Maður er nefndur G. Sverrir Þór, hagfræðingur, blaðamaður, greinandi, ritstjóri og nú síðast rithöfundur. Hann sendi nýverið frá sér bókina Warning: Economics - On The Shortcomings of Modern Economics. Í stuttu máli sagt, þá er Sverrir Þór að fjalla um hagfræði í bókinni, og hvernig veikleikar hennar og styrkleikar birtast okkur í daglegu lífi.
Bókin er afar áhugaverð, svo það komi skýrt fram, í upphafi viðtals. Lipurlega skrifuð og í henni er sterkur og þungur tónn; efasemdarödd blaðamannsins og fræðileg nálgun hagfræðingsins. Augljóst er að Sverrir Þór hefur gott vald á hagfræðinni og efnið á brýnt erindi, ekki síst á tímum þar sem túlkun upplýsinga ræður ferðinni um hvert skuli haldið, ekki síst á hinu pólitíska sviði.
Sverrir Þór var lengi hluti af öflugri viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins, sem meðal annars fékk yfir sig öskrandi neikvæðni og fúkyrðaflaum frá stjórnendum í íslensku atvinnulífi, þegar „litla“ bankakreppan árið 2006 var til umfjöllunar á síðum Morgunblaðsins. Sagan dæmir þá umfjöllun vel, en viðbrögð margra við henni illa.
Hann nýtti sér virkni í Amazon-vefbókabúðinni og gaf nýja bók sína út sjálfur, til lesturs á Kindle-spjaldtölvum. Hana má einnig panta í stórri kilju hjá Amazon þar sem bókin er prentuð eftir pöntun.
Hún hefur þegar fengið góð viðbrögð lesenda.
Hvers vegna ákvaðstu að gefa pælingar þínar um hagfræðina út á bók? Hvað var það sem rak þig til þess? Þú veltir mikið fyrir þér forsendum hagfræðinnnar, og hvernig umræða og ákvarðanataka markast af þeim. Ertu að segja að hagfræði séu „hættuleg“ fræði, eða kannski gölluð?
„Frá því að ég hóf nám í hagfræði við háskólann i Skövde í Svíþjóð á vorönn 2002 hef ég alltaf verið frekar skeptískur í garð ýmissa þeirra forsendna sem ég nefni í bókinni. Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna það er og hef yfirleitt komist að þeirri niðurstöðu að það séu tveir þættir. Sá fyrri er að ég var orðinn 27 ára gamall, hafði farið beint í háskóla eftir stúdentspróf og síðan hætt og farið að vinna fyrir mér, verið atvinnulaus og þar fram eftir götum. Þannig lærði ég að lífið er ekki alltaf dans á rósum og að engin tvö líf eru eins og engar tvær manneskjur eru eins. Við bregðumst á mismunandi hátt við mismunandi aðstæðum,“ segir Sverri Þór, og heldur áfram: „Hinn þátturinn er sá að mér hefur alla tíð verið kennt að hugsa sjálfstætt og draga allt sem kennarar segja mér í efa, það sé besta leiðin til að læra og skilja efnið. Það má eflaust deila um notagildi þess og stundum hefur mér tekist að koma mér í ónáð vegna þessa en á móti kemur að ég nálgast vandamál og spurningar á annan hátt en margir aðrir. Ég tel að það hafi verið samspil þessara tveggja þátta hafi orðið til þess að ég var oft mjög skeptískur, alls ekki alltaf og margt af því hagfræðin kennir okkur er rökrétt en annað er í mínum huga tómt bull. Þrátt fyrir það heillaðist ég mjög af faginu og ákvað að klára námið og ég reyndi oft að telja mér trú um að þó þetta sé kennt svona í grunnáminu þá þýði það ekki endilega að fræðimenn notist við fullkomna, skilvirka markaði og þess háttar þegar verið er að byggja líkön og fræðikenningar. Ég hef samt alltaf haft mínar efasemdir og held að ég hafi nálgast hagfræðina á annan hátt en margir aðrir gera. Þegar ég fór svo að vinna fyrir mér sem hagfræðingur, eða réttara sagt hagfræðiblaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins jukust efasemdir mínar. Ég sá hagfræðina frá öðru sjónarhorni en þegar ég var í náminu, það lá í eðli starfsins að ég þurfti að fylgjast með umræðu um hagfræði og viðskipti á annan hátt en áður og ég þurfti að eiga samskipti við hagfræðinga í ýmsum fyrirtækjum og stofnunum sem og útlenda fræðimenn sem komu til landins, eins og til dæmis Arthur Laffer og auðvitað Robert Aliber. Eins og ég skrifa í inngangi bókarinnar þá fannst mér margt skrítið sem var að eiga sér stað á Íslandi, og ég held að það hafi komið skýrt fram í mörgu af því sem ég skrifaði í Moggann á þeim tíma, en ég taldi mig ekki hafa forsendur til þess að „debattera” það við fræðimenn sem höfðu lokið doktorsnámi.“
Efinn leiddi til doktorsnáms
Skömmu áður en hrunið skall á á Íslandi, í október 2008, þá ákvað Sverrir Þór að fara til Svíþjóðar í doktorsnám í hagfræði. „Þegar þangað var komið sá ég með eigin augum hvernig rannsóknaraðferðirnar eru byggðar upp. Ég ræddi þetta oft við samnemendur mína, reifst um það við kennarana, og þegar ég var sjálfur að kenna hamraði ég á því við nemendurna að draga allt í efa sem ég og aðrir kennarar reyndu að troða inn í hausinn á þeim. Mynda sér eigin skoðun, það var það mikilvægasta. Ég áttaði mig á því að doktorsnám er í raun ekkert annað en undirbúningur fyrir starfsævi í akademíunni (líkt og Martin Wolf forðum daga) og þar langaði mig ekki að vinna.“
Á nær sama tímapunkti og doktorsnámið hefst þá skellur á dýpsta efnahagskreppa á fjármálamörkuðum um allan heim. Sverrir Þór segir þetta hafa verið lærdómsríkt. Veikleikarnir í hagfræðinni hafi orðið augljósari. „Þegar ég fylgdist með umræðunni þá blöskraði mér hversu getulaus hagfræðin var að bæði sjá kreppuna fyrir og að bregðast við henni. Menn þrösuðu meira um pólitíska hugmyndafræði og reyndu í fullri alvöru að kenna almenningi um hvernig hafði farið. Í Bandaríkjunum tók fátækt fólk lán til þess að reyna að koma undir sig fótunum og fá sinn skerf af ameríska draumnum, í Grikklandi fór fólk snemma á eftirlaun sem voru ríflega skömmtuð og á Íslandi var talað um að almenningur hefði eytt um efni fram, meðal annars í flatskjái. Það sem enginn nefndi var að þetta gerði fólk vegna þess að kerfið (samfélagið) bauð upp á það og hvatti til þess. Í Grikklandi hefði fólk ekki farið á eftirlaun um fertugt nema af því að það var í boði. Á Íslandi hefði fólk ekki keypt flatskjái og jeppa nema af því að því var leyft að nota húsnæðið sitt sem hraðbanka (og taka yfirdrætti þess til viðbótar) og í Bandaríkjunum hefði lágstéttarfólk ekki reynt að kaupa sér hús með lánuðu fé eingöngu nema af því að bankarnir buðu upp á það (og hvöttu til þess) og földu síðan áhættumestu lánin í flóknum vafningum sem þeir skildu ekki sjálfir. Eitt af því sem fór ógurlega í taugarnar á mér var að þessi áhættumiklu lán í USA voru kölluð subprime (undirmálslán á íslensku). Með því er verið að ýja að því að fólk sem tók lánin en átti í raun aldrei möguleika á að borga þau upp, eða einu sinni borga vextina, hafi verið annars flokks fólk, undirmálsfólk,“ segir Sverrir Þór.
Ekki neytandanum að kenna
Þó vitaskuld megi færa fyrir því rök að hinn almenni neytandi hafi átt að átta sig á því að þetta væri ekki sjálfbær þróun, eins og hagfræðin gerir raunar ráð fyrir - að fólk sé alltaf skynsamt og rökrænt - Þá sé þetta líkar ofboðslega barnaleg heimsmynd. „Vitaskuld voru einhverjir sem ekki tóku þátt í brjálæðinu og hafa eflaust ekki beðið neitt tjón þegar allt hrundi en þorri almennings hafði engar forsendur til þess að meta stöðuna rétt. Bankinn sagði þeim að þetta væri allt í lagi, blöðin sögðu þeim að þetta væri allt í lagi, meira að segja ríkisstjórnin sagði þeim að þetta væri allt eðlilegt (og það ekki bara á Íslandi). Mikilvægast af öllu er að maðurinn í næsta húsi sagði þeim að þetta væri allt í lagi og það er hann sem við miðum okkur við, við öfundum hann ef hann á flottari bíl (jafnvel þótt okkur finnst hann snobbuð pjattrófa) og við viljum líka eiga þannig bíl.
Ramminn verður að halda
Sverrir Þór segir að vandamálið sé ekki hinn almenni neytandi, þegar kemur að hinum ýmsum málum, heldur þurfi að móta umgjörðina í samfélaginu rétt. „Vandamálið er ekki að hinn almenni neytandi neyti innan þess ramma sem honum er veittur heldur að ramminn er sniðinn eins og hann er og það er á ábyrgð þeirra sem sníða rammann, það er stjórnmálamanna. Þeim er hins vegar vorkunn, hinn almenni stjórnmálamaður hefur ekki meira vit á hagfræði en hinn almenni neytandi en samt er ætlast til þess að stjórnmálamenn móti efnahagsstefnu. Sér til stuðnings hafa þeir ráð fræðimanna, sem þeir reyna að lesa sér til um en án þess þó að vita eða skilja hvaða forsendur liggja að baki niðurstöðum hagfræðilíkananna. Eitt af því sem ég rak mig á í náminu var að fræðimenn eru alls ekki allir nógu duglegir við að greina frá því hvaða forsendur liggja að baki, sérstaklega ekki í samantektinni sem í raun er eina sæmilega auðlesna efnið í skrifum þeirra,“ segir Sverrir Þór. „Það má segja að þetta hafi verið kveikjan að bókinni. Ég hafði lengi velt því fyrir mér að skrifa bók um vankanta hagfræðinnar og hafði ákveðið titil bókarinnar löngu áður en ég byrjaði að skrifa. Þótt ég hafi alls ekki viljað viðurkenna það á þeim tíma þá var ég sennilega búinn að komast að þeirri niðurstöðu snemma árs 2011 að ég myndi aldrei klára doktorsnámið (að minnsta kosti í undirmeðvitundinni). Ég vildi samt ekki að þessi ár yrðu til einskis og ég vildi ekki flytja til Íslands þannig að ég þrjóskaðist við í átta mánuði og vann sem samhliða náminu við blaðamennsku. Mig minnir að það hafi verið í maí 2011 sem ég fann þörf til að byrja á bókinni og eftir á að hyggja held ég það sem hafi orðið til þess að ég ákvað það á endanum hafi verið þörfin fyrir að setja pælingarnar mínar á blað, sem eins konar and-doktorsritgerð. Það sem rak mig áfram var síðan umræðan um ábyrgð almennings og daglegar fréttir um hvernig valdhafar heimsins þrösuðu um hvernig leysa ætti vandann en þeir komust aldrei að neinni niðurstöðu enda öðru fremur að þrasa um pólitíska hugmyndafræði. Umræðan var um vissulega um efnahagsmál og þar af leiðandi einnig um hagfræði en út frá pólitískum gildum.“
Fyrir leikmanninn
Sverrir Þór segir að með bókinni hafi hann viljað setja fram efasemdarödd um hagfræði, en með skýrum og auðskiljanlegum hætti. Hvað eru þessi atriði að segja okkur? Hvers vegna er þetta svona?
Þessar spurningar kölluðust oft á móti textanum í bókinni, þegar hún var lesin. Í raun rúmast þessar raddir innan hagfræði alveg eins og annarra fræða. Í því liggur styrkur þessarar bókar. Hún er afbragðsgreining á alls konar álitamálum hagfræðinnar, sem eru allt um lykjandi alla daga. Þegar við förum í búð, þegar við ræðum saman á kaffistofunni, þegar við erum að vinna, þegar við sitjum á skólabekk og kannski síðast en ekki síst; þegar við hlustum á stjórnmálamenn og veljum svo á milli þeirra í kosningum.