Er fjórflokkurinn hruninn?
Tveir þriðju hlutar kjósenda ætla að kjósa einhvern fulltrúa fjórflokksins í kosningum eftir eina viku. Fjórflokkurinn hefur að jafnaði fengið 87% í Alþingiskosningum síðan 1963.
Í sögulegu samhengi hafa það einkum verið fjórir flokkar sem deilt hafa völdum hér á landi. Þessir flokkar, sem oftast eru einu nafni kallaðir „fjórflokkurinn“ eru jafnframt grunnurinn af því sem hefur einkennt íslenska flokkaskipan frá stofnun lýðveldisins.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur jafnan verið stærstur og yfirleitt átt auðvelt með að taka Framsóknarflokkinn með sér í stjórnarsamstarf. Ef kosningaúrslitin hafa hins vegar þótt Framsóknarflokknum í vil hefur formaðurinn oftast hringt í kollega sinn í Valhöll. Ef málefnaágreiningur kom upp milli þessara flokka varð oft stjórnarkreppa.
Hinir flokkarnir í fjórflokknum eru tveir vinstriflokkar. Saga þeirra er mun flóknari en saga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og hafa þeir gengið undir ýmsum nöfnum. Síðan um aldamótin hafa þessir flokkar heitið Samfylkingin og Vinstri hreyfingin - grænt framboð. Í öllum kosningum og skoðanakönnunum á síðari hluta 20. aldar og á fyrsta áratug þeirrar 21. hefur fjórflokkurinn vegið þyngst og átt hið pólitíska svið út af fyrir sig, nema þegar fimmti aukaleikarinn hefur troðið sér inn í senurnar og jafnvel valdið nokkrum usla áður en áhorfendur púa hann niður af sviðinu.
Á árunum sem liðin eru frá bankahruni hafa æ fleiri framboð rutt sér inn á sviðið til þess að verða þessi fimmti leikari. Mörgum flokkum hefur mistekist að halda í stuðning sinn eftir kosningar og fallið af sviði stjórnmálanna. Önnur framboð hafa þá rutt sér fram á sviðið og gert sig gildandi.
Fyrir kosningarnar í ár eru fimm „viðbótarframboð“ við hinn hefðbundna fjórflokk. Eftir stærðaröð í kosningaspánni eru það Píratar, Miðflokkurinn, Viðreisn, Flokkur fólksins og Björt framtíð. Önnur framboð sem ekki eru tiltekin í kosningaspánni eru Alþýðufylkingin og Dögun.
Fjórflokkurinn ekki eins vinsæll
Á undanförnum áratugum hefur stuðningur við fjórflokkinn, þe. einn af þessum fjórum framboðum, minnkað nokkuð. Í Alþingiskosningum 1963 fékk fjórflokkurinn nærri því öll atkvæðin. Í Alþingiskosningum það sem eftir lifði öldinni fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn yfirleitt meira en helming atkvæða.
Samtals voru flokkarnir með tæplega 70 prósent atkvæða í kosningunum 1963. Árið 1999 var það hlutfall tæplega 60 prósent. Áratug síðar hlutu þessir flokkar einungis 38,5 prósent atkvæða samanlagt en fengu svo aftur meirihluta fjórum árum síðar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hringdust þess vegna á eins og svo oft áður.
Í kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar sem gerð hefur verið í aðdraganda Alþingiskosninganna 28. október í ár, kemur í ljós að stuðningur við fjórflokkinn svokallaða virðist hafa vaxið á milli ára. Í kosningunum í fyrra fengu flokkarnir fjórir 62,1 prósent atkvæða. Í kosningaspánni ár hafa flokkarnir haft samanlagt á bilinu 64 til 69 prósent stuðning.
Hvert hefur restin farið?
Rannsóknir hafa sýnt að á undanförnum árum hefur flokkshollusta á Íslandi minnkað. Það þýðir að færri samsama sig við einhvern einn stjórnmálaflokk en gerðu áður. Fylgi stjórnmálaflokka er þess vegna kvikara en það var áður, reiðubúið til þess að styðja aðra flokka en þessa hefðbundnu.
Um leið dreifist fylgið á fleiri stjórnmálaöfl. Nú eru fimm stjórnmálaflokkar til viðbótar við fjórflokkinn sem bjóða fram til Alþingis sem fá meira en tvö prósent stuðning í kosningaspánni. Fjögur viðbótarframboð fengu meira en fimm prósent stuðning í kosningaspánni 18. október.
Hrun flokkakerfisins
Flokkakerfið – sem við höfum hingað til kallað fjórflokkinn – virðist vera á undanhaldi. Á fáeinum árum hafa vinsældir rótgrónu stjórnmálaflokkanna fallið. Stuðningur við þessa flokka hefur aldrei verið minni en í kosningunum 2016. Núna ári síðar er fylgi við Sjálfstæðisflokkinn í lægstu lægðum, Framsóknarflokkurinn er klofinn, Vinstri flokkarnir mælast með samtals 37 prósent stuðning. Dreifing stuðningsins hefur sjaldan verið jafn jöfn.
Samanburður á niðurstöðum kosninga við kosningaspána 18. október 2017 renna stoðum undir þá tilgátu að hið hefðbundna flokkakerfi sé að líða undir lok. Árið 1963 fengu flokkarnir sem þá skipuðu fjórflokkinn samtals 99,8 prósent atkvæða. Árið 1987, þegar einn vinsælasti fimmti leikarinn, Borgaraflokkurinn, steig fram á sviðið hlaut fjórflokkurinn 74,6 prósent atkvæða. Í kosningunum árið 2009, fáeinum mánuðum eftir bankahrunið, hlaut fjórflokkurinn 90 prósent atkvæða. Samkvæmt kosningaspánni í dag mun fjórflokkurinn hins vegar einungis fá 66,2 prósent atkvæða.
Nýir flokkar hafa átt erfitt með að fóta sig í íslensku flokkalandslagi í lengri tíma en kannski tvö kjörtímabil. Áhugavert er að líta á Pírata út frá þessu. Pírataflokkurinn var fyrst kjörinn á þing í kosningunum 2013. Flokkurinn fékk þá 5,1 prósent atkvæða og þrjá þingmenn. Í kosningunum í fyrra fengu Píratar svo 14,5 prósent atkvæða og 10 þingmenn kjörna.
Í kosningaspánni eru Píratar nú með stuðning um og yfir 10 prósent kjósenda. Þetta verða þriðju þingkosningarnar sem Píratar gefa kost á sér. Öll kjörtímabilin sem flokkurinn hefur setið hafa verið skert, svo það er erfitt að meta hvort „fimmtaflokksáhrifin“ eigi eftir að ná tökum á flokknum. Þangað til styður dæmið um Pírata þá kenningu að fjórflokkakerfið sé á undanhaldi.
Áhrifin virðast hins vegar hafa heltekið Bjarta framtíð sem hefur mælst með mjög lítinn stuðning undanfarið. Björt framtíð var stofnuð árið 2012 og bauð fram í fyrsta sinn til Alþingis árið 2013, eins og Píratar. Björt framtíð fékk þá 8,6 prósent atkvæða og sex þingmenn. Í næstu kosningum árið 2016 fékk flokkurinn færri atkvæði, 7,2 prósent þeirra féllu til Bjartar framtíðar, og fyrir vikið fékk Björt framtíð aðeins fjóra þingmenn. Nú lítur allt út fyrir að flokkurinn nái engum á þing.
Þessi umfjöllun er byggð á umfjöllun um fjórflokkinn sem gerð var í aðdraganda Alþingiskosninganna í fyrra.