Gert er ráð fyrir því að aðfluttir íbúar verði 23.385 fleiri en brottfluttir á tímabilinu 2017-2021. Þetta kemur fram í mannfjöldaspá Hagstofunnar sem birt var í gær. Aðfluttir eru fyrst og fremst erlendir ríkisborgarar. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 30.380 hérlendis. Þeim mun því fjölga um 77 prósent á örfáum árum ef gengið er út frá því að allir aðfluttir umfram brottflutta séu erlendir ríkisborgarar.
Það má samt ætla að erlendu ríkisborgararnir sem hingað koma verði enn fleiri. Á undanförnum árum hafa fleiri Íslendingar flutt burt frá landinu en til þess og Hagstofan gerir ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram. Samsetning þeirra íbúa sem búa á Íslandi mun því breytast ansi skarpt á næstu örfáu árum.
Sprenging í fjölgun árið 2017
Gert er ráð fyrir að aðfluttir umfram brottflutta verði 5.119 á þessu ári í mannfjöldaspánni. Verulegar líkur eru á að sú tala sé vanáætluð í ljósi þess að rauntölur sýna að erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 4.300 á fyrstu sex mánuðum ársins. Það þýðir að þeim útlendingum sem hingað flytja umfram þá sem flytjast í burtu fjölgaði meira á fyrri hluta þessa árs en á öllu síðasta ári, þegar erlendum ríkisborgurum hérlendis fjölgaði um 4.090.
Undanfarin sex ár hefur að meðaltali 41,5 prósent aðfluttra komið til landsins á fyrri hluta ársins á meðan 39,8 prósent brottfluttra hafa farið burt á fyrri hluta ársins. Ef tölur fyrri hluta ársins 2017 eru umreiknaðar út frá því meðaltali má búast við að 10.237 erlendir ríkisborgarar flytji til landsins á þessu ári, eða um sex þúsund fleiri en gerðu það í fyrra.
Efnahagssveifla dregur erlent vinnuafl að
Þessi þróun hefur verið að eiga sér stað á undanförnum árum. Frá því að efnahagsuppsveiflan hófst hérlendis hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað ár frá ári.
Frá byrjun árs 2012 og til júníloka 2017 fjölgaði þeim um 15.470 alls. Á sama tímabili fluttu 2.847 fleiri Íslendingar af landi brott en til þess.
Það er því skýrt, samkvæmt hagtölum, að samsetning þjóðarinnar er að breytast mjög hratt. Fleiri Íslendingar eru að flytjast af landi brott en erlendum ríkisborgurum fjölgar á móti ákaflega hratt.
Ástæða þess að útlendingum hérlendis fjölgar svona mikið er auðvitað efnahagsuppsveiflan. Á Íslandi verða til mörg þúsund störf á ári í tengslum við ferðaþjónustu, byggingavinnu og aðra afleidda þjónustu. Flest störfin eru láglaunastörf og ekki er til vinnuafl hérlendis til að anna eftirspurn eftir starfsfólki. Þess vegna flykkist erlent vinnuafl hingað til að vinna þessi störf.
Hvað það er sem veldur því að fleiri Íslendingar flytji burt en aftur heim í svona miklum uppgangi er í raun ekkert hægt að staðhæfa um. Ekki eru til tölur um t.d. hver menntun þeirra sem flytja burt sé og því ekki hægt að slá því föstu að þar sé um t.d. menntað fólk sem finni sér ekki viðunandi starfsvettvang eða nægilega spennandi tækifæri á Íslandi.
Vert er þó að taka fram að það virðist vera að hægja á brottflutningi Íslendinga umfram aðflutta landa þeirra. Á fyrri helmingi ársins í ár hafa t.d. 400 fleiri komið heim en farið burt, en þann fyrirvara verður þó að setja á þær tölur að fleiri Íslendingar koma vanalega heim á fyrri hluta árs, en fleiri fara út á síðari hluta þess.
Fjölgar um 23.385 á næstu árum
Í spá Hagstofu Íslands er gert ráð fyrir því að á fimm ára tímabili, frá byrjun árs 2017 og til loka árs 2021 muni aðfluttum erlendum ríkisborgurum umfram brottflutta fjölga um 23.385. Til samanburðar voru erlendir ríkisborgarar hérlendis 30.380 talsins um síðustu áramót. Miðspá Hagstofunnar gerir því ráð fyrir því að erlendum ríkisborgurum sem búa hérlendis fjölgi um 77 prósent á fimm árum, ef gengið er út frá því að aðfluttir umfram brottflutta séu útlendingar.
Gangi sú spá eftir verða þeir því 53.385 talsins í lok árs 2021, þegar spáin gerir ráð fyrir að Íslendingar verði 374.613 talsins. Alls verða erlendir ríkisborgarar þá 14,2 prósent landsmanna.
Raunar má ætla að þessar tölur séu frekar vanáætlaðar en hitt. Í frétt á vef Hagstofunnar vegna birtingar mannfjöldaspárinnar segir:„ Fjöldi aðfluttra verður meiri en brottfluttra á hverju ári, fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda. Íslenskir ríkisborgarar sem flytjast frá landinu verða áfram fleiri en þeir sem flytjast til landsins.“ Spáin greinir ekki á milli erlendra ríkisborgara og íslenskra ríkisborgara heldur sýnir einungis tölur um fjölda aðfluttra umfram brottflutta á hverju ári. Í ljósi ofangreinds má því ætla að fjölgun erlendu ríkisborgaranna verði enn meiri á næstu árum.
Körlum fjölgar
Og þróunin mun halda svona áfram næstu áratugina samkvæmt spánni. Áætlað er,samkvæmt miðspá Hagstofunnar, að íbúar á Íslandi verði 452 þúsund talsins árið 2066. Í mannfjöldaspánni sem var birt í fyrra var gert ráð fyrir að um fjórðungur landsmanna verði þá innflytjendur, eða um 113 þúsund manns miðað við spánna sem birt var í gær.
Innflutningur erlends verkafólks hefur líka töluverð áhrif á kynjahlutfall þjóðarinnar, þar sem flest verkafólkið sem hingað flytur eru karlar. Í árslok 2010 voru 50,2 prósent þjóðarinnar karlar. Það hlutfall hækkaði lítillega næstu sex árin og var 50,5 prósent í árslok 2016. Samkvæmt spá Hagstofunnar tekur hlutfallið hins vegar stökk á næstu árum og verður 51,4 prósent í lok árs 2021.