Dönsku hjónin sem um ræðir bjuggu á þessum tíma á Suður-Jótlandi. Þau höfðu um árabil þráð að eignast barn en höfðu, eftir rannsóknir lækna, komist að því að það gætu þau ekki eftir venjulegum leiðum. Hjónin sóttu um að ættleiða barn en fengu neitun eftir að hafa fengið þann úrskurð sérfræðinga að sálarástand konunnar væri með þeim hætti að ekki væri hægt að heimila ættleiðingu.
Sá úrskurður, sem kom hjónunum mjög á óvart, þýddi að hinn lögformlegi farvegur ættleiðinga væri útilokaður. En hjónin gáfust ekki upp. Þau vissu, að sögn, nokkur dæmi þess að dönsk pör, þar á meðal sambýliskonur, hefðu tekið að sér pólsk börn. Börn sem mæðurnar hefðu beinlínis auglýst á netinu. Hjónin komust líka að því að þess væru dæmi að fólk sem vildi eignast börn, auglýsti á netinu. Þau ákváðu að reyna þessa leið.
Hittust á kaffihúsi
Auglýsing hjónanna bar fljótlega árangur. Pólsk kona, komin nokkra mánuði á leið, hafði samband við hjónin og lýsti sig fúsa til að láta barnið, þegar það yrði komið í heiminn, í þeirra hendur. Kvaðst ekki geta séð því farborða. Sem greiðslu fyrir barnið vildi konan fá 13.500 evrur (tæplega 1. 7 milljón íslenskar), því höfnuðu dönsku hjónin. Á endanum samdist um að móðirin fengi greiddar 750 evrur (rúmlega 91 þúsund íslenskar) fyrir barnið.
Umsamið var að þegar barnið yrði fætt kæmu dönsku hjónin til Póllands og tækju við barninu og móðirin fengi greiðsluna en hluta hennar hafði hún reyndar þegar fengið. Þegar barnið, sem er drengur, var komið í heiminn fóru dönsku hjónin til Póllands og hittu mæðginin á kaffihúsi á stórri lestarstöð í Póllandi. Snáðinn var þá einungis tveggja daga gamall. Eftir nokkra stund á kaffihúsinu hélt móðirin heimleiðis en dönsku hjónin óku með drenginn til baka heim til Tønder.
Hollenskt fæðingarvottorð
Nokkrum dögum eftir heimkomuna fóru hjónin með drenginn til Hollands en þar átti maðurinn ættingja. Hollensk yfirvöld gáfu út fæðingarvottorð fyrir drenginn, hjónin sögðu að hann hefði fæðst á meðan þau voru í heimsókn hjá ættingjum mannsins. Þau sneru síðan aftur heim til Tønder framvísuðu þar hollenska fæðingarvottorðinu og drengurinn fékk danska kennitölu.
Dönsk yfirvöld fengu fljótlega vitneskju um málið
Nokkrum vikum eftir að hjónin komu heim með barnið barst dönskum yfirvöldum tilkynning frá Evrópulögreglunni, Europol. Pólska lögreglan hafði þá komist á snoðir um málið og við yfirheyrslur hafði móðir drengsins viðurkennt að hún hefði selt dönsku hjónunum drenginn. Hún hefði brugðið á þetta ráð sökum þess að hún hefði ekki séð fram á að geta framfleytt syninum.
Hjónin sögðu þetta einu leiðina
Eftir að dönsk yfirvöld fengu tilkynninguna frá Evrópulögreglunni voru hjónin kölluð til yfirheyrslu hjá lögreglunni í Tønder. Þar viðurkenndu þau að hafa borgað fyrir drenginn og að hafa sagt hollenskum yfirvöldum ósatt um fæðingu hans og ennfremur um skráninguna í Danmörku, eftir heimkomuna frá Hollandi. Skýringuna á þessu sögðu hjónin þá að þau hefðu þráð að eignast barn og þetta hefði verið eina leiðin til þess að láta þá ósk rætast.
Hvað segja pólsk lög?
Í Póllandi er ekki leyfilegt að foreldri láti, á eigin spýtur, frá sér barn til ættleiðingar gegn greiðslu. Lögin eru þó ekki skýr, ættleiðing gegn greiðslu fellur þar í sama flokk og nauðungarsala í barnaþrælkun og fleira því skylt. Barn sem látið er til ættleiðingar fellur ekki undir þessa skilgreiningu og mjög erfitt getur reynst að sýna fram á að greitt hafi verið fyrir barn í tengslum við ættleiðingu. Þessi óskýrleiki í pólskum lögum er alkunna og ein skýring þess að pólskar mæður auglýsi börn á netinu, þótt það hafi ekki verið með þeim hætti í tilviki dönsku hjónanna en þar voru það þau sem auglýstu.
Fyrir hvað á að refsa?
Eins og áður sagði eru þrjú ár síðan dönsk yfirvöld komust á snoðir um þetta mál. Í viðtali við dagblaðið Jótlandspóstinn sagði saksóknari að ástæður þess að þetta mál hefði dregist svona lengi væru nokkrar og að ekkert fordæmi væri fyrir máli sem þessu í Danmörku. Og fyrir hvað átti að refsa, spurði saksóknari sem sagði að fyrst hefðu sjónir ákæruvaldsins beinst að lögum um mansal.
Þarna var ekki um slíkt að ræða, því ekki var þetta nauðungarsala, frelsissvipting eða misnotkun af nokkru tagi. Ekki var heldur hægt að flokka málið undir barnsrán því móðirin hafði samþykkt að láta barnið af hendi. „Það var alveg sama hvaða lagabálka við skoðuðum, engir þeirra náðu til tilvika sem þessara,“ sagði saksóknari.
Tuttugu daga skilorðsbundið fangelsi
Dómur í máli dönsku hjónanna, sem í millitíðinni eru flutt til Norður-Jótlands, féll fyrir nokkrum dögum. Þar voru þau dæmd í tuttugu daga skilorðsbundið fangelsi og fjörutíu daga samfélagsþjónustu. Saksóknari hafði krafist þess að hjónin yrðu dæmd fyrir brot á ættleiðingarlögum, dómari hafnaði því en dæmdi þau fyrir að hafa veitt rangar upplýsingar um barnið.
Snáðinn þrífst vel
Síðan dönsk yfirvöld fengu árið 2014 upplýsingarnar frá Europol hafa þau fylgst með hjónunum og drengnum. Skemmst er frá því að segja að drengurinn þrífst og dafnar vel. Hann er og hefur allan tímann verið hjá dönsku „foreldrunum“ og ekki útlit fyrir að þar verði breyting á.