Hluthafar Árvakurs, útgefanda Morgunblaðsins, lánuðu félaginu 144 milljónir króna á árinu 2016. Samtals skuldaði útgáfufélagið hluthöfum sínum 179 milljónir króna um síðustu áramót. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Árvakurs.
Hluthafar Árvakurs juku hlutafé félagsins um 200 milljónir króna fyrr á þessu ári til að mæta þessari skuld. Í frétt í Morgunblaðinu þann 8. júlí síðastliðinn var haft eftir Haraldi Jóhannessen, framkvæmdastjóra Árvakurs og annars ritstjóra Morgunblaðsins, að miklar launahækkanir skýrðu þann halla sem varð á rekstri Árvakurs. Þá hafi árið einkennst af sóknarhug þar sem fjárfest var í kaupum á Eddu-útgáfu, sem gefur meðal annars út Andrésblöð, og kaup á útvarpsstöðvunum K100 og Retro af Símanum.
Í ársreikningi Árvakurs kemur fram að félagið bókfærði virði Eddu-útgáfu á 40 milljónir króna. þar kemur einnig fram að Árvakur bókfærði 85,5 milljónir króna í viðskiptavild vegna kaupa sinna á Eddu-útgáfu. Í skýringum segir að sú viðskiptavild „sé tilkomin vegna kaupa móðurfélags á öllum hlutum í Eddu-útgáfu ehf. á hærra verði en bókfærðu verði eigin fjár. Rekstur Eddu útgáfu verður meðtalinn í rekstri samstæðu frá og með 1. janúar 2017 og frá þeim tíma verður viðskiptavildin afskrifuð línulega á 10 árum.“ Ekki kemur fram hvað greitt var fyrir útvarpsstöðvarnar tvær en samkvæmt upplýsingum Kjarnans var það lág fjárhæð.
Tapað rúmlega 1,5 milljarð á átta árum
Árvakur tapaði 49,7 milljónum króna í fyrra. Frá því að nýir eigendur tóku við rekstrinum árið 2009 hefur félagið tapað yfir 1,5 milljörðum króna. Tap hefur verið á rekstri Árvakurs öll árin frá því að eigendaskiptin urðu utan þess að Árvakur skilaði sex milljóna króna hagnaði árið 2013. Hluthafar Árvakurs hafa sett inn rúmlega 1,4 milljarða króna hið minnsta í nýtt hlutafé á þeim tíma, þegar tekið er tillit til þeirra 200 milljóna króna sem bætt var við í ár.
Fyrir liggur að Árvakur hefur misst að minnsta kosti einn stóran viðskiptavin það sem af er árinu 2017. Útgáfufélag Fréttatímans var stór viðskiptavinur Landsprents, prentsmiðju í eigu Árvakurs. Á ársgrundvelli var kostnaður Fréttatímans við prentun og pappír allt að 150 milljónir króna á ári miðað við einn útgáfudag. Um tíma voru útgáfudagar Fréttatímans þrír. Kostnaður við prentun og pappír á ársgrundvelli miðað við þann fjölda útgáfudaga var meira en 300 milljónir króna. Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans hefur verið gefið upp til gjaldþrotaskipta og ljóst að það mun ekki eiga í frekari viðskiptum við Landsprent. Þar er því um að ræða tekjur sem munu ekki skila sér á árinu 2017.
Kaupfélag Skagfirðinga leggur til háar fjárhæðir
Eigandi Árvakurs er félagið Þórsmörk. Það félag hefur að mestu verið í eigu aðila sem tengjast stærstu stoðum íslensks sjávarútvegs. Í lok síðasta árs áttu slíkir aðilar um 96 prósent hlut í Þórsmörk og báru þar af leiðandi þorra þess kostnaðar sem hlotist hefur af því að halda Morgunblaðinu lifandi í gegnum taprekstur undanfarinna ára.
Í apríl var tilkynnt að Eyþór Arnalds, sem er þekktastur fyrir að hafa verið í hljómsveitinni Todmobile, sveitastjórnarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Suðurlandi og ýmiskonar fyrirtækjaaðkomu, hefði keypt 26,6 prósent hlut í Árvakri. Um væri að ræða allan hlut Sjávarútvegsrisans Samherja, hlut Síldarvinnslunnar og Vísis hf. Aðkoma Eyþórs að fjölmiðlum hafði áður takmarkast við gerð hans á mjög umdeildri skýrslu um þróun á starfsemi RÚV sem birt var síðla árs 2015. Skýrslan var unnin fyrir þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarsson.
Upplýsingar um eignarhald Árvakurs voru uppfærðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í byrjun júlí líkt og lög gera ráð fyrir. Fréttablaðið greindi frá því í síðustu viku að þær upplýsingar endurspegluðu eignarhaldið eftir að 200 milljóna króna hlutafjáraukning hefði átt sér stað. Í frétt blaðsins kom fram að Kaupfélag Skagfirðinga hefði lagt til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds, um nærri tvö prósentustig, og er nú 22,87 prósent. Kaupfélag Skagfirðinga á nú 14,15 prósent í Þórsmörk í gegnum félagið Íslenskar sjávarafurðir.
Ísfélagsblokkin langstærsti eigandinn
Eyþór er enn stærsti einstaki eigandi Árvakurs en félög tengd Ísfélagi Vestmannaeyja eru hins vegar enn með samanlagt stærstan eignarhlut. Ísfélagið á sjálft 13,43 prósent hlut og félagið Hlynur A, í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, aðaleiganda Ísfélagsins, á 16,45 prósent hlut. Auk þess á félagið Legalis 12,37 prósent hlut. Eigendur þess eru m.a. Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður Árvakurs og stjórnarmaður í Ísfélaginu, og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Ísfélagsins. Samanlagður hlutur þessarar blokkar í Árvakri er 42,25 prósent.
Í umboði Þórsmerkur sitja fimm manns í stjórn Árvakurs. Sigurbjörn Magnússon er stjórnarformaður en auk hans sitja þar Ásdís Halla Bragadóttir (fyrrum bæjarstjóri Garðabæjar fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og einn aðaleiganda heimaþjónustunnar Sinnum), Bjarni Þórður Bjarnason (framkvæmdastjóri Arctica Finance), Katrín Pétursdóttir (forstjóri Lýsis) og Eyþór Arnalds í stjórninni.
Friðbjörn Orri Ketilsson (fyrrum ritstjóri og ábyrgðarmaður vefsins amx.is, sem hætti starfsemi 1. október 2013) vék úr stjórn fyrir Eyþóri fyrr á þessu ári og er nú varamaður ásamt Bolla Kristinssyni, oftast kenndum við tískuvöruverslunina Sautján sem hann átti og rak um langt skeið.