Sífellt stærra hlutfall Íslendinga er á leigumarkaði. Meirihluti leigjenda er á leigumarkaðnum af nauðsyn og 80 prósent leigjenda vilja kaupa sér íbúð. Þetta kom fram á húsnæðisþingi sem haldið var mánudaginn 16. október síðastliðinn á Hilton Reykjavík Nordica. Rætt var á þinginu með hvaða hætti megi bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem er á húsnæðismarkaði.
Velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður boðuðu til þingsins og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra sagði vonir standa til að krísan leysist á næstu tveimur árum.
Þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir leigjendur geta safnað sér sparifé. Mikill áhugi er á að búa í öruggu leiguhúsnæði sem er ekki rekið í hagnaðarskyni og þar sem húsnæðiskostnaði er haldið í hófi. Una Jónsdóttir, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs, kynnti niðurstöður könnunarinnar á Húsnæðisþinginu.
Staða leigjenda er ennþá slæm
57 prósent leigjenda segjast vera á leigumarkaði af nauðsyn. Una segir að fólk á leigumarkaði virðist vera fast þar gegn sínum vilja eins og staðan er í dag.
Í erindi sínu lýsti Una áhyggjum af því að úrræði stjórnvalda, sem eiga að hjálpa fólki að kaupa sér íbúð og komast þannig af leigumarkaði, gagnist síður tekjulágum leigjendum. Sem dæmi sé aðeins um helmingur leigjenda með séreignarsparnað. Eftir því sem tekjur leigjenda eru lægri, minnki líkur á því að viðkomandi sé að safna sér sparnaði.
Fólk sem leigir hjá ættingjum og vinum í betri stöðu
Í dag eru 17 prósent heimila á Íslandi á leigumarkaði. Ungt fólk, námsmenn og öryrkjar eru hópar sem eru sérstaklega líklegir til að leigja sér húsnæði. Athygli vekur að um 20 prósent fólks á leigumarkaði leigir hjá ættingjum sínum eða vinum. Þetta fólk telur sig almennt búa við húsnæðisöryggi, ólíkt fólki á almennum leigumarkaði sem telur markaðinn ekki vera traustan.
Aðeins 14 prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði og borga leigjendur að meðaltali 41 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Fleiri leigjendur geta þó safnað sér sparifé en árið 2015. Þrátt fyrir það getur meirihluti leigjenda ekki safnað sér sparnaði. Aðeins 14 prósent leigjenda vilja vera á leigumarkaði en 57 prósent leigjanda eru þar af nauðsyn.
Una bendir jafnframt á að staðan á húsnæðismarkaði hafi verið býsna erfið upp á síðkastið. Hækkanir á fasteignaverði hafi tekið fram úr aukningu kaupmáttar og öðrum undirliggjandi stærðum með þeim afleiðingum að fólk sem er að reyna að komast inn á markaðinn komist ekki að. Það sé ánægjulegt að sjá að leigjendur geta í auknum mæli lagt til hliðar en aftur á móti sé sorglegt að sjá það ekki endurspeglast í aukinni kaupgetu.
Margir leigjendur sækja ekki um húsnæðisstuðning
Aðgengi að viðunandi húsnæði eru mannréttindi sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að tryggja samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum. Þetta segir Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, en hann hélt erindi á þinginu. Alþjóðlegar mælingar bendi hins vegar til þess að Íslendingar standi öðrum þjóðum að baki þegar kemur að aðgengi að húsnæði á viðunandi kjörum og það sé mikið áhyggjuefni.
Hermann segir húsnæðisstuðning hins opinbera vera fjölþættan en hann felist m.a. í bótagreiðslum, stofnframlögum, niðurgreiðslu á leigu og niðurgreiðslu á lánum. „Þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði er húsnæðisstuðningur hins opinbera undir meðaltali síðustu 15 ára, sé miðað við hlutfall af landsframleiðslu,“ segir hann.
Í máli hans kom jafnfram fram að í ár renna 23 milljarðar í húsnæðisstuðning og er meirihlutinn í formi húsnæðisbóta, vaxtabóta og stofnframlaga. Undanfarin 15 ár hefur hið opinbera varið að meðaltali sem samsvarar 1,1 prósent af landsframleiðslu hvers árs í stuðning við þá sem eiga eða leigja húsnæði. Til að ná þessu hlutfalli þyrfti húsnæðisstuðningur að vera um 5 milljörðum króna meiri í ár heldur en gert er ráð fyrir, segir hann.
Hermann segir tækifæri vera til staðar til að gera húsnæðisstuðning hins opinbera skilvirkari. 70 prósent þeirra vaxtabóta sem renna til einstæðinga fara til fólks í efri helmingi tekjudreifingar einstæðinga. „Það er vert að huga að því hvort húsnæðisstuðningi megi í auknum mæli beina til þeirra sem mest þurfa á honum að halda. Þá má nefna að margir leigjendur sækja ekki um húsnæðisbætur þrátt fyrir að eiga rétt á þeim,“ segir Hermann og bætti við að frá og með áramótum muni Íbúðalánasjóður annast greiðslu húsnæðisbóta og að mati sjóðsins eru tækifæri til að efla meðvitund leigjenda um réttindi þeirra á húsnæðisbótum og öðrum húsnæðisstuðningi.
Tryggja verður stöðugleika á fasteignamarkaði
Hermann segir að fyrir marga væru íbúðakaup stærsta fjárfesting lífsins. „Samanlagt virði íbúða almennings er meira heldur en samanlagður lífeyrissparnaður landsmanna. Verðsveiflur á fasteignamarkaði hafa því mikil áhrif á fjárhagslega stöðu þeirra 70 prósent landsmanna sem búa í eigin íbúð. Það er meðal annars af þessum sökum sem mikilvægt er að tryggja stöðugleika á fasteignamarkaði,“ segir hann.
Undanfarin ár hefur fjölgun íbúða verið mun minni en sem nemur þörf á nýjum íbúðum. Útlit er fyrir að betra jafnvægi náist smám saman næstu árin en það er þó háð mikilli óvissu. Hermann segir því mikilvægt að stjórnvöld og almenningur hafi heildstætt yfirlit yfir húsnæðismarkaðinn, meðal annars hvað varðar uppbyggingu íbúða, til að stuðla að því að markaðurinn sé stöðugur og fyrirsjáanlegur.
Fordæmalaus húsnæðisskortur
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra sótti þingið og segir hann að vonir standi til að krísan leysist á næstu tveimur árum. Meiri fólksfjölgun en spáð var setji þó nokkurn strik í reikninginn. Landsmönnum fjölgaði jafnmikið á fyrri helmingi þessa árs og allt árið 2016 og því sé enn meiri þörf fyrir fjölgun íbúða en spáð hafði verið.
„Við erum að glíma við fordæmalausan húsnæðisskort,“ segir hann en hann telur þó að krísan leysist á næstu tveimur árum. „Við höfum tryggt 4.000 nýjar íbúðir á ríkislóðum og við ætlum að koma í veg fyrir að þetta ástand endurtaki sig nokkurn tímann aftur.“
Vandinn ekki leystur nema með samstilltu átaki
Ráðherra ræddi um orsakir húsnæðisskortsins, svo sem óstöðugt efnahagsumhverfi sem magni upp sveiflur í byggingariðnaði, lóðaskort, stóra árganga sem séu að koma inn á húsnæðismarkaðinn, Airbnb og byggingarreglugerð frá 2012 sem jók kostnað við nýbyggingar. Hann segir að til að reyna að leysa þennan vanda hafi verið efnt til samstarfs fjögurra fagráðuneyta, sem að málinu koma, við öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Hann segir að vandi af þessari stærðargráðu verði ekki leystur nema með samstilltu átaki allra og bætir við að aðgerðaáætlun um lausn vandans hafi verið lögð fram í júní. Í henni felist að bæta greiningu og upplýsingagjöf, auka framboð íbúðahúsnæðis, auka hagkvæmni nýrra íbúða og styðja betur við kaupendur.
Stærsta áskorunin væri þó að koma í veg fyrir að sú slæma staða sem nú sé á húsnæðismarkaði geti endurtekið sig. „Ég vænti þess að aðgerðaáætlun stjórnvalda muni ná fram jafnvægi á næstu tveimur eða í mesta lagi þremur árum. Ég ætla að gerast svo brattur að segja að ef húsnæðissáttmálanum verður fylgt áfram þá sjáum við fyrir endann á þessum vanda,“ segir Þorsteinn.
Hluti húsnæðisvandans felst í skammtímaleigu til ferðamanna
Um þessar mundir eru búa um 20.000 manns á aldrinum 20 til 29 ára í foreldrahúsum og hefur sá fjöldi farið vaxandi. Ísland hefur gengið í gegnum miklar sveiflur á húsnæðismarkaði síðastliðin misseri en tiltölulega stórir árgangar ungs fólks hafa komið inn á fasteignamarkað á undanförnum árum á sama tíma og nýbyggingar hafa ekki verið færri síðan á 6. áratugnum. Þetta kom fram í erindi Sigrúnar Ástu Magnúsdóttur, verkefnastjóra húsnæðisáætlana hjá Íbúðalánasjóði.
Fjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi hefur hækkað undanfarin ár á meðan hann hefur almennt farið lækkandi á hinum Norðurlöndunum. Í dag eru um 2,5 íbúar í hverri íbúð á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum eru um 2 íbúar í hverri íbúð.
Hluti húsnæðisvandans felst í aukinni skammtímaleigu íbúða til ferðamanna. Í erindi Sigrúnar kom fram að um 1,2 prósent íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafa verið í leigu á Airbnb í 180 daga eða fleiri á síðustu 12 mánuðum. Staðan er öðruvísi á mörgum öðrum landsvæðum þar sem minna er um að íbúðir séu í svo mikilli útleigu á Airbnb.
Húsnæðisáætlanir eiga að tryggja öruggt húsnæði
Flest sveitarfélög á landinu vinna nú að gerð húsnæðisáætlana í samstarfi við Íbúðalánasjóð. Markmiðið með húsnæðisáætlunum er að tryggja að fjölgun íbúða í einstökum sveitarfélögum og á landinu öllu sé í takt við mannfjöldaspár og breyttar fjölskyldugerðir. Með þeim hætti er gengið úr skugga um að allir hafi aðgang að öruggu húsnæði við hæfi.
48 sveitarfélög hafa nú hafið vinnu við húsnæðisáætlun og eru 15 þeirra ýmist langt komin eða hafa birt áætlun. Sem dæmi um afrakstur vinnunnar má nefna að sveitarfélögin á Suðurnesjum gera ráð fyrir samtals 1.000 nýjum íbúðum á árunum 2017 til 2021.
Sigrún segir að það sé mjög ánægjulegt að sjá heilt landssvæði takast á við þær miklu áskoranir sem munu fylgja ef spá um mikla mannfjöldaaukningu ganga eftir en öll sveitarfélögin á Suðurnesjunum eru nú á lokametrunum við gerð sinnar húsnæðisáætlunar.
Hún segir jafnframt að annar vandi blasi hins vegar við á landsbyggðinni þar sem á mörgum landssvæðum hefur nánast ekkert verið byggt svo árum og jafnvel áratugum skiptir. Það sé mikilvægt að Íslendingar greini þann vanda með nákvæmum hætti eftir ólíkum landssvæðum og þar séu húsnæðisáætlanir sveitarfélaga lykilþáttur.