Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, skuldbindur sig til að halda áfram rekstri þeirra fjölmiðla sem félagið hefur samið um að kaupa af 365 miðlum í þrjú ár „nema að markverðar neikvæðar breytingar eigi sér stað á markaðsaðstæðum“. Fjölmiðlarnir sem um ræðir eru allar sjónvarps- og útvarpsstöðvar 365 miðla. Þar á meðal eru Stöð 2, allar íþróttarásir, Bylgjan, FM957 og X-ið. Til viðbótar var ákveðið á lokaspretti samningaviðræðna að fréttavefurinn Vísir.is og fréttastofa ljósvakamiðla myndi fylgja með í kaupunum. Þetta kemur fram í drögum að skilyrðum fyrir kaupunum sem Fjarskipti hafa sent Samkeppniseftirlitinu.
Í drögunum er einnig skilyrði sem á að tryggja sjálfstæði ritstjórna, en fréttastofa 365 er á meðal þeirra eininga sem seldar verða í viðskiptunum. Samkvæmt því verður skipuð þriggja manna undirnefnd stjórnar Fjarskipta sem á að hafa það hlutverk að standa vörð um sjálfstæði ritstjórna, fjölræði og fjölbreytni. Sú nefnd á einnig að taka við kvörtunum vegna fréttaflutnings og efnistaka fjölmiðla.
Drög að skilyrðum liggja fyrir
Fjarskipti hafa óskað eftir viðræðum við Samkeppniseftirlitið um mögulega setningu skilyrða vegna kaupa félagsins á flestum eignum 365 miðla. Fjarskipti hafa vegna þessa lagt fyrir eftirlitið drög að skilyrðum í þeim tilgangi að koma til móts við þá röskun á samkeppni og fjölræði sem samruninn geti haft í för með sér.
Í bréfi sem Samkeppniseftirlitið hefur sent eftirlits- og hagsmunaaðilum – meðal annars öllum skráðum fjölmiðlum landsins – vegna þessa er óskað eftir því að þeir veiti umsögn um skilyrði Fjarskipta. Í bréfinu segir enn fremur að Samkeppniseftirlitið hafi ekki lokið rannsókn sinni á samrunanum og hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort skilyrði Fjarskipta dugi til að „leysa þau vandamál sem ella gætu stafað af samrunanum.“
Leggja til leiðir til að tryggja sjálfstæði ritstjórna
Í drögunum eru einnig tvær greinar sem snúa annars vegar að sjálfstæði ritstjórna og hins vegar að framleiðslu á íslensku efni og áframhaldandi rekstri fjölmiðla. Þeir miðlar sem seldir verða yfir frá 365 miðlum eru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgir með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV.
Í skilyrði um sjálfstæði ritstjórna þeirra fjölmiðla sem Fjarskipti vilja kaupa segir: „Í þvi skyni að standa vörð um sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla sem Fjarskipti reka skal skipuð sérstök undirnefnd stjórnar Fjarskipta hf. Í nefndinni skulu sitja þrír nefndarmenn, þar af tveir óháðir sem eftir atvikum geta verið kosnir á hluthafafundi Fjarskipta, en einn nefndarmaður skal tilnefndur af stjórn Fjarskipta. Skulu hinir óháðu nefndarmenn hafa sérþekkingu og reynslu af rekstri fjölmiðla.[...]Skal nefndin hafa það hlutverk að standa vörð um sjálfstæði ritstjórna, fjölræði og fjölbreytni og taka við kvörtunum vegna fréttaflutnings og efnistaka fjölmiðlanna. Þess skal gætt að eigendur, starfsmenn og stjórnarmenn Fjarskipta hlutist ekki til um atriði sem geta raskað sjálfstæði ritstjórna fjölmiðla sem Fjarskipti reka eða dragi úr fjölræði eða fjölbreytni í rekstri fjölmiðla Fjarskipta.“
Ætla að tilnefna „óháðan kunnáttumann“
Í næstu grein skilyrðanna kemur fram að Fjarskipti skuldbindi sig til að halda áfram rekstri þeirra fjölmiðla sem séu andlag kaupanna næstu þrjú ár „nema markverðar breytingar eigi sér stað á markaðsaðstæðum“. Ekki er tilgreint hvað felist í „markverðum breytingum“.
Í þeirri grein segir einnig að Fjarskipti skuldbindi sig til að „halda áfram kaupum eða framleiðslu á íslensku efni að því gefnu að slík framleiðsla byggi á eðlilegum viðskiptalegum forsendum“.
Fjarskipti býðst einnig til að tilnefna „óháðan kunnáttumann“ til að hafa eftirlit með því að skilyrðunum sem félagið er tilbúið að undirgangast verði framfylgt. Kunnáttumaðurinn má ekki vera starfsmaður eða stjórnarmaður félagsins eða hjá tengdum aðilum, má ekki vera maki stjórnarmanns eða framkvæmastjóra/forstjóra eða skyldur þeim í beinan legg. Þá teljast þeir sem sinna reglubundinni hagsmunagæslu og/eða ráðgjafastörum fyrir ofangreinda aðila og hafa meirihluta tekna sinna að slíkum viðskiptum ekki uppfylla skilyrði um óhæði.
Samstarf milli Fréttablaðsins og Vísir.is í tæp fjögur ár
Samkvæmt heimildum Kjarnans er vonast til þess að samruni flestra miðla 365 og Fjarskipta gangi í gegn í október. Kaupverðið á miðlunum og fjarskiptaþjónustu 365 er 7.725-7.875 milljónir króna. Það greiðist í reiðufé, með útgáfu nýrra hluta í Fjarskiptum og yfirtöku á 4,6 milljarða króna skuldum. 365 miðlar verða í kjölfarið næst stærsti eigandi Fjarskipta.
Kjarninn greindi frá því í maí að alls sé gert ráð fyrir því að samruninn skili kostnaðarsamlegð upp á rúman milljarð króna. Þar af gera áætlanir ráð fyrir að sparnaður í launum og starfsmannakostnaði verði um 275 milljónir króna á ári og að stöðugildum þeirra eininga sem færast yfir til Fjarskipta frá 365 miðlum muni fækka um 41. Þetta kom fram í samrunaskrá vegna samruna Fjarskipta og 365 miðla sem birt var á vef Samkeppniseftirlitsins 10. maí síðastliðinn. Fækkunin verður 365-megin. Fjarskipti brugðust við fréttinni með því að segja að fækkunin muni vera gerð í gegnum starfsmannaveltu á 12-18 mánuðum.
Í fyrstu útgáfunni af samrunaskránni sem eftirlitið birti voru trúnaðarupplýsingar úr skránni aðgengilegar, þar á meðal upplýsingar um hversu mörg stöðugildi myndu hverfa við samrunann. Ný útgáfa án trúnaðarupplýsinganna var sett á vefinn í stað hinnar síðar sama dag. Kjarninn hefur upprunalegu útgáfuna undir höndum.
Í upprunalegu útgáfunni birtust einnig trúnaðarupplýsingar um samstarfssamning sem gerður var samhliða kaupunum. Í honum felst að efni Fréttablaðsins, sem er ekki hluti af kaupunum, muni áfram birtast á Vísi.is í 44 mánuði eftir að kaupin ganga í gegn. Það þýðir að Vísir.is, sem verður þá í eigu Fjarskipta, mun geta birt allt efni Fréttablaðsins að morgni í tæp fjögur ár þrátt fyrir að fjölmiðlarnir verði ekki lengur í eigu sama aðila. Ekkert er fjallað um þetta samstarf í bréfi Samkeppniseftirlitsins.