Fráveitur, þjóðvegir og sveitarfélagavegir fá lélegustu ástandseinkunina í skýrslu sem unnin var af Samtökum iðnaðarins og Félags ráðgjafaverkfræðinga, þar sem fjallað er um innviði í landinu og stöðu einstakra þátta. Mikilla útbóta sé þörf á báðum vígstöðum og samtals er reiknað með að þörf sé á fjárfestingum upp á 160 til 210 milljarða króna til þess að gera stöðu þeirra góða.
Telja skýrsluhöfundar að stórir hlutar þjóðvegakerfisins uppfylli ekki lágmarksviðmið sem lúta að hrörnun slitlags, hjólfaradýpt, sprungumyndun og holumyndun, kantskemmdum, og fleiri þáttum. Ef fer fram sem horfir verður erfitt að uppfylla ítrustu gæðakröfur til framtíðar með tilliti til öryggis, aðgengis og umferðarflæðis, segir í skýrslunni.
Þrátt fyrir að fráveitur á Íslandi teljist með góðar framtíðarhorfur, samkvæmt skýrslunni, þ.e. að fyrirhugaðar séu fjárfestingar sem gerir það að verkum að þær muni mæta kröfum og þörfum eftir tíu ár, þá fá þær lága ástandseinkunn. Til þess að koma þeim í ágætiseinkunn þá þarf að fjárfesta 50 til 80 milljörðum króna. Íslendingar eigi langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.
Stór hluti vegakerfisins kominn á líftíma
Ástand vegamannvirkja á forræði sveitarfélaga hefur ekki verið metið með kerfisbundnum hætti síðustu ár né farið fram ítarleg og samkvæm greining á ástandinu, samkvæmt skýrslunni. Upplýsingar um ástand sveitarfélagavega séu því af skornum skammti en þó fengust upplýsingar á vinnslustigi frá stærri sveitarfélögum. Þegar ályktanir séu dregnar um ástand sveitarfélagavega á landinu öllu er gengið út frá þeirri forsendu að líklegt sé að ástandið í öðrum sveitarfélögum sé litlu betra. Ljóst er þó að stór hluti vegakerfisins er kominn á líftíma og ástandið jafnvel ívíð verra en á þjóðvegum. Mikil þörf hefur myndast fyrir endurnýjun gatna, styrkingar og endurbætur í kerfinu.
Fjárþörf vegna reglubundins viðhalds bundinna slitlaga er áætluð um 2,2 til 3,4 milljarðar króna á ári. Þá bætast við að meðaltali um 100 kílómetra langra vega á hverju ári sem þarfnast styrkinga og endurbóta og er áætluð fjárþörf vegna slíks 3 milljarðar króna. Miðað er við að árleg fjárþörf vegna viðhalds brúa sé 2 prósent af endurstofnvirði eða um 1,8 milljarðar króna. Ekki var unnt að meta viðhaldsþörf jarðganga á þessu stigi.
Samtals er fjárþörf vegna reglubundins viðhalds því metin 7 til 8 milljarðar króna á ári. Á árunum 2017 til 2027 má því áætla að heildarkostnaður vegna reglubundins viðhalds verði 70 til 80 milljarðar króna, með fyrirvara um óvissu. Þessu til viðbótar er fjárþörf vegna uppsafnaðs viðhalds um 70 milljarðar króna eins og áður kom fram, alls 140 til 150 milljarðar króna. Samkvæmt samgönguáætlun 2015 til 2026 er áformað að verja um 86 milljörðum króna til viðhalds á tímabilinu þannig að eingöngu er verið að mæta litlum hluta af uppsafnaðri þörf þegar fjármunum hefur verið varið í reglubundið viðhald. Í ljósi þessa eru framtíðarhorfur metnar stöðugar.
Óvíst hvort nóg sé aðhafst í sveitarfélögunum
Í skýrslunni kemur fram að minna sé um gögn fyrir sveitarfélagavegi og erfitt að fjölyrða um framtíðarhorfur þeirra og hvort framtíðarsamþykktir komi til móts við þörfina. Þau gögn sem bárust benda þó til að verið sé að efna til átaks í gatnakerfinu á næstu árum, m.a. innan Reykjavíkur en þar er áætlað að verja meira en 8 milljörðum króna til endurnýjunar og viðgerða fram til ársins 2021. Líklegt er því að horfur séu stöðugar í tilfelli sveitarfélagavega einnig en mikil óvissa er um það mat.
Þá ber að athuga, segir í skýrslunni, að áherslur sveitarfélaga eru um margt frábrugðnar áherslum ríkisins en áskoranir þéttbýlis hafa leitt til þess að meiri áhersla hefur verið lögð á að auka hlutdeild almenningssamgangna og virkra samgangna í ferðamátavali í stað þess að auka veg einkabílsins eingöngu.
Fjórðungur íbúa landsins búa við enga skólphreinsun
Íslendingar eiga langt í land með að innleiða skólphreinsun í samræmi við skuldbindingar sem ríkið hefur undirgengist vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu. Að mati Umhverfisstofnunar frá árinu 2013 eru kröfur um hreinsun skólps uppfylltar að fullu, eða svo gott sem, á aðeins 5 af þeim 15 þéttbýlissvæðum sem skoðuð eru sérstaklega í samantekt stofnunarinnar vegna umfangs skólplosunar á þessum stöðum. Miðað við mat stofnunarinnar á umfangi skólplosunar þá losa þessar fimm fráveitur, þar sem segja má að ástandið sé í lagi, um 60 prósent skólpmagns í landinu. Fram kemur í samantektinni að mat stofnunarinnar er að fjórðungur íbúa landsins búi við enga skólphreinsun. Þessar tölur miðast við árið 2010. Einhverjar framfarir hafa verið frá þeim tíma, en þær eru ekki verulegar í samanburði við það sem upp á vantar. Ljóst er að þörf er á miklum úrbótum í þessum málum svo uppfylla megi reglugerðarkröfur.
Ennfremur segir í skýrslunni að ófullnægjandi hreinsun skólps geti haft áhrif á umhverfið. Sem dæmi megi nefna að gera má ráð fyrir að mikið magn úrgangs á borð við plast berist með fráveituvatni út í umhverfið hér á landi vegna engrar eða lítillar hreinsunar þess víða um land. Einnig sé ekki útilokað að mengun frá fráveitum hafi áhrif á viðkvæm vatnavistkerfi á borð við Mývatn en vatnið hefur sýnt merki ofauðgunar undanfarin ár. Víða um land liggi ekki fyrir mat á ástandi lagnakerfa byggt á kerfisbundinni myndun og ástandsgreiningu. Þrátt fyrir það megi gera ráð fyrir að til staðar sé uppsöfnuð þörf á viðhaldi lagna, þar sem hlutar lagnakerfa hafa náð ráðgerðum endingartíma þeirra án þess að lögnum hafi verið skipt út eða þær fóðraðar.
Viðhaldi lagnakerfa ábótavant
Ónógt viðhald lagnakerfa veldur því að afköst lagnakerfisins minnka, rekstrarkostnaður eykst, úr sér gengnar fráveitulagnir geta hrunið auk þess sem gera má ráð fyrir að tjón verði tíðari. Algengast er hér á landi að ofanvatn í þéttbýli sé leitt í fráveitur. Með ofanvatni er átt við regnvatn og snjóbráð. Mikilvægt er að slík kerfi anni rennsli vegna mikillar úrkomu eða leysinga, til að ekki verði tjón vegna vatnselgs. Dæmi eru um að afköst fráveitna láglendra þéttbýlissvæða séu ófullnægjandi og vatnstjón því óvenjualgeng. Þar er þörf á úrbótum.
Í eldri byggðum er ofanvatn í fráveitum blandað skólpi. Ónóg afköst fráveitna við þær aðstæður valda því að skólp flæðir óhreinsað úr fráveitunum um yfirföll, þrátt fyrir að ekki verði tjón á eignum vegna flóða. Þar sem upplýsingar um það liggja fyrir hefur losun um yfirföll í flestum tilfellum staðið yfir í minna en 5% hvers árs á tímabilinu frá 2010 til 2016. Slík losun er innan marka reglugerðar um fráveitur og skólp. Ekki liggja fyrir samanteknar upplýsingar um ástand fráveitna í dreifbýli í landinu. Víðast er gerð krafa um rotþrær og siturbeð við slíkar aðstæður.
Gera má ráð fyrir að allstór hluti einkafráveitna uppfylli ekki kröfur um fullnægjandi stærð og útfærslu rotþróa og siturbeða. Þar sem kröfur eru um ítarlegri hreinsun skólps í dreifbýli vegna viðkvæms viðtaka eru eingöngu örfá dæmi um að slíkum kröfum hafi verið mætt. Losun lífræns úrgangs í fráveitur felur í sér mikla sóun, meðal annars á verðmætum næringarefnum og orku. Víðast er seyru úr skólphreinsivirkjum fargað án nokkurrar nýtingar. Þó dæmi séu um nýtingu seyru til landgræðslu er það magn næringar - efna sem er endurnýtt í slíkum verkefnum smávægilegt í samanburði við heildarmagn næringarefna sem glatast í íslenskum fráveitum. Slá má á að magn uppleysts fosfórs sem glatast í hafið umhverfis landið frá Íslendingum nemi að minnsta kosti um 200 tonnum á ári. Framleiðsla lífgass úr seyru er sömuleiðis hverfandi hér á landi.
Mikilvægt að endurnýja gamlar lagnir
Athygli vekur að skýrsluhöfundar meta framtíðarhorfur góðar þrátt fyrir að mikil þörf sé á endurbótum í lagnakerfinu. Í skýslunni segir að gera megi ráð fyrir að lofslagsbreytingar stuðli að hækkuðu sjávarborði og aukinni úrkomu. Hækkun sjávarborðs hefur augljós neikvæð áhrif á fráveitur láglendra þéttbýlissvæða og kann að kalla á auknar fjárfestingar til að viðhalda afköstum þeirra. Aukin úrkoma hefur einnig áhrif. Gera má ráð fyrir að lagnir í nýrri hverfum þoli í nær öllum tilfellum vel aukið rennsli vegna úrkomu en ljóst er að þörf verður á auknum fjárfestingum í einhverjum eldri byggðum.
Þær hreinsistöðvar sem þegar hafa verið byggðar til að uppfylla hreinsikröfur reglugerða eru flestar tiltölulega nýjar og munu anna auknu rennsli í fyrirsjáanlegri framtíð. Það má slá á að allar lagnir sem náð hafa 50 til 60 ára aldri án þess að þeim hafi verið skipt út eða þær fóðraðar séu svo gott sem ónýtar. Mikil uppbygging var hér á landi um miðja síðustu öld og því má gera ráð fyrir að stór hverfi í flestum þéttbýlis - stöðum landsins hafi náð þessum aldri eða geri það á allra næstu árum. Því er mikil þörf á endurbótum á lagnakerfum, ef þau eiga ekki að bresta.