Framgöngur.is er nýr vefur þar sem fjallað er um framtíð samgöngumála og reynt að dýpka og auðga umræðuna um framtíðarhorfur í samgöngumálum og ferðamátum. Greinin birtist fyrst á vef Framgangna.
Þýski bílaframleiðandinn Audi vakti athygli á dögunum þegar 2018 útgáfan af Audi A8 var kynnt í Barcelona. Bíllinn verður sá fyrsti í almennri sölu útbúinn búnaði sem telst til 3. stigs sjálfkeyrandi tækni. Það þýðir að undir ákveðnum kringumstæður þegar sjálfstýringar nýtur við þarf ökumaðurinn ekki að fylgjast með umferðinni eða umhverfi sínu. Í tilviki Audi A8 eru þessar ákveðnu kringumstæður til staðar þegar keyrt er undir 60 km/klst hraða, og ætti því t.d. að nýtast ökumönnum þegar þeir eru í umferðaröngþveiti. Ökumenn geta þá lesið blöðin eða gert hvað sem þeir vilja, á meðan hin svokallaða tækni AI Traffic Jam Pilot sér um að stjórna bílnum að öllu leyti: taka af stað, stoppa, stýra og bremsa.
Audi A8 mun kosta rúmar 90 þúsund evrur í Evrópu án aukabúnaðar, sem gera um 11 milljónir króna á núverandi gengi. Ekki er víst að allir kaupendur geti nýtt sjálfstýringarhæfileika bílsins til fulls, því það fer eftir lagaumhverfi í hverju landi eða ríki fyrir sig. T.d. getur verið að lögum samkvæmt skuli ökumaður ávallt fylgjast með veginum og umhverfi sínu. Audi mun notast við staðsetningar-girðingar (e. geofencing) til að virkja eða slökkva á sjálfstýringu bílsins, eftir því hvort lög leyfa.
Ökumaður fjórðu kynslóðar Audi A8 getur, undir ákveðnum kringumstæðum, leikið við krakkann í aftursætinu. Fleira tengt sjálfstýringu er einnig að finna í bílnum, m.a. Remote Park Pilot sem gerir ökumanni kleift að leggja bílnum í gegnum símann. Þá má benda á, þótt það tengist sjálfstýringu ekki neitt, að fótanuddtækið fyrir farþega í aftursæti er vafalaust notalegt.
Keppinautar Audi, m.a. Tesla, Cadillac og Mercedes-Benz, selja í dag bíla útbúna sjálfstýringu sem telst til stigs 2. Þá þarf ökumaður að fylgjast með umhverfinu þegar kveikt er á sjálfstýringunni, vera tilbúinn að taka yfir aksturinn ef þörf krefur og láta bílinn vita á öllum tímum að hann er með augun við aksturinn. Í umfjöllun IEEE Spectrum um Audi A8 segir að tölvukerfi bílsins muni fylgjast með ökumanninum og að hann sé vakandi, rétt eins og fyrrnefndir bílar keppinautanna, þrátt fyrir að krafa um að bílstjóri láti vita af sér (t.d. með að halda um stýrið) sé ekki jafn rík.
Er 3. stigið hættulegt?
Eins og fyrr greinir verður Audi A8 með búnaði sem gerir 3. stig sjálfstýringu mögulega. Mismunandi möguleikum tækninnar, eins og AI Traffic Jam Pilot og Remote Park Pilot, verður síðan hægt og bítandi komið í gagnið, samkvæmt tilkynningu Audi.
Eitt sem ræður nokkru um tímasetningar á aðgengi tækninnar eru prófanir og leyfi frá eftirlitsaðilum. Í umfjöllun vefsíðunnar Automotive News er bent á að nýjasta kynslóð A8 eigi enn eftir að standast ýmis próf. „Við erum í ókörtlögðu umhverfi og yfirvöld einnig,“ er haft eftir yfirmanni Audi á sviði rannsókna og þróunar. Þar vísar hann til að sjálfkeyrandi tækni á jafn háu stigi hefur ekki verið aðgengileg áður í almennri sölu.
Lagalegar spurningar um ábyrgð gera 3. stig sjálfkeyrandi tækni að stóru álitaefni. Margir framleiðendur, m.a. Volvo, Toyota, Ford og Google, hafa valið að stökkva yfir þetta stig og einbeita sér heldur að þróun tækni sem telst vera 4. og að lokum 5. stig. Á þeim stigum er hlutverk ökumanns ýmist afar takmarkað eða ekki til staðar. En á 3. stigi nýtur sjálfstýringar aðeins við undir ákveðnum og afmörkuðum aðstæðum. Hætta á að ábyrgð verði álitamál ef óhapp verður, þ.e. hvort tölvukerfið eða bílstjórinn hafi verið ábyrg og hvenær bílstjóri skuli taka yfir, er því meiri á þessu stigi tækninnar en öðrum.