1. Okkur fjölgar hratt
Á Íslandi bjuggu 348.580 manns í lok árs 2017. Þeim hefur fjölgað um 26.690 á fimm árum. Þeir sem koma til Íslands á vegum starfsmannaleigna, og dvelja hér tímabundið við störf, eru ekki meðtaldir í þessum tölum. Talið er að um fimm þúsund manns hafi komið hingað til lands í fyrra á vegum starfsmannaleigna eða sem útsendir starfsmenn.
2. Íslandsmet sett í fyrra
Íbúum landsins hefur raunar aldrei fjölgað jafn mikið og á síðasta ári, þegar íbúum landsins fjölgaði um 10.130. Áður hafði mesta fjölgunin verið á árunum 2006 (7.781) og 2007 (7.787) á hátindi fyrirhruns góðærisins. Til að setja fjölgunina í samhengi þá fjölgaði landsmönnum samtals um 10.648 á árunum 2011-2014, eða fjórum árum.
3. Karlar eru fleiri en konur
Alls búa 177.680 karlar á Íslandi en 170.910 konur. Körlunum fjölgar mun hraðar en konunum. Í fyrra fjölgaði körlum á Íslandi til að mynda um 6.570 en konunum um 3.580. Frá byrjun árs 2010 hefur körlum sem búa hérlendis fjölgað um 17.810 en konum um 13.250.
4. Sprenging í fjölda útlendinga
Aðalástæða þess að landsmönnum fjölgaði jafn mikið og raun ber vitni í fyrra er sú að hingað til lands fluttu 7.910 fleiri útlendingar en frá því. Þeim fjölgaði samtals um 25 prósent á einu ári og erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi voru orðnir 37.950 um síðustu áramót. 78 prósent af þeirri fjölgun sem varð á Íslandi á árinu 2017 er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins. Erlendum ríkisborgurum hérlendis hefur fjölgað um 81 prósent frá byrjun árs 2011.
5. Útlendingar gætu orðið um 70 þúsund eftir örfá ár
Í mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, sem birt var síðla árs 2017, er því spáð, samkvæmt miðspá, að alls muni aðfluttum íbúum á Íslandi umfram brottflutta fjölga um 23.385 frá byrjun árs 2017 og til loka árs 2021. Samkvæmt háspá yrði sá fjöldi 33.734. Þeir eru nær einvörðungu erlendir ríkisborgarar. Erlendum ríkisborgurum sem hér búa ætti því að fjölga um 77-111 prósent á fimm ára tímabili.
6. Margir í Reykjanesbæ, fáir í Garðabæ
Flestir útlendinganna setjast að í Reykjavík. Þeir eru nú 12,4 prósent íbúa höfuðborgarinnar á meðan að útlendingar eru til að mynda fjögur prósent íbúa í Garðabæ. Erlendum ríkisborgurum fjölgar þó hlutfallslega mest í Reykjanesbæ. Þar fjölgaði þeim um 41 prósent í fyrra og slíkir eru nú 22,3 prósent íbúa sveitarfélagsins. Spár gera ráð fyrir því að erlendir ríkisborgarar verði yfir 30 prósent íbúa á svæðinu á allra næstu árum.
Alls búa 220.590 manns á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum sem liggja upp að höfuðborginni. Það eru um 64 prósent íbúa landsins sem þýðir að næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum býr í þeim þéttbýliskjarna. Spár gera ráð fyrir að íbúum svæðisins muni fjölga um 70 þúsund fram til ársins 2040.
7. Eignumst miklu færri börn...að meðaltali
Þrátt fyrir að íbúum landsins fjölgi hraðar en oftast áður í Íslandssögunni þá hefur frjósemi íbúanna dregist nokkuð saman. Árið 1960, þegar hún náði hámarki, eignaðist hver kona að meðaltali 4,3 börn. Undanfarin ár hefur frjósemi hins vegar mælst rétt undir 2,0 á hverja konu. Minni frjósemi er beintengd hækkandi meðalaldri kvenna. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var meðalaldur mæðra sem eignuðust sitt fyrsta barn um 22 ár. Um miðjan níunda áratuginn var hann kominn upp í 23,3 ár og 2016 í heild 27,7 ár.
8. Flest börn fæddust á kreppuári
Síðastliðin þrjú ár hafa fæðst rétt rúmlega fjögur þúsund börn á ári hverju á Íslandi. Flestir Íslendingar eru fæddir árið 2009, á hápunkti efnahagskreppu. Það ár fæddust 5.026 börn og er það í eina skiptið í Íslandssögunni sem að yfir fimm þúsund Íslendingar hafa fæðst á einu ári. Næstflest börn fæddust árið 1960, þegar 4.916 slík komu í heiminn á Íslandi.
9. Eldra fólki fjölgar hratt
Þeim sem eru eldri en 67 ára hefur líka fjölgað mikið á skömmum tíma, enda Íslendingar sífellt að lifa lengur. Í lok síðasta árs voru þeir sem höfðu náð hefðbundnum eftirlaunaaldri 40.832. Miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir að þessi hópur telji 77.123 árið 2040 og 114.308 árið 2066. Til að setja þetta í annað samhengi þá voru 39 Íslendingar 100 ára eða eldri í lok árs 2017. Spáin gerir ráð fyrir því að 405 manns verði að minnsta kosti 100 ára árið 2066.
10. Milli 100 til 200 þúsund bætast við á hálfri öld
Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands munu Íslendingar verða 421.477 árið 2040 og 451.543 árið 2066. Það munu því rúmlega eitt hundrað þúsund manns bætast við hið minnsta á næstu tæpu 50 árum. Samkvæmt háspá verða Íslendingar þegar orðir 458.381 árið 2040 og heil 531.461 árið 2066.