Almennt þarf að skýra betur hugtakið menntun án aðgreiningar, sem og hvernig standa ber að framkvæmd þess. Þetta kemur fram í skýrslu sem tekin var saman fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið á vegum Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir. Hún birtist á vef stjórnarráðs Íslands í íslenskri þýðingu þann 31. október síðastliðinn.
Í niðurstöðum skýrslunnar segir að mismunandi skilningur sé lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar meðal þeirra sem sinna menntamálum, bæði innan hvers skólastigs og milli skólastiga. Skýrsluhöfundar segja enn fremur að mikilvægt sé að allir í skólasamfélaginu sjái í menntun án aðgreiningar leið til að gefa öllum nemendum kost á gæðamenntun.
Ein af megintillögum í skýrslunni er að efna til víðtækrar umræðu meðal þeirra sem koma að menntamálum um hvernig best verði staðið að menntun án aðgreiningar. Þetta kemur fram í frétt mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skýrsluna. Þar segir jafnframt að útgáfa íslensku þýðingarinnar sé liður í því og verði henni dreift í alla leik-, grunn- og framhaldsskóla á landinu.
Fá ófullnægjandi stuðning
Í skýrslunni kemur einnig fram að margt starfsfólk skóla segist fá ófullnægjandi stuðning til að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi. Á öllum stigum menntakerfisins megi finna dæmi um umbætur að því er varðar skipulag, námsefni, námsmat, kennsluhætti, námsaðstoð, tækifæri til faglegrar starfsþróunar allra þeirra sem vinna að menntamálum og til árangursríkra samskipta starfsfólks.
Slík vinnubrögð hafi þó hvorki náð mikilli útbreiðslu né orðið föst venja í skólastarfinu. Tryggja þurfi að þörfin á viðeigandi og árangursríkum stuðningi við skólastarf, bæði almennt og í einstökum aldurshópum, sé öllum ljós. Öllum í skólasamfélaginu, á öllum stigum kerfisins, eigi að vera gert kleift að ígrunda og framkvæma dagleg störf sín með menntun án aðgreiningar að leiðarljósi.
Þörf á skýrari leiðsögn
Núverandi löggjöf og stefnumótun felur í sér stuðning við markmið og áherslur menntakerfis án aðgreiningar. Samstaða er um þessi markmið og áherslur meðal flestra þeirra sem sinna menntamálum og á öllum stigum kerfisins, samkvæmt skýrslunni. Á hinn bóginn er þörf á skýrari leiðsögn um hvernig standa ber að því að fella þessi stefnumið inn í áætlanir sveitarfélaga og skóla og hrinda þeim í framkvæmd.
Jafnframt segja skýrsluhöfundar að þeir sem vinna að menntamálum þurfi jafnframt á leiðsögn að halda um hvernig haga skuli eftirliti með þeirri framkvæmd og mati á árangri hennar, í samræmi við landslög og markaða stefnu stjórnvalda. Löggjöf og stefnumótun á sviði menntunar án aðgreiningar verði að hafa það markmið að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri.
Fleiri og sveigjanlegri kostir þurfa að bjóðast
Þótt starfsfólk á öllum stigum menntakerfisins vinni af heilindum að framgangi stefnunnar hefur það ekki notið nægilegs stuðnings til þess, segir í skýrslunni. Formlegur stuðningur er að nokkru fyrir hendi en starfsfólk skóla lítur svo á að fleiri og sveigjanlegri kostir á slíkum stuðningi þurfi að bjóðast. Það er almenn skoðun að þessu viðmiði verði varla náð til fulls nema vel sé unnið að öðrum viðmiðum sem íslenski starfshópurinn mótaði og snúa einkum að skilvirkni stuðningskerfa, tilhögun fjárveitinga, stjórnunarháttum og gæðastjórnunaraðferðum.
Enn fremur benda skýrsluhöfundar á að meirihluti viðmælenda í öllum hópum skólasamfélagsins telji núverandi reglur um fjárveitingar og ráðstöfun fjármuna hvorki taka mið af sjónarmiðum um jöfnuð né hugmyndum um skilvirkni. Margir séu þeirrar skoðunar að núverandi fjárveitingavenjur auðveldi starfsfólki ekki að vinna að menntun án aðgreiningar, heldur tálmi framförum á því sviði. Margir sem starfa að menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga telji að breytingar á núgildandi reglum um fjárframlög, sem taka mið af greiningu á sérþörfum í námi eða fötlun, gætu verið mikilvæg lyftistöng fyrir menntun án aðgreiningar á Íslandi. Þess vegna eigi ráðstöfun fjármuna að taka mið af sjónarmiðum um jöfnuð, skilvirkni og hagkvæmni.
Núverandi stjórnunarhættir tryggja ekki nægan stuðning í starfi
Þeir sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis, sveitarfélaga og skóla telja á það skorta að stjórnunarhættir og gæðastjórnunaraðferðir á sviði menntamála séu viðhlítandi, samkvæmt skýrslunni. Hvort sem horft er til ráðuneyta eða sveitarfélaga þykir starfsfólki sem núverandi stjórnunarhættir tryggi því ekki nægan stuðning í starfi. Starfsfólki skóla þykir núverandi tilhögun gæðastjórnunar ekki alltaf skila sér með þeim hætti í skólastarfinu að í henni sé fólgin hvatning til frekari þróunar þess og umbóta. Verði stjórnunarhættir og gæðastjórnunaraðferðir því að tryggja að stefnumótun og framkvæmd á sviði menntunar án aðgreiningar nái fram að ganga á samhæfðan og árangursríkan hátt.
Jafnframt segir að margt starfsfólk skóla hafi efasemdir um að grunnmenntun þess og tækifæri til faglegrar starfsþróunar nýtist sem skyldi til undirbúnings fyrir skólastarf án aðgreiningar. Að áliti margra þeirra sem sinna menntamálum á vettvangi ríkis og sveitarfélaga felli hvorki grunnmenntun né fagleg starfsþróun nægilega vel að markaðri stefnu ríkis og sveitarfélaga, og starfsfólk skóla njóti því ekki nægilegs stuðnings til að innleiða menntun án aðgreiningar sem stefnu sem byggist á rétti hvers og eins. Unnið sé að faglegri starfsþróun á árangursríkan hátt á öllum stigum kerfisins.
Evrópumiðstöðin sjálfstæð stofnun 30 Evrópuríkja
Niðurstöðurnar voru unnar árið 2016 af hálfu starfsfólks og ráðgjafa Evrópumiðstöðvarinnar. Hún er sjálfstæð stofnun 30 Evrópuríkja sem hafa með sér samstarf um málefni er lúta að menntun án aðgreiningar og sérþörfum í námi. Tilgangur hennar er að vinna að umbótum á stefnu og framkvæmd menntamála í þágu nemenda með fötlun og sérþarfir í námi.
Í desembermánuði 2016 voru aðildarlönd miðstöðvarinnar þessi: Austurríki, Belgía, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss og Bretland. Ísland hefur átt fulla aðild að miðstöðinni allt frá stofnun hennar árið 1996.
Segir í skýrslunni að úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar beri að skoða í samhengi við þá þróunarvinnu sem nú á sér stað á Íslandi og verkferlana sem stuðst er við í þeirri vinnu og sé þá einkum vísað til þeirrar innri úttektar sem áður hefur farið fram á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar.
Úttektin hafi fyrst og fremst snúist um að kanna framkvæmd íslenskrar menntastefnu og var hún í því skyni látin taka til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs, stofnana sem annast umsýslu fjárveitinga til menntunar án aðgreiningar, allra hópa skólasamfélagsins, þar á meðal nemenda og aðstandenda þeirra.
Þrjár tegundir gagnasafna
Gagnasöfnun fór fram á tímabilinu frá mars til ágúst 2016. Um var að ræða þrjár tegundir gagnasöfnunar sem styðja hver aðra. Í fyrsta lagi söfnun upplýsinga um grundvallar- eða lykilatriði sem fjallað er um í stefnumarkandi skjölum, skýrslum, greinum og á vefsíðum, á ensku eða íslensku.
Í öðru lagi vettvangsathuganir vegna úttektarinnar sem fóru fram í apríl 2016. Undir þær féllu 27 rýnihópar með 222 þátttakendum, 11 heimsóknir í skóla og níu viðtöl við háttsetta stjórnendur sem taka ákvarðanir á sveitarstjórnarstigi eða á landsvísu.
Í þriðja lagi netkönnun sem skilaði 934 svörum í fjórum mismunandi könnunum en hver könnun um sig var tiltæk bæði á ensku og íslensku. Greining úttektarhópsins á gögnunum leiddi í ljós að huga þyrfti sérstaklega að nokkrum tilteknum málefnum sem liggja til grundvallar meginþáttum stefnumótunar og framkvæmdar, og bent var á styrkleika sem talið var að nýta mætti í umbótaferli.
Hægt er að nálgast skýrsluna og lesa nánar um niðurstöðurnar.