Ný skýrsla hagdeildar Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um þróun skattbyrði launafólks sýnir að skattbyrði hefur aukist í öllum tekjuhópum hérlendis frá árinu 1998 til loka árs 2016. Aukningin er hins vegar langmest hjá tekjulægstu hópunum, munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig síður skilað sér til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði.
Í tilkynningu vegna útgáfu skýrslunnar segir: „Þegar skoðað er samspil tekjuskatts, útsvars og persónuafsláttar auk barna- og vaxtabóta hefur t.d. skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20 prósent) í heildina aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili.“
Persónuafsláttur fylgir ekki launaþróun
Þessa þróun, að skattbyrði tekjulægri hækki mest, má helst rekja til þess að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun. Þá hafi stuðningur vaxtabótakerfisins minnkað verulega á tímabilinu og fækkað í þeim hópi sem fær greiddar vaxtabætur. Kjarninn greindi til að mynda frá því nýverið að almennar vaxtabætur hafa lækkað um 7,7 milljarða króna frá árinu 2010 og þeim þeim fjölskyldum sem fá þær hefur fækkað um rúmlega 30 þúsund á saman tíma.
Í skýrslu ASÍ segir einnig að íslenska barnabótakerfið sé veikt og að það dragi eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Þá hafi húsaleigubótakerfið þróast með sama hætti og önnur tilfærslukerfi og því hefur dregið úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði. Nýtt húsnæðisbótakerfi bæti nokkuð hag láglauna einstaklinga og einstæðra foreldra á leigumarkaði en láglauna pör fá eftir sem áður lítinn eða engan stuðning vegna leigukostnaðar.
Ríku verða ríkari
Kjarninn hefur ítrekað greint frá því á undanförnum árum að misskipting eigna er að aukast mjög hratt hérlendis. Í fréttaskýringu sem birtist 4. október 2016 kom fram að eigið fé Íslendinga hefði tvöfaldast á sex árum, eða aukist um 1.384 milljarða króna.
Þessi nýi auður skiptist ekki jafnt á milli hópa. Af hreinni eign sem orðið hefur til frá árinu 2010 hafði ríkasta tíu prósent landsmanna, alls 20.251 fjölskyldur, tekið til sín fjórar af hverjum tíu nýjum krónum sem orðið höfðu til í íslensku samfélagi. Þessi hópur átti 1.880 milljarða króna í lok árs 2015, eða 64 prósent af eignum landsmanna.
Á sama tíma skuldaði fátækari helmingur þjóðarinnar, rúmlega 100 þúsund vinnandi manns, 211 milljarða króna umfram eignir sínar. Það þýðir að munurinn á eiginfjárstöðu fátækasta helmings þjóðarinnar og ríkustu tíu prósenta hennar var 2.091 milljarðar króna.
Opinberar tölur vanmeta hversu mikið hinir ríku á Íslandi efnast ár frá ári. Ástæðan er sú að þær mæla að fullu leyti t.d. hækkun fasteignaverðs (sem útskýrir 82 prósent af allri eiginfjáraukningu Íslendinga á síðustu sex árum og nánast alla eignaaukningu fátækari hluta landsmanna) en færir eignir í verðbréfum inn á nafnvirði. Og ríkustu Íslendingarnir eiga næstum öll verðbréf á Íslandi.
Lítill hluti hefur nánast allar fjármagnstekjur
7. október 2016 birti Kjarninn svo fréttaskýringu sem byggði á nýjum tölum Ríkisskattstjóra um staðtölur skatta. Í þeim tölum var hægt að sjá út hversu mikið Íslendinga þénuðu í fjármagnstekjur á árinu 2015. Það eru tekjur sem þeir höfðu af eignum sínum: t.d. vöxtum af innlánsreikningum eða skuldabréfaeign, tekjur af útleigu húsnæðis, arðgreiðslur, hækkun á virði hlutabréfa eða hagnaður af sölu fasteigna eða verðbréfa.
Í tölunum kom í ljós að tekjuhæsta eitt prósent landsmanna þénaði samtals 42 milljarða króna í fjármagnstekjur á árinu 2015. Um er að ræða undir tvö þúsund framteljendur. Þessi hópur tók til sín 44 prósent af öllum fjármagnstekjum sem urðu til hérlendis á árinu 2015. Það þýðir að 99 prósent þjóðarinnar skipti með sér 56 prósent fjármagnstekna.
3.862 fjölskyldur fengu hagnað upp á 29 milljarða
Fyrr í þessum mánuði greindi Kjarninn svo frá því að tekjur einstaklinga á Íslandi af arði námu 43,3 milljörðum króna í fyrra. Þær jukust um 24,6 prósent milli ára og er arður nú orðin stærsti einstaki liður fjármagnstekja ríkissjóðs. Fjöldi þeirra sem töldu fram arð vegna ársins 2016 var 14.545 og fjölgaði um 685 milli ára, eða um tæplega fimm prósent.
Söluhagnaður jókst um 39,1 prósent milli ára þrátt fyrir að fjölskyldum sem töldu fram söluhagnað hafi einungis fjölgað um 5,4 prósent. Það bendir til þess að fámennur hópur sé að taka til sín þorra þess arðs sem verður til í íslensku samfélagi.
Söluhagnaður var alls 32,3 milljarðar króna í fyrra og þar af nam sala hlutabréfa 28,7 milljörðum króna og hækkaði um 38,3 prósent á milli ára. Á sama tíma fjölgaði fjölskyldum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa um einungis 3,7 prósent í 3.682 alls. Fjölskyldur á Íslandi voru um 197 þúsund í fyrra. Það þýðir að tæplega tvö prósent fjölskyldna landsins greiði fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar á hlutabréfum.