Framboðslistar tínast nú inn hjá flokkunum og eins og staðan er núna eru konur í oddvitasætum í minnihluta. Tíu konur leiða lista af þrjátíu í komandi þingkosningum þann 28. október næstkomandi. Á næstu dögum mun koma í ljós hvernig listarnir í öllum flokkum muni líta út.
Sjálfstæðisflokkurinn, Björt framtíð og Píratar eru allir búnir að kynna sína framboðslista fyrir öll kjördæmin. Vinstri græn hafa tilkynnt um lista í tveimur kjördæmum af fjórum. Viðreisn mun kynna sína lista um næstu helgi og framboðslistar Framsóknarflokksins verða kynntir á næstu dögum. Flokkur fólksins er búinn að tilkynna oddvita framboðslista sinna. Miðflokkurinn hefur ekki gefið út hvenær hann ætli að kynna sitt fólk.
Sjálfstæðisflokkurinn
Ljóst er hvernig framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í öllum kjördæmunum líta út. Í Suðvesturkjördæmi leiðir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður skipar annað sæti, Jón Gunnarsson ráðherra það þriðja, Óli Björn Kárason alþingismaður það fjórða og Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður það fimmta.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipar oddvitasætið í Reykjavíkurkjördæmi norður, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir alþingismaður annað sæti, Birgir Ármannsson alþingismaður það þriðja, Albert Guðmundsson laganemi fjórða og Herdís Anna Þorvaldsdóttir varaborgarfulltrúi það fimmta.
Einungis í Reykjavíkurkjördæmi suður leiðir kona lista Sjálfstæðisflokksins og er það Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Brynjar Níelsson alþingismaður er í öðru sæti, Hildur Sverrisdóttir alþingismaður í því þriðja, Bessí Jóhannsdóttir framhaldsskólakennari fjórða og Jóhannes Stefánsson lögfræðingur í því fimmta.
Í Suðurkjördæmi er Páll Magnússon alþingismaður oddviti flokksins, Ásmundur Friðriksson alþingismaður í öðru sæti, Vilhjálmur Árnason alþingismaður í því þriðja, Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður í því fjórða og Kristín Traustadóttir endurskoðandi skipar fimmta sætið.
Í Norðvesturkjördæmi leiðir Haraldur Benediktsson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er í öðru sæti og Teitur Björn Einarsson í því þriðja. Í Norðausturkjördæmi er Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra í oddvitasæti, Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður skipar annað sætið og Valgerður Gunnarsdóttir alþingismaður það þriðja.
Vinstri hreyfingin - grænt framboð
Enn á eftir að koma í ljós hverjir muni verða oddvitar í fjórum kjördæmum en í Reykjavíkurkjördæmunum mun framboðslisti vera kynntur miðvikudaginn 4. október. Í Norðvesturkjördæmi verður listinn kynntur í kvöld 3. október og í Norðausturkjördæmi mánudaginn 9. október. Eins og staðan er núna leiðir ein kona og einn karl listana í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi.
Í Suðvesturkjördæmi er Rósa Björk Brynjólfsdóttir alþingismaður oddviti, Ólafur Þór Gunnarsson læknir í öðru sæti, Una Hildardóttir í því þriðja, Fjölnir Sæmundsson í fjórða og Ester Bíbí Ásgeirsdóttir í því fimmta. Ari Trausti Guðmundsson leiðir listann í Suðurkjördæmi, Heiða Guðný Ásgeirsdóttir skipar annað sætið, Daníel E. Arnarson þriðja, Dagný Alda Leifsdóttir það fjórða og Helga Tryggvadóttir það fimmta.
Þótt listar flokksins í Reykjavík og í Norðvesturkjördæmi hafi enn ekki verið kynntir þá má sterklega búast við því að þeir verði allir leiddir af konum. Katrín Jakobsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir leiddu þá lista í síðustu kosningum og munu að öllum líkindum gera það aftur.
Píratar
Úrslit voru ljós í öllum prófkjörum Pírata þann 30. september síðastliðinn. Konur leiða í tveimur kjördæmum, öðru Reykjavíkurkjördæminu og Norðvesturkjördæmi, þær Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Eva Pandora Baldursdóttir. Í Suðvesturkjördæmi leiðir Jón Þór Ólafsson lista Pírata. Í öðru sæti er Oktavía Hrund Jónsdóttir, í því þriðja Dóra Björt Guðjónsdóttir og Andri Þór Sturluson í því fjórða.
Í Reykjavíkurkjördæmunum var sameiginlegt prófkjör. Helgi Hrafn Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir munu leiða kjördæmin en þeir sem völdust á listann velja sér annað hvort suður- eða norðurkjördæmi. Þau eru í þessari röð: Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Gunnar Hrafn Jónsson, Olga Margrét Cilia, Snæbjörn Brynjarsson, Sara Oskarsson, Einar Steingrímsson og Katla Hólm Vilberg- Þórhildardóttir.
Smári McCarthy er oddviti í Suðurkjördæmi, Álfheiður Eymarsdóttir í öðru sæti, Fanný Þórsdóttir í því þriðja, Albert Svan í fjórða og Kristinn Ágúst Eggersson í því fimmta. Eva Pandora Baldursdóttir leiðir listann í Norðvesturkjördæmi, Gunnar Ingiberg Guðmundsson er í öðru sæti og Rannveig Ernudóttir í því þriðja. Í Norðausturkjördæmi er Einar Brynjólfsson oddvitinn, Guðrún Ágústa Þórdísardóttir skipar annað sæti og Urður Snædal það þriðja.
Samfylkingin
Í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi mun Samfylkingin leggja fram framboðslista til samþykkis í kvöld 3. október. Ein kona er í oddvitasæti hjá flokknum eins og komið er.
Í Reykjavíkurkjördæmi norður mun Helga Vala Helgadóttir lögmaður og leikkona skipa fyrsta sætið, Páll Valur Björnsson grunnskólakennari annað sætið, Eva Baldursdóttir lögfræðingur það þriðja, Þórarinn Snorri Sigurgeirsson sagnfræðingur og formaður Ungra jafnaðarmanna fjórða og Nikólína Hildur Sveinsdóttir mannfræðinemi það fimmta.
Ágúst Ólafur Ágústsson háskólakennari er oddviti í Reykjavíkurkjördæmi suður. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri er í öðru sæti, Einar Kárason rithöfundur í þriðja, Ellert B. Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og fyrrv. alþingismaður fjórða og Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í því fimmta.
Í Norðvesturkjördæmi skipar Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður fyrsta sætið, Arna Lára Jónsdóttir verkefnastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar annað sæti og Jónína Björg Magnúsdóttir fiskverkakona það þriðja. Í Norðausturkjördæmi er Logi Már Einarsson oddviti, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir í öðru sæti og María Hjálmarsdóttir í því þriðja.
Björt framtíð
Björt framtíð kynnti framboðslista í gær, 2. október. Fleiri konur en karlar leiða listana hjá flokknum en fjórar konur leiða í Reykjavíkurkjördæmi suður, Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.
Í Reykjavíkurkjördæmi Norður leiðir formaðurinn Óttarr Proppé listann. Í öðru sæti er Auður Kolbrá Birgisdóttir lögmaður, í því þriðja er Sunna Jóhannsdóttir viðskiptafræðingur, í fjórða Ágúst Már Garðarsson kokkur og Sigrún Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur og dósent í þjónandi forystu í því fimmta.
Nichole Leigh Mosty þingmaður leiðir listann í Reykjavíkurkjördæmi Suður. Hörður Ágústsson eigandi Macland skipar annað sætið, Starri Reynisson stjórnmálafræðinemi þriðja, Þórunn Pétursdóttir landgræðsluvistfræðingur fjórða og Diljá Ámundadóttir KaosPilot og MBA það fimmta.
Í Suðvesturkjördæmi er Björt Ólafsdóttir oddvitinn, Karólína Helga Símonardóttir mannfræðingur í öðru sæti, Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri í þriðja sæti, G. Valdimar Valdemarsson framkvæmdastjóri í fjórða og Ragnhildur Reynisdóttir markaðsstjóri í því fimmta.
Jasmina Crnac stjórnmálafræðinemi leiðir í Suðurkjördæmi. Arnbjörn Ólafsson markaðsstjóri Keilis skipar annað sætið, Valgerður Björk Pálsdóttir framkvæmdastjóri þriðja sætið og Drífa Kristjánsdóttir bóndi það fjórða. Guðfinna Gunnarsdóttir framhaldsskólakennari er í fimmta sæti.
Í Norðvesturkjördæmi er Guðlaug Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari og stjórnarformaður Bjartrar framtíðar oddviti, Kristín Sigurgeirsdóttir skólaritari í tónlistarskóla í öðru sæti og Elín Matthildur Kristinsdóttir meistaranemi í því þriðja. Í Norðausturkjördæmi leiðir Arngrímur Viðar Ásgeirsson hótelstjóri og íþróttakennari listann, Halla Björk Reynisdóttir flugumferðastjóri skipar annað sæti og Hörður Finnbogason ferðamálafræðingur það þriðja.
Flokkur fólksins
Ein kona mun leiða lista Flokks fólksins en það er oddviti Reykjavíkurkjördæmis suðurs, Inga Sæland. Dr. Ólafur Ísleifsson mun leiða í Reykjavíkurkjördæmi norður, Guðmundur Ingi Kristinsson Suðvesturkjördæmi, Karl Gauti Hjaltason Suðurkjördæmi, Magnús Þór Hafsteinsson Norðvesturkjördæmi og Sr. Halldór Gunnarsson í Norðausturkjördæmi.