Úr einkasafni

„Ekki gert ráð fyrir því að ungir foreldrar eigi veik börn“

Þegar dóttir Tinnu Sifjar Guðmundsdóttur greindist með bráðahvítblæði síðastliðið sumar þurfti hún að taka ákvörðun um það hvort hún héldi áfram í námi eða ekki. Ástæðan er sú að Tryggingastofnun greiðir ekki foreldrum í námi greiðslur fyrir umönnun langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Tinna Sif Guð­munds­dóttir er 24 ára gam­all laga­nemi við Háskól­ann í Reykja­vík sem varð fyrir því áfalli síð­ast­liðið sumar að fjög­urra ára dóttir henn­ar, Car­itas Rós, veikt­ist og greind­ist með bráða­hvít­blæði. Tinna varð að hætta eftir ein­ungis tvær vikur í sum­ar­vinnu sinni.

Hún seg­ist hafa verið í miklu losti fyrst um sinn. Fjöl­skyldan hafi verið þá nýbúin að fá íbúð úthlutað hjá Bygg­inga­fé­lagi náms­manna en sam­kvæmt reglum hjá þeim þarf nem­andi að vera skráður í 75 pró­sent nám til að halda íbúð­inni. Í þessu til­felli hafi félagið þó gert und­an­þágu um 50 pró­sent nám.

Kerfið mein­gallað

Tinna segir að eftir að Car­itas greind­ist hafi hún áttað sig á því að kerfið á Íslandi sé mein­gallað og mis­muni fólki eftir því hvað það ger­ir. Hún á ekki rétt á for­eldragreiðslum frá Trygg­inga­stofnun þar sem hún vill ekki leggja nám sitt á hill­una þrátt fyrir veik­indi Caritasar.

„Ég taldi mig full­færa um að halda áfram og mér gekk ótrú­lega vel. Hvernig má það vera að ég, sem er for­eldri í námi þegar barnið mitt veik­ist og ákveð að halda áfram í fjar­námi, þrátt fyrir veik­indi barns­ins míns, eigi minni rétt en það for­eldri sem er úti á vinnu­mark­aðnum og þarf að hætta í sinni vinn­u?“ spyr hún. „Og hvernig stendur á því að þegar maður er að ganga í gegnum þetta hrylli­lega sorg­ar­ferli, að barnið grein­ist með bráða­hvít­blæði, þurfi maður einn og óstuddur að leita réttar síns?“

Hún bendir á að til við­bótar við veik­indin og fjár­hags­erf­ið­leik­ana verði fólk að kanna rétt sinn, fylla út papp­íra og hringja hingað og þang­að. Síðan taki það ein­hverjar vikur að fá úr því skorið hvort það eigi rétt á greiðslum eða ekki.

For­eldri í vinnu getur minnkað við sig starfs­hlut­fall

Í svari Trygg­inga­stofn­unar við fyr­ir­spurn Kjarn­ans vegna máls­ins segir að til­högun for­eldragreiðslna sé skýr í lög­um. Í þeim segir að mark­mið þeirra sé að tryggja for­eldrum lang­veikra eða alvar­lega fatl­aðra barna fjár­hags­að­stoð þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna sér­stakrar umönn­unar barna sinna, þar á meðal vegna þeirra bráða­að­stæðna sem upp koma þegar börn þeirra grein­ast með alvar­lega og lang­vinna sjúk­dóma eða alvar­lega fötl­un, enda verður vist­un­ar­þjón­ustu á vegum opin­berra aðila ekki við kom­ið.

Eina und­an­þágan frá þessu er ef for­eldri á rétt á tekju­tengdum greiðsl­um, þ.e. hefur verið á inn­lendum vinnu­mark­aði í sam­fellt 6 mán­uði áður en barnið grein­ist með alvar­legan sjúk­dóm eða fötl­un. Þá getur for­eldrið minnkað við sig starfs­hlut­fall sam­hliða því að fá hlut­falls­greiðslur á móti. Hámarks réttur til tekju­tengdra greiðslna er 6 mán­uðir en hægt er að dreifa þeim rétti, þ.e. ef for­eldri minnkar við sig vinnu úr 100 pró­sent starfi niður í 50 pró­sent starf. Þá gæti verið réttur til að fá 50 pró­sent tekju­tengdar greiðslur í allt að 12 mán­uði sam­hliða því að for­eldri sé í hluta­starfi.

Skil­yrði eru meðal ann­ars að for­eldrið hafi verið í námi í að minnsta kosti sex mán­uði á síð­ustu tólf mán­uðum áður en barnið greind­ist með alvar­legan og lang­vinnan sjúk­dóm eða alvar­lega fötlun sam­kvæmt vott­orði sér­fræð­ings þeirrar sér­hæfðu grein­ing­ar- og með­ferð­ar­stofn­unar sem veitir barn­inu þjón­ustu. Í öðru lagi að for­eldri geri hlé á námi í að minnsta kosti eina önn í við­kom­andi skóla til að ann­ast barnið sem þarfn­ast sér­stakrar umönn­unar for­eldris, svo sem vegna inn­lagnar á sjúkra­hús og/eða með­ferðar í heima­húsi, enda verði ekki annarri vist­un­ar­þjón­ustu á vegum opin­berra aðila við kom­ið. Í þriðja lagi að for­eldri hafi átt lög­heim­ili hér á landi síð­ustu tólf mán­uði áður en barn greind­ist með alvar­legan og lang­vinnan sjúk­dóm eða alvar­lega fötlun og for­eldri og barn eigi lög­heim­ili hér á landi þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.

Ég er jafn mikið með barninu mínu og í jafn miklu umönnunarstarfi og það foreldri sem þarf að hætta í vinnunni sinni.
Tinna Sif og fjölskylda
Úr einkasafni

Sam­kvæmt lög­unum má fólk sem sagt minnka starfs­hlut­fall sitt og fá for­eldra­styrk til að brúa bil­ið. Því er aftur á móti ekki heim­ilt að minnka ein­inga­fjölda með sama hætti eða vera í auka­vinnu.

Í sömu stöðu og aðrir for­eldrar

Tinna segir hún sé í sömu stöðu og aðrir for­eldr­ar. Hún þurfi að kaupa sömu lyf og það for­eldri sem ekki er í námi, hún þurfi að gista á spít­al­anum með til­heyr­andi mat­ar­kostn­aði og fara jafn margar ferðir á spít­al­ann með til­heyr­andi bens­ín­kostn­aði og stöðu­mæla­kostn­aði. „Ég er jafn mikið með barn­inu mínu og í jafn miklu umönn­un­ar­starfi og það for­eldri sem þarf að hætta í vinn­unni sinni. Eini mun­ur­inn er sá að ég er í fjar­námi sem ég sinni á kvöld­in, eftir vinnu hjá sam­býl­is­manni mínum og á dag­inn þegar Car­itas á góðan dag.“

Hún bendir á að hún þurfi að vera skráð í 22 ein­ingar til að eiga rétt á fram­færslu­láni frá Lín en það er 75 pró­sent nám. Hún segir að ekki sé gert ráð fyrir lyfja­kostn­aði í þeim greiðslum og til þess að reikn­ings­dæmið gangi upp þá hafi hún þurft að fara í 100 pró­sent nám.

Hún segir að hún hafi fengið for­eldragreiðslur fyrir einn og hálfan mánuð síð­ast­liðið sum­ar. En eftir að hún byrj­aði í nám­inu féllu þær niður og nú fær hún náms­lán fyrir þær ein­ingar sem hún tekur og umönn­un­ar­bæt­ur.

Eins og verið sé að refsa henni fyrir að vera dug­leg

„Ég hef sinnt barn­inu mínu heima allan sól­ar­hring­inn síð­ast­liðna 6 mán­uði. Hún hefur ekki farið einn dag á leik­skól­ann síðan hún veikt­ist en við höfum tvær verið heima á dag­inn eða uppi á spít­ala í lyfja­gjöfum og öðru. Það að vera heima með veikt barn er ekki það sama og að vera heima með heil­brigt barn, oft getur hún ekki gengið fyrir verkjum og stundum líður henni svo illa að hún vill bara liggja upp í rúmi eða sófa og halda í hönd­ina á mér,“ segir Tinna og bætir við að sem betur fer séu þær Car­itas heppn­ar, hún eigi frá­bæran upp­eld­is­föð­ur, ömmur og afa sem hafa staðið við bakið á þeim eins og klettar og gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að aðstoða þau. Ekki séu allir ungir for­eldrar með veik börn svo heppn­ir.

Tinnu seg­ist líða eins og verið sé að refsa henni fyrir það að vera dug­leg og elju­söm. „Líf mitt sem ein­stak­lings á að fara á algert „hold“ á meðan barnið mitt er las­ið. Það við­mót sem ég mætti alls staðar þegar ég var að kanna rétt minn var „þú getur ekki verið í námi með veikt barn.“ Eru þetta í alvör­unni skila­boðin sem við viljum senda til for­eldra veikra barna? “ spyr hún.

Það viðmót sem ég mætti alls staðar þegar ég var að kanna rétt minn var „þú getur ekki verið í námi með veikt barn“.

Hún gerir sér grein fyrir stöðu sinni og seg­ist vera heppin að vera með svo gott bak­land eins og raun ber vitni en það sé ekki þar með sagt að sá næsti sem á eftir henni kemur sé eins hepp­inn. „Hefði ég ekki verið svo heppin hefði ég ekki getað haldið námi mínu áfram á meðan veik­indum barns­ins míns stend­ur. Hér þarf aug­ljós­lega að verða breyt­ing á,“ segir hún.

Tinna upp­lifði við­mótið þannig að hún hrein­lega mætti ekki verið í námi með veikt barn, þ.e. að ekki væri ætl­ast til þess að hún stund­aði nokk­urt nám á meðan hún væri að hugsa um stelpuna sína. Tinna segir að auð­vitað sé mikil vinna að sinna Caritas, enda sé hún ekki í dag­vistun en þrátt fyrir það fynd­ist henni mik­il­vægt að halda áfram í sínu námi.

Barnið gengur fyrir

Kenn­ar­arnir hafa tekið til­lit til aðstæðna henn­ar, að sögn Tinnu, og skil­aði hún inn vott­orði svo hún gæti til að mynda fengið að færa til próf­daga. Hún segir að einnig hafi vinnu­veit­andi kærasta hennar verið mjög til­lits­sam­ur. Hún seg­ist hafa fengið mik­inn stuðn­ing frá sínum nán­ustu og að margir hafi einnig reynst þeim vel á spít­al­an­um. Vegg­ur­inn sem hún hafi rek­ist á væri sá að hún mætti ekki stunda neitt nám á meðan hún sinnti dóttur sinni um leið.

Tinna tekur það sér­stak­lega fram að auð­vitað gangi Car­itas fyrir og hennar veik­indi. Hún treystir sér aftur á móti til að sinna námi með fram því að hugsa um dóttur sína. Hún hafi unnið verk­efni með hana í fang­inu eða þegar hún leikur eða dundar sér.

Hún gagn­rýnir fyr­ir­komu­lagið og veltir fyrir sér öðrum kostn­aði á borð við lyfja­kostnað og lang­dvöl á spít­al­an­um. Tinna seg­ist ekki mæta í skól­ann og stundar hún fjar­nám þess í stað. Hún segir að skyldur hennar gagn­vart dóttur sinni væru nákvæm­lega þær sömu þrátt fyrir að hún væri ekki í námi.

Gef­andi að stunda nám

„Veit ekki hvar ég væri stödd and­lega séð ef ég hefði ekki eitt­hvað fyrir stafn­i,“ segir hún og bætir við að það gefi henni mikið að stunda námið þrátt fyrir þessar erf­iðu aðstæð­ur. Það hafi gengið vonum framar og þess vegna telur hún að lífið þurfi ekki að stoppa með þessum hætti. Henni finn­ist mik­il­vægt að halda áfram í námi, enda gangi henni vel að sam­þætta þessi tvö hlut­verk, náms­manns og móð­ur. Henni hefði fund­ist gríð­ar­lega erfitt að hætta námi á þessum tíma­punkti.

Tinna hefur vegna aðstæðna sinna þurft að treysta á kærast­ann sem er í vinnu. Hún segir að ekki sé efi í hennar huga að hún hefði þurft að hætta í námi ef hún hefði ekki þennan stuðn­ing maka. Það finnst henni ósann­gjart og ótækt. „Ekki eru allir með jafn gott bak­land og ég og þess vegna þarf að breyta þessu.“

Veit ekki hvar ég væri stödd andlega séð ef ég hefði ekki eitthvað fyrir stafni.
Caritas Rós
Úr einkasafni

Góð við­brögð frá SKB

Tinna hafði sam­band við SKB – Styrkt­ar­fé­lag krabba­meins­sjúkra barna – og seg­ist hún hafa fengið góð við­brögð það­an.

Félagið sam­þykkti ályktun þann 9. jan­úar síð­ast­lið­inn þar sem stjórn þess tekur undir áskorun Umhyggju frá 3. jan­úar síð­ast­liðnum þar sem Umhyggja skorar á yfir­völd að leið­rétta taf­ar­laust þá mis­munun sem á sér stað gagn­vart þeim sem fá for­eldragreiðslur ann­ars vegar og hins vegar þeim sem fá grunn­greiðslur sam­kvæmt lögum um greiðslur til for­eldra lang­veikra eða alvar­lega fatl­aðra barna. 

„Þeir sem fá for­eldragreiðslur geta verið í minnk­uðu starfs­hlut­falli sam­hliða greiðsl­unum og greitt af þeim í líf­eyr­is­sjóð og stétt­ar­fé­lag en hvor­ugt á við um grunn­greiðsl­ur, þ.e. ekki er hægt að fá þær sam­hliða minnk­uðu starfs­hlut­falli og ekki er heim­ilt að greiða af þeim í stétt­ar­fé­lag og líf­eyr­is­sjóð,“ segir í álykt­un­inn­i. 

SKB hvetur stjórn­völd til að leið­rétta stöðu náms­manna

SKB hvetur yfir­völd um leið til að leið­rétta stöðu náms­manna sem þurfa að sinna veikum börn­um. „Vilji þeir minnka náms­hlut­fall sitt fyr­ir­gera þeir rétti sínum til náms­lána en eiga ein­ungis rétt á greiðslum frá Trygg­inga­stofnun geri þeir algjört hlé á námi. Kost­irnir eru því tveir í stöð­unni. Annað hvort að fram­fleyta sér á náms­lánum og vera í fullu námi, sem er nán­ast óger­legt með alvar­lega veikt barn, eða fá greiðslur frá Trygg­inga­stofnun og hætta námi, sem er súrt í broti fyrir þann sem vill ekki missa niður þráð­inn og treystir sér til að sinna námi að hluta. t.d. í fjar­námi.

Þá vill SKB vekja athygli yfir­valda á stöðu þeirra for­eldra sem þurfa að vera frá vinnu vegna barna með óút­skýrð veik­indi. Það getur tekið langan tíma, stundum mán­uði eða ár, að greina orsakir veik­inda og á meðan grein­ing liggur ekki fyrir eiga for­eldrar ekki rétt á neinum greiðsl­um, jafn­vel þótt þeir verði fyrir tekju­missi vegna fjar­veru úr vinnu. Þarna er glufa í kerf­inu sem þyrfti svo sann­ar­lega að fylla upp í og bæta stöðu þeirra sem svona er ástatt um,“ segir enn fremur í ályktun SKB. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFólk