verk. Það eru þó fáein atriði sem ekki hafa verið skilgreind nógu vel.
Sem dæmi má nefna að hvergi er skilgreint hverjir munu eiga rétt á kolefnismótframlaginu. Í þessari umfjöllun er gert ráð fyrir að um flata endurgreiðslu til einstaklinga sé að ræða, þe. sama hversu mikið þú kaupir af eldsneyti á bílinn þinn, þá mundu alltaf fá jafn mikið og sú sem á ekki bíl og kaupir aldrei eldsneyti.
Einnig hefur sú gagnrýni heyrst að ekki sé minnst einu orði á að skattar á vörur og þjónustu eiga það til að hækka verð til neytenda. Það er rétt að það á við um kolefnisskatta eins og virðisaukaskatt, en ekki má gleyma að þetta er einmitt eitt markmið kolefnisskatta. Skattarnir eiga að hækka verð á mengandi hluti og skapa hvata fyrir þróun staðgengla sem menga minna. Hugsanlega þurfa að fylgja ívilnanir á vörur sem menga minna, samhliða kolefnisskattinum.
Lausnin er eflaust ekki fullkomin (fæstar lausnir hafa enga fylgikvilla) en hér hefur verið sett fram heildstæð áætlun til að beita markaðinum til lausnar loftslagsvandanum.