Mikils titrings gætir í baklandi verkalýðshreyfingarinnar þessi misserin, og koma þar til nokkur atriði, svo til samtímis.
Í fyrsta lagi er það staða mála á vinnumarkaði og horfur varðandi kjarasamninga. Að mati miðstjórnar ASÍ eru forsendur kjarasamninga brostnar.
Í yfirlýsingu frá miðstjórninni segir að það sé mat ASÍ að óbreyttu „að forsendur um að launastefna kjarasamninganna hafi verið stefnumarkandi hafi ekki gengið eftir. Því er heimild til uppsagnar þeirra fyrir lok febrúar enn í gildi.“
Vegna þessarar stöðu hefur miðstjórn ASÍ ákveðið að boða til formannafundar aðildarfélaga sambandsins miðvikudaginn 28. febrúar þar sem farið verður yfir málið og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.
Valdabarátta
Innan ASÍ hefur verið einhugur um það, að til þess að skapa sátt á vinnumarkaði, þá þurfi að koma til „leiðréttingar“ á launum æðstu ráðamanna ríkisins sem falla undir ákvörðunarsvið kjararáðs. Að mati ASÍ hafa úrskurðir kjararáðs hleypt illu blóði í kjaraviðræður, og grafið undir forsendum kjarasamaninga.
Um þetta er einhugur innan stjórnar ASÍ, og má segja öll verkalýðshreyfingin sé sameinuð um þessa kröfu, að „elítan“ hjá ríkinu leiði ekki launahækkanir á markaðnum.
Á sama tíma er barist um valdaþræðina í verkalýðshreyfingunni á ýmsum vígstöðum, en framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur, starfsmanns á leikskólanum Nóaborg, til formanns stjórnar Eflingar, hefur valdið miklum titringi í baklandi verkalýðshryefingar, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
Sólveig Anna nýtur stuðnings Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, og má segja að það sé að myndast breiðfylking í grasrót verkalýðshreyfingarinnar um víðtækar kerfisbreytingar á stefnuskránni.
Allt frá stefnumálum í kjaraviðræðum - þar sem horft yrði meira til „fólksins á gólfinu“, eins og einn viðmælenda komst að orði - til fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur, í gegnum stéttarfélög og Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins, eru með fulltrúa í stjórnum lífeyrissjóða, en að mati þeirrar breiðfylkingar sem stendur að baki framboði Sólveigar Önnu - og má segja að sé í baklandi Ragnars Þórs - þá er þörf á því að skipta út fólki í stjórnum lífeyrissjóða til breytingar náist fram.
Hvaða breytingar eru þetta nákvæmlega?
Ekki eru allir sáttir við þessar væringar, og mátti heyra það á viðmælendum Kjarnans.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er sá maður sem Ragnar Þór hefur gagnrýnt einna harðast opinberlega. Ýmsir stuðningsmenn hann innan verkalýðshreyfingarinnar telja Ragnar Þór vera að spila „hættulegan leik“ með því að lýsa yfir stuðningi við Sólveigu Önnu og þannig blanda sér í valdabaráttu í öðru félagi, Eflingu, sem er með meira en 27 þúsund félagsmenn. Ekki sé víst að þetta kunni góðri lukku að stýra, þar sem mikilvægt sé að samstaða myndist innan verkalýðshreyfingarinnar.
Auk þess er kallað eftir því að það sé útskýrt nánar, hvernig eigi „nákvæmlega“ að breyta kerfinu í grundvallaratriðum, þar sem ASÍ hafi í gegnum tíðina lagt áherslu á að vernda hagsmuni launafólks með áherslu á að bæta kjör þeirra sem lægstu launin hafa.
Spennandi stjórnarkjör
Hjá VR er í uppsiglingu spennandi stjórnarkjör þar sem 27 einstaklingsframboð hafa komið fram, en kosið verður um sjö sæti og fjögur sæti í varastjórn. Í stjórn VR eru fjórtán stjórnarmenn í dag.
Félagsmenn í VR eru 34 þúsund talsins, en stjórnarkjörið gæti haft mikið um það að segja hvernig áherslur VR muni þróast á næstu misserum. Ef það fer svo að Ragnar Þór og hans fólk styrkir stöðu sína, þá er líklegt að grundvallarbreyting verði á verkalýðshreyfingunni.
Erfitt er að segja til um hvernig landið liggur, fyrir komandi átök. Ragnar Þór sigraði formannskosningu í VR í fyrr með yfirburðum. Kosningaþátttaka var þá aðeins 17,09%, sem þýðir að ríflega 5.700 af þeim tæplega 34 þúsund sem höfðu kosningarétt greiddu atkvæði.
Ragnar Þór hlaut 62,98 prósent atkvæða, eða 3.480 atkvæði alls. Ólafía B. Rafnsdóttir, sitjandi formaður VR á þeim tíma, hlaut 37% atkvæði, eða 2.046 atkvæði. 3,15% skiluðu auðu.
Ragnar Þór var kjörinn til tveggja ára, og því mun ekki fara fram önnur formannskosning fyrr en 2019, en það mun skipta miklu máli fyrir valdajafnvægið í stjórninni, hvernig kosningin í stjórnina í mars mun fara.