Stjórnvöld í Norður-Kóreu segja nýjustu efnahagsþvinganir gegn landinu, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt, jafngilda „stríðsyfirlýsingu“ gegn landinu. Aðgerðirnar koma meðal annars nær alveg í veg fyrir að landið geti flutt inn eldsneyti. Þetta hefur lamandi áhrif á efnahagslíf landsins.
Í yfirlýsingu stjórnvalda í Norður-Kóreu segir að landið muni halda áfrm kjarnorkutilraunum sínum, enda sé markmið þeirra að styrkja varnarkerfi landsins með þeim eina mögulega hætti sem það getur, sem sé að búa yfir langdrægum flaugum og kjarnorkuvopnum. Ógnin frá Bandaríkjunum sé það sem Norður-Kórea sé að verja sig fyrir.
RT @USUN: The Security Council unanimously passed a US resolution further condemning North Korea by restricting oil, critical imports, and all remaining major exports— continuing to isolate Kim Jong Un and his rogue regime from the rest of the world. #15-0 pic.twitter.com/zcMFskKNWj
— Nikki Haley (@nikkihaley) December 22, 2017
Spennan á Kóreuskaga hefur magnast mikið að undanförnu, og eru heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna á svæðinu við landamærin, viðvarandi. Þá hafa stjórnvöld í Japan krafist þess að alþjóðasamfélagið beiti Norður-Kóreu hörðustu mögulegu þvingunum.
Kína og Rússland, helstu bandamenn Norður-Kóreu í gegnum tíðina, hafa stutt aðgerðir Sameinuðu þjóðanna og því munu aðgerðirnar nú auka enn á einangrun landsins.
Öryggisráðið samþykkti aðgerðirnar einróma með öllum 15 atkvæðum aðildarríkjanna í ráðinu.
Íbúar í Norður-Kóreu eru 25,3 milljónir en í Suður-Kóreu tæplega 52 milljónir.