Undanfarið ár hefur verið erfitt fyrir Juncker. Í kjölfar þess að þjóðaratkvæðagreiðsla í Bretlandi gerði Brexit að staðreynd virtist sem popúlismavindar myndu blása yfir álfuna og leiða til þess að fleiri ríkisstjórnir með andúð á ESB myndu komast til valda. Gríðarlega tímafrek og erfið endurkoma margra evrópskra hagkerfa úr hverri kreppunni af fætur annarri í kjölfar efnahagskreppunnar miklu árið 2008 hafði leitt til umræðu um grunnstoðir ESB og takmarkanir stofnana þess til að takast á við enduruppbyggingu hagkerfa þess í ljósi hins efnahagslega misræmis sem ríkir á milli margra ESB-ríkja.
Eflaust hefur verið léttara yfir Juncker við skrif ræðu þessa árs samanborið við þá síðustu. Popúlístaflokkar urðu undir í kosningum í Hollandi og Frakklandi, hagvöxtur í ESB hefur verið hærri en í Bandaríkjunum tvö ár í röð, og hefur stuðningur almennings við ESB aukist talsvert eftir ringulreið í eftirmálum Brexit-atkvæðagreiðslunnar og kosningu pópulistans Donald Trump í Bandaríkjunum. Þá hefur útganga Bretlands úr ESB leitt til hröðunar áforma um aukinn samruna innan sambandsins en Bretland hefur lengi verið síst ákafi meðlimur sambandsins og ítrekað beitt sér gegn auknum samruna.
„Evrópa sem verndar“
Juncker fór yfir víðan völl í ræðu sinni, sem flutt var 13. september síðastliðinn. Einna helst lagði hann áherslu á að meira yrði gert til að gera fleiri ESB-ríkjum kleift að taka upp evruna og láta ESB fara með yfirstjórn yfir fjárhagsáætlun evru-svæðisins ásamt því að búa til embætti fjármálaráðherra ESB. Þá lagði Juncker til að Schengen-svæðið yrðri stækkað með því að innlima Búlgaríu og Rúmeníu, og að stefna ætti að því að greiða leiðina fyrir fleiri lönd á Balkanskaga að ganga í sambandið. Þessar stefnur yrðu ekki einungis til að samræma hagstjórn sambandsins heldur einnig koma til móts við áhyggjur margra Austur-Evrópuríkja um að hið margþrepa skipulag sem einkennir ESB stuðli að því að þau séu umtöluð sem eins konar annars flokks þegnar. Til að ítreka það viðhorf skírskotaði Juncker til nýlegrar uppgötvunar um að vörur og matvæli sem seldar eru í mörgum Austur-Evrópuríkjum eru af lakari gæðum en í Vestur-Evrópu og undirstrikaði að styrkja þyrfti eftirlit með iðnaðinum.
Fríverslunarsamningur voru líka á dagskrá hjá Juncker og tilkynnti hann að hefja ætti fríverslunarviðræður við Ástralíu og Nýja-Sjáland og ljúka viðræðum við fjölmörg ríki áður en kjörtímabili hans sem forseti framkvæmdastjórnar ESB lýkur árið 2019. Juncker sagði að ESB væri að vinna að því að uppfæra fríverslunarsamning við Mexíkó og myndi stefna að því að skrifa undir samning í fyrsta sinn við Mercosur-ríkin fjögur, Brasilíu, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ, fyrir lok ársins. Þá gerði ESB samkomulag við Japan um umfangsmikinn fríverslunarsamning í sumar. Á hinn bóginn lagði Juncker til að styrkja yrði eftirlit með erlendum fjárfestingum til þess að vernda evrópsk fyrirtæki frá utanaðkomandi yfirtöku. Sú stefna er talinn vera miðuð gegn Kína og gaf Juncker til kynna að ESB muni ávallt sækjast eftir því að vernda grunnhagsmuni hagkerfisins og að sambandið myndi sækjast eftir gagnkvæmni í fríverslunarsviðræðum. Juncker og Emmanuel Macron, nýkjörinn forseti Frakklands, hafa lýst þessari fríverslunarstefnu sem hluti af hugsjón um „Evrópu sem verndar“ og vilja með því grafa undan gagnrýni popúlistaflokka samhliða því að hvetja til aukinnar verslunar.
Þegar kemur að utanríkis- og öryggismálum vakti athygli að Juncker talaði fyrir því að breyta núverandi fyrirkomulagi sem krefst einróma stuðnings aðildarlanda til að samþykkja utanríkisstefnumál og koma á meirihlutakerfi til þess að auka skilvirkni í stefnumótun. Þannig vill hann að ESB komi á sameinuðu varnarbandalagi fyrir árið 2025 og lagði einnig til að stofna evrópska netöryggisstofnun. Juncker útilokaði ESB-aðild Tyrklands í fyrirsjáanlegri framtíð og fordæmdi alræðistakta Recep Tayyip Erdogan og harðskeytta orðræðu hans gagnvart leiðtogum fjölmargra ESB-ríkja.
Flóttamanna- og innflytjendamál komu líka við sögu í ræðu Juncker og sagði hann að náðst hefði að minnka hinn gríðarlega straum fólks til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. Hann lagði áherslu á að ESB myndi gera meira til bæta kjör flóttamanna í Líbíu og víðs vegar í kringum Miðjarðarhafið en sambandið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir meðhöndlun þess á flóttafólki að undanförnu.
Brussel, París, Berlín og Róm
Undirtektir við ræðu Juncker hafa verið misjafnar og hafa leiðtogar margra ESB-ríkja tekið undir hluta af stefnumálum Juncker, einna helst hvað varðar fríverslun, á meðan að sýn hans á stækkun evrusvæðisins og aukins samruna í átt að tilfærslu ákvarðanatöku til ESB hefur vakið gagnrýni.
Ræða Juncker er mikilvæg í þeim skilningi að hún markar pólitíska sýn sambandsins fyrir næstu árin og hefur jákvæðnin og sjálfstraustið sem einkenndi ræðuna glatt Evrópusinna víðs vegar um álfuna. Þegar kemur að sjálfri stefnumótuninni í ESB á næstu árum mun hún að mestu leyti fara eftir samspili ríkisstjórnanna í Berlín, París, Róm og öðrum Evrópuríkjum og því fer fjarri að Juncker muni ná fram með öll stefnumál sín. Hins vegar nýtur hann stuðnings Angela Merkel, kanslara Þýskalands, og Macron í mörgum stefnumálum og mun ákafi Juncker ásamt nýjum byr í seglum evrópusinnaðra ríkisstjórna í Berlín og París gera ESB kleift að snúa vörn í sókn í fyrsta sinn í langan tíma.