„Uppbygging kísilversins í Helguvík er dæmi um gríðarlega seiglu þeirra sem að stóðu. Með því að neita að gefast upp, finna lausnir á erfiðum tímum, hefur loks markmiðinu verið náð. Orkusamningar eru frágengnir, fjármögnun er tilbúin og byggingarframkvæmdir sem skapa hundruðum manna atvinnu eru að hefjast. Í kjölfarið hefst síðan framleiðsla þar sem á þriðja hundrað manns munu hafa vel launuð störf.“
Svona hófst grein sem Árni Sigfússon, fyrrverandi bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifaði í staðarblaðið Víkurfréttir 31. ágúst 2014. Tilefnið var að nokkrum dögum áður hafði verið tekin skóflustunga að kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þremur árum síðar var rekstur verksmiðjunnar stöðvaður og á mánudag var United Silicon gefið upp til gjaldþrotaskipta.
Stóðu með Magnúsi á erfiðum tímum
Árni hélt áfram og sagði það hafa verið „ákvörðun okkar sem stýrðum bæjarfélaginu að standa með upphafsmönnum verkefnisins, Magnúsi Garðarssyni og félögum, í gegnum ýmsa erfiðleika. Þar fór maður sem leitaði lausna þegar erlend fyrirtæki heltust ítrekað úr lestinni, fann nýja samstarfsaðila og hélt áfram. Það var úrslitaatriði að við stjórnendur bæjarins gæfum honum það svigrúm sem hann þurfti þegar allt virtist vera að slitna, til að ná endum saman, standa með honum á erfiðum tímum. Seigla og þolinmæði beggja aðila hefur nú skilað árangri.“
Í viðtali við Víkurfréttir sagði hún: „Það er búið að undirbúa þetta svæði vel af hálfu bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ, og það er á engan hallað þegar ég vil nefna Árna Sigfússon sérstaklega í því efni.“
Fjárfestingasamningur um skattaafslætti
Nokkrum mánuðum áður, í apríl 2014, hafði Ragnheiður Elín gert fjárfestingarsamning við United Silicon sem í fólst m.a. að félagið þurfti einungis að greiða 15 prósent tekjuskatt og fékk 50 prósent afslátt af almennu tryggingagjaldi í tíu ár frá því að gjaldskylda myndi myndast en að hámarki í 13 ár frá því samningurinn tæki gildi. Að auki veitti Reykjanesbær verkefninu ákveðnar ívilnanir til jafn langs tíma. Á árunum 2015 og 2016 fékk United Silicon um 30 milljónir króna í ríkisaðstoð á grundvelli samningsins.
Þremur árum eftir að skóflustungan var tekin var United Silicon komið í greiðslustöðvun. Tæpt ár var þá frá því að kveikt var á verksmiðjunni. Þann 1. september 2017 var starfsemi hennar stöðvuð. Og á mánudag, þremur árum og tæpum fimm mánuðum eftir skóflustunguna, og rétt rúmu ári eftir að verksmiðja United Silicon var gagnsett, var félagið gefið upp til gjaldþrotaskipta.
Nú standa þau yfirgefin hlið við hlið í Helguvík, álverið sem aldrei varð og gjaldþrota verksmiðjan sem mengandi svo mikið að hún fékk ekki að starfa. Og hvorugt verkefnið er að skapa störf né tekjur fyrir samfélagið.
Skuldaklafa hlaðið á Reykjanesbæ
Það eru ansi margir sem sitja eftir með sárt ennið vegna United Silicon verkefnisins. Þar ber fyrst að nefna Reykjanesbæ. en United Silicon skuldar sveitarfélaginu um 200 milljónir króna í ógreidd gjöld. Auk þess gekkst það í ábyrgð fyrir milljarða króna uppbyggingu hafnar í Helguvík sem átti að þjónusta stóriðju.
Sú áætlun fór ekki alveg eins og upp var lagt. Ekkert varð af álveri Norðuráls á svæðinu, United Silicon náði ekki að starfa í eitt ár. Þriðja verkefnið, kísilmálmverksmiðja Thorsil, mun í fyrsta lagi hefja framleiðslu árið 2020. Höfnin, sem Reykjanesbær gekkst í ábyrgð upp á marga milljarða króna fyrir, hefur því aldrei skilað þeim tekjum sem hún átti að gera og hvorki Reykjaneshöfn né Reykjanesbær hafa ráðið við afborganir af lánum vegna hennar.
Þess í stað endaði Reykjanesbær sem eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins og rekstur árum saman var afleitur. Á tímabilinu 2003 til 2014, á meðan að Árni Sigfússon var bæjarstjóri, var A-hluti Reykjanesbæjar rekinn í tapi öll árin utan eins, það var árið 2010.
Vegna þessarar stöðu þurfti sveitarfélagið að leggja auknar skattbyrðar á íbúa sína til að laga hina afleitu fjárhagsstöðu. Og stór hluti þeirra skulda sem þurfti að semja um voru vegna lána sem tekin voru vegna uppbyggingu hafnarinnar í Helguvík.
Fyrir utan þær fjárhagslegu byrðar sem lagðar hafa verið á íbúa Reykjanesbæjar þá voru lífsgæði þeirra verulega skert á þeim skamma tíma sem verksmiðja United Silicon var starfrækt. Íbúarnir kvörtuðu nær linnulítið undan mengu, enda verksmiðjan staðsett mjög nálægt byggð, auk þess sem það kviknaði í verksmiðjunni.
Banki að hluta í eigu ríkis og lífeyrissjóðir tapa milljörðum
Hluthafar og kröfuhafar United Silicon hafa líka tapað miklu. Þeir hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna verksmiðjunnar. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins. Bankinn tók að mestu yfir hlutafé en útistandandi skuldbindingar nema ennþá 5,4 milljörðum, samkvæmt síðasta birta uppgjöri bankans. Arion banki ábyrgðist auk þess reksturinn á greiðslustöðvunartímanum en hann hefur borgað um 200 milljónir króna á mánuði vegna hans, frá því greiðslustöðvunartíminn hófst í ágúst og þar til að United Silicon var sett í þrot á mánudag. Íslenska ríkið á þrettán prósent hlut í Arion banka.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.
Fréttaskýringin birtist fyrst í Mannlífi sem kom út 26. janúar.