Að hafa góðan kennara er eitt mesta lán í lífinu, bæði vegna þess að margir dvelja lungann úr ævinni á skólabekk og skiptir miklu máli að upplifunin sé góð og einnig geta kennarar haft mótandi áhrif á nemendur sína. Fréttir þess efnis að kennarar hrekist úr starfi vegna lélegra launa og álags í starfi hafa birst af og til í fjölmiðlum en ástandið virðist ekki batna þrátt fyrir það.
Kennarar í Fellaskóla í Reykjavík sendu frá sér ályktun í lok nóvember en í henni segir að nú þegar kjarasamningar grunnskólakennara eru lausir vilji kennarar skólans koma því á framfæri að kennaraskortur sé orðinn viðvarandi vandi í skólum Reykjavíkur og hópur leiðbeinenda fari stækkandi. „Það kemur óneitanlega niður á gæðum alls skólastarfs og hefur í för með sér aukið álag á þá kennara sem starfa við skólana,“ segir í ályktuninni.
Sjúkrasjóður tæmist hratt
Jafnframt segja þau að aukin veikindi kennara sé fórnarkostnaður mikils álags. Það sýni meðal annars staða sjúkrasjóðs Kennarasambandsins. Þar er vísað í frétt sem birtist í Morgunblaðinu fyrir stuttu þess efnis að gríðarleg aukning langtímaveikinda meðal kennara síðustu tvö ár hafi valdið því að Kennarasambandið hefur neyðst til að stytta tímann sem félagar í sambandinu eiga rétt á greiddum sjúkradagpeningum um fjórðung. Haft er eftir Kristínu Stefánsdóttur, formanni stjórnar sjúkrasjóðs sambandsins, að ef ekki hefði verið gripið til þessara skerðinga hefði sjóðurinn tæmst á einu ári.
Bent er á í ályktuninni að samkvæmt niðurstöðum bókunar 1 í kjarasamningi hafi verkefnum verið bætt á kennara, sem sagt nýju námsmati og innleiðingu á rafrænu skráningarkerfi. Allt sé þetta mjög tímafrekt og bætist við þann tíma sem kennari hefur til daglegs undirbúnings kennslu. Þá sé starfslýsing kennara óljós að ýmsu leyti og virðist endalaust hægt að koma á þá verkefnum sem skila sér ekki alltaf til nemenda.
Stjórnvöld hafa ekki hugað nægilega vel að dvínandi aðsókn
Ríkisendurskoðun hefur varað við og bent á vandann en í skýrslu á vegum stofnunarinnar sem kom út í í lok febrúar á þessu ári segir að minnkandi aðsókn í kennaranám við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sé alvarleg vísbending um yfirvofandi kennaraskort hér á landi. Á tímabilinu 2009 til 2016 fækkaði skráðum nýnemum í kennaranám þessara háskóla úr 440 í 214 og í heild fækkaði skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna úr 1.925 í 1.249.
Jafnframt kemur fram að þetta skýri að stórum hluta mikla fækkun útgefinna leyfisbréfa til leik-, grunn- og framhaldsskólakennara á undanförnum árum. „Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í kennarastéttinni,“ segir í skýrslunni. Að mati Ríkisendurskoðunar hafa stjórnvöld ekki hugað nægilega vel að dvínandi aðsókn í kennaranám og aðsteðjandi hættu á kennaraskorti.
Ríkisendurskoðun hvetur stjórnvöld til að grípa til aðgerða til að sporna við þessari þróun. Auk kennaraskorts geti fækkun kennaranema haft í för með sér minni möguleika á sérhæfingu í kennaranámi og þar með einsleitari menntun þeirra. Það geti aftur á móti leitt til minni gæða í skólastarfi og haft slæm áhrif á námsárangur barna og unglinga.
Ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara
Frá árinu 2009, þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri. Segir í fyrrnefndri skýrslu að nú sé svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni. Kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru einnig hvattar til leita leiða til að laða nýnema í kennaranám og til þess að auka skilvirkni í kennaranámi.
Talið er að um 60 prósent menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara séu við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það bendir til að kennaraskortur verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur sé einnig mikilvægt að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar.
Tími til aðgerða
Kennarar í Fellaskóla eru sammála um að til að hægt sé að uppfylla kröfur um skóla án aðgreiningar þurfi stóraukið fjármagn, sérfræðiþekkingu og reynslu. Framkvæmdin eins og hún er núna sé enn einn álagsþátturinn í starfi grunnskólakennara. Þau segjast binda miklar vonir við komandi kjarasamning og að krafan sé einföld. Í fyrsta lagi vilja þau sambærileg laun á við aðra sérfræðinga með sama menntunarstig, í öðru lagi minna álag í starfi og í þriðja lagi bætt starfsumhverfi.
„Nú er tími aðgerða. Kennaraskorturinn er raunveruleiki sem bitnar á skólastarfi framtíðarinnar og við spyrjum: Er það sú framtíð sem við viljum búa komandi kynslóðum? Við trúum því að sveitarfélögin vilji sjá framsækna skóla sem veita öllum nemendum jöfn tækifæri,“ segja kennarar í Fellaskóla.