Stutta svarið er einfaldlega: Neibb.
Kol eru það eldsneyti sem enn er notað í miklum mæli til raforkuframleiðslu. Um 40 prósent allrar raforku framleidd með kolabruna og 39 prósent alls útstreymis gróðurhúsalofttegunda heimsins má rekja til kola.
Kol eru skítugasta og banvænasta orkuuppspretta sem mannkynið hefur yfir að ráða. Og þau eru miðað við flesta efnahagslega mælikvarða ódýrasta orkuuppsprettan.
Víðast hvar í heiminum er eftirspurn eftir kolum að aukast. Það ræðst að mestu af aukinni orkuþörf heimsins. Nýjar og ódýrar aðferðir við að sækja jarðgas hefur sum staðar komið í stað kolabruna til raforkuframleiðslu, eins og til dæmis í Bandaríkjunum, en það eitt og sér dugar ekki til þess að minnka kolabruna mannkynsins.
Árið 2012 blés mannkynið 34,5 milljörðum tonna af koldíoxíði vegna bruna jarðefnaeldsneytis út í andrúmsloftið. Stærsti hlutinn var vegna kolabruna.
Donald Trump
Síðan Donald Trump var kjörin forseti Bandaríkjanna síðasta vetur hefur þessi frasi – hrein kol eða clean coal – fengið að heyrast víðar og úr munni fleiri merkilegra manna en flestir ættu að kæra sig um.
„Það er til fyrirbæri sem kallast hrein kol. Kol munu vera til um aldir alda í þessu landi,“ sagði Trump til dæmis í kappræðum í aðdraganda forsetakosninganna. Sem forseti hefur Trump svo ákveðið að draga stuðning Bandaríkjanna við Parísarsamkomulagið til baka, skipað annálaðan efasemdamann um hlýnun jarðar yfir umhverfisstofnun Bandaríkjanna og fellt úr gildi reglugerðir um vistvænni orkuframleiðslu. Allt til þess að „endurreisa kolanámuiðnaðinn í Bandaríkjunum“.
Það sem Donald Trump á eflaust við (og nú er blaðamaður að draga ályktanir) er framleiðsluaðferð sem nota má til þess að fanga mengandi lofttegundir áður en þær fara út í andrúmsloftið. Það er falleg lausn við flóknu vandamáli. Kol eru eftir allt saman ódýr og stór hluti mannkyns reiðir sig á kolin.
Vandamálið er að þessi framleiðsluaðferð kostar mjög mikið.
Þrjár dýrar leiðir
Það eru þrjár aðferðir við að fanga kolefnið áður en það verður að mengun. Ein gengur út á að sía útblásturinn frá orkuverksmiðjunni og fanga þannig kolefnið og grafa það. Önnur gengur út á að kemískum efnum er beitt til að fjarlægja koldíoxíð úr kolunum og breyta þeim í efnasmíðagas sem knýr túrbínurnar í orkuverksmiðjunni. Þriðja leiðin er að brenna kolunum með því að nota hreint súrefni (O) í staðinn fyrir venjulegt loft sem er 80 prósent köfnunarefni. Með því að nota hreint súrefni er auðveldara að skima gróðurhúsalofttegundirnar frá útblæstrinum.
Allar þessar leiðir eru dýrar og kolaiðnaðurinn er fátækur, ekki síst vegna þess að verð á kolum hefur fallið hratt á undanförnum árum. Verðhrunið skýrist að einhverju leyti af innleiðingu umhverfisverndarregluverks en aðallega vegna aukinna vinsælda annara orkugjafa.
Dauðadæmt frá upphafi
Kolafyrirtækið Southern Co. hefur unnið að byggingu kolaorkuvers í Mississippi-ríki í Bandaríkjunum sem átti að verða fyrsta „hreinkolaverksmiðjan“ í heiminum.
Opnun verksmiðjunnar hefur nú verið frestað í nokkur ár og kostnaður við smíði verksmiðjunnar og tækninnar hefur farið ævintýralega fram úr áætlunum. Nú er gert ráð fyrir að kostnaðurinn sé um 7,5 milljarðar Bandaríkjadala.
Og það sem meira er; Verksmiðjan mun að öllum líkindum aldrei brenna kol því yfirvöld í Mississippi hafa nú farið fram á að Southern Co. kanni hvernig verksmiðjan geti gengið eingöngu fyrir jarðgasi.