Á árinu 2017 voru aðfluttir erlendir ríkisborgarar sem fluttu til Íslands 7.910 fleiri en brottfluttir. Alls fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um 25 prósent á síðasta ári. Þeim hefur fjölgað um 81 prósent frá byrjun árs 2011 og eru nú 37.950 talsins. Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti í morgun.
Landsmönnum fjölgaði um 10.130 á árinu 2017 og eru nú 348.580. Það þýðir að 78 prósent þeirrar fjölgunar er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins.
Sprenging í fyrra
Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu á Íslandi 20.957 talsins. Þeim hafði fækkað árin á undan í ljósi þess að hrunið hafði skilið eftir sig atvinnuleysi sem slagaði upp í tveggja stafa tölu, verðbólgu sem fór hæst upp í um 18 prósent og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar.
Síðan þá hefur þeim fjölgað ár frá ári, en þó aldrei jafn mikið og í fyrra. Á árinu 2017 einu saman fjölgaði erlendum ríkisborgurum meira en á þeim fjórum árum sem á undan komu til samans. Frá byrjun árs 2014 og til byrjun árs 2017 fjölgaði erlendum ríkisborgurum um 7.690 talsins, eða um 220 færri en fjölgunin nam á síðasta ári.
Í byrjun árs 2017 voru erlendir ríkisborgarar 30.380. Eru nú 37.950. Á árinu 2017 fjölgaði þeim því, líkt og áður sagði, um 25 prósent. Erlendir ríkisborgarar eru nú 10,9 prósent allra sem búa hérlendis.
Alls fluttu 11.650 erlendir ríkisborgarar til Íslands í fyrra, en 3.740 slíkir fluttu frá landinu. Það þýðir að 7.910 fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu til landsins en frá því á árinu 2017.
Á sama tíma fluttu 360 fleiri íslenskir ríkisborgarar til þess umfram þá sem fluttu í burtu. Það er fyrsta árið frá því fyrir hrun sem fleiri Íslendingar flytja heim en í burtu frá landinu.
Fjölgun umfram spár
Í mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, sem birt var síðla árs 2017, er því spáð, samkvæmt miðspá, að alls muni aðfluttum íbúum á Íslandi umfram brottflutta fjölga um 23.385 frá byrjun árs 2017 og til loka árs 2021. Samkvæmt háspá yrði sá fjöldi 33.734. Þeir eru nær einvörðungu erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum sem hér búa ætti því að fjölga um 77-111 prósent á fimm ára tímabili.
Spáin vanáætlar samt sem áður fjölgun útlendinga á síðasta ári. Í miðspá hennar var gert ráð fyrir að aðfluttir umfram brottflutta yrðu 5.119 á árinu 2017. Þeir voru hins vegar 7.910, eða 55 prósent fleiri en spáin gerði ráð fyrir.
Ástæða þess að útlendingum hérlendis fjölgar svona mikið er auðvitað efnahagsuppsveiflan. Á Íslandi verða til mörg þúsund störf á ári í tengslum við ferðaþjónustu, byggingavinnu og aðra afleidda þjónustu. Flest störfin eru láglaunastörf og ekki er til vinnuafl hérlendis til að anna eftirspurn eftir starfsfólki. Þess vegna flykkist erlent vinnuafl hingað til að vinna þessi störf.