Þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu endurgreiðslur vegna aksturs fengu samtals 25,8 milljónir króna greiddar frá ríkinu í fyrra. Samtals voru greiddar 29,2 milljónir króna vegna ársins í heild. Það þýðir að tíu efstu fengu 88 prósent af öllum endurgreiðslum.
Sá sem fékk hæstu endurgreiðsluna, Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk 4,6 milljónir króna endurgreiddar. Endurgreiddur kostnaður Ásmundar er því tæplega 16 prósent af öllum endurgreiddum kostnaði. Ásmundur er 1,6 prósent þingmanna.
Þeir fjórir þingmenn sem fá hæstu endurgreiðslurnar þiggja samtals 14 milljónir króna árlega vegna þeirra. Það þýðir að þeir fá tæplega helming allra endurgreiðslna vegna aksturs.
Kostnaður dregist saman um 30 milljónir
Endurgreiðslur til þingmanna vegna aksturs hafa dregist mikið saman undanfarin ár eftir að þeim tilmælum var beint til landsbyggðarþingmanna að nota frekar bílaleigubíla og flugleiðir til að komast á milli staða. Skrifstofa Alþingis hefur gert samninga við bílaleigufyrirtæki sem eru að finna í rammasamningi Ríkiskaupa, um afslætti af gjaldskrá bílaleigubíla til að ná niður þessum kostnaði enn frekar.
Fastur og breytilegur kostnaður
Aksturgjald er greitt samkvæmt akstursdagbók þar sem þingmenn halda utan um allan akstur á sínum eigin bifreiðum. Ferðakostnaðarnefnd, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, ákveður aksturgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Gjaldið skiptist í almennt gjald, sérstakt gjald og svokallað torfærugjald. Almenna gjaldið á við akstur á malbikuðum vegum innanbæjar og utan, sérstaka gjaldið á við akstur á malarvegum utanbæjar og torfærugjaldið miðast við akstur við sérstaklega erfiðar aðstæður, gjarnan utan vega og einungis jeppafært.
Grunnur akstursgjaldsins skiptist í fastan kostnað og breytilegan kostnað. Í föstum kostnaði voru afskriftir, skoðunargjald, bifreiðagjald, ábyrgðartrygging og húftrygging, en í breytilegum kostnaði bensín, smurning, olía, hjólbarðar, varahlutir og viðgerðir.
Greiðslurnar eru undanþegnar skatti.
Fjölmiðlum gengið illa að fá svör
Fjölmiðlar hafa árum saman reynt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn fái endurgreiðslu vegna aksturs, en án árangurs. Kjarninn fjallaði til að mynda um málið í fréttaskýringu árið 2015 þar sem fram kom að alls 28 þingmenn hefðu fengið endurgreiðslu á árinu 2014, þar af 18 yfir eina milljón króna. Ekki var hins vegar hægt að fá upplýsingar um hvaða þingmenn var að ræða. Þær upplýsingar þóttu þá sem nú of persónulegar.
Málið tók á sig aðra mynd á fimmtudag þegar forseti Alþingis svaraði fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Píratar, um aksturskostnað. Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gekkst hins vegar við því í samtali við RÚV á föstudagsmorgun að vera sá sem trónir á toppi listans. Hann fékk samtals 4,6 milljónir króna endurgreiddar í fyrra, eða 385 þúsund krónur á mánuði skattfrjálst. Greiðslurnar til Ásmundar voru um 16 prósent af heildarendurgreiðslum til þingmanna vegna aksturs.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvaða aðrir þingmenn eru á topp tíu listanum.