Undanfarið hefur umfjöllun um gettóin, vandræðahverfin, verið fyrirferðarmikil í dönskum fjölmiðlum. Ástæður þessarar umfjöllunar eru nokkrar. Þar má nefna átök glæpagengja sem hafa aðsetur á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, í kringum áðurnefndan Mjølnerpark og vaxandi ótta almennings sem sakar stjórnvöld og lögreglu um úrræðaleysi. Þetta tengist líka umræðum um málefni flóttafólks og hælisleitenda (það fólk býr ekki í gettóunum) og hefur beint athyglinni að málefnum og stöðu innflytjenda og afkomenda þeirra sem margir hverjir búa í vandræðahverfunum. Sumum þeirra innflytjenda sem komu til Danmerkur fyrir mörgum árum, jafnvel áratugum, hefur gengið illa að fóta sig í dönsku samfélagi. Vilja helst halda þeim siðum og venjum sem ríktu í gamla heimalandinu, t.d. varðandi klæðaburð, trúariðkun, verkaskiptingu á heimilum o.s.frv.
Einskonar hliðarsamfélag
Orðið gettó, sem notað er í mörgum tungumálum, er aldagamalt en uppruninn óljós. Eitt elsta dæmi um slíkt hverfi er frá 11. öld, í Prag. Árið 1462 varð til í Frankfurt í Þýskalandi hverfi gyðinga, og í Feneyjum varð til slíkt hverfi snemma á 16. öld. Fram til þess tíma hafði gyðingum ekki verið heimilt að búa í Feneyjum en árið 1516 fengu þeir heimild til að búa í sérstöku hverfi í borginni, með ströngum skilyrðum. Það hverfi var nefnt gettó. Fleiri dæmi mætti nefna, til dæmis að árið 1692 lagði lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn til að til yrði sérstakt gyðingahverfi í borginni en ekkert varð úr þeirri hugmynd. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar stofnuðu þýsku nasistarnir fjölmörg gyðinga-gettó, í löndum Austur-Evrópu.
Í dag er notkun orðsins ekki bundin við hverfi gyðinga, heldur er þar átt við einskonar hliðarsamfélag. Hverfi þar sem sem fólk af sama uppruna býr og mannlífið lýtur á ýmsan hátt öðrum lögmálum en annars gilda.
Dönsk gettó
Árið 1964 var orðið gettó í fyrsta sinn nefnt í Danmörku. Þá fjallaði dagblaðið Berlingske Tidende (nú Berlingske) um afmarkaða bæjarhluta á Austurbrú, Norðurbrú og Vesturbrú. Þessi hverfi áttu það sameiginlegt að þar bjó fólk sem flutt hafði til Danmerkur, í leit að betra lífi. Íbúðirnar í þessum bæjarhlutum voru litlar og íbúarnir áttu það sameiginlegt að hafa lítið handa á milli.
Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar fluttu margir útlendingar til Danmerkur, í atvinnuleit. Tyrkir voru fjölmennastir. Margir þeirra settust að í hverfum í nágrenni Kaupmannahafnar, einkum vestan við borgina. Orðið gettó var ekki notað um þessi hverfi. Á þeim tíma þótti heppilegt að innflytjendur byggju á sama svæði, röksemdin var sú að þannig myndu þeir hjálpa hver öðrum, meðan þeir væru að koma sér fyrir og kynnast aðstæðum. Afleiðingin varð hinsvegar sú að þarna mynduðust hverfakjarnar þar sem íbúarnir voru nánast allir af sama þjóðerni. Þeir héldu sínum siðum, umgengust nær enga aðra en landa sína og lærðu aldrei dönsku. Í fréttaskýringaþætti sem nýlega var sýndur í danska sjónvarpinu kom fram að mörg dæmi eru um fólk af erlendum uppruna sem getur ekki tjáð sig á dönsku, jafnvel ekki um einföldustu atriði. Í dag eru allir á einu máli um að það sé mjög óæskilegt að svo margt fólk af öðru en dönsku þjóðerni setjist að á sama svæðinu.
Mikil fjölgun innflytjenda
Á undanförnum áratugum hefur innflytjendum sem sest hafa að í Danmörku fjölgað mikið. Víða í Danmörku hafa orðið til hverfi þar sem hlutfall innflytjenda og afkomenda þeirra er mjög hátt. Þrátt fyrir talsverðar umræður um að óæskilegt væri að til yrðu einskonar „innflytjendahverfi“ fjölgaði slíkum hverfum frá ári til árs og smám saman festist orðið gettó í sessi. Í áramótaræðu sinni árið 2004 ræddi Anders Fogh Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra, um þessa óheillaþróun eins og hann komst að orði, sagði nauðsynlegt að grípa til ráðstafana, í Danmörku ættu allir að tilheyra sama samfélaginu. Þótt margir tækju undir þetta gerðist fátt.
Hvað er gettó?
Eftir bankahrunið 2008 jókst atvinnuleysi mikið í Danmörku. Það bitnaði ekki hvað síst á innflytjendum og afkomendum þeirra. Margt af því fólki stóð illa að vígi, hafði unnið láglaunastörf, margir með takmarkaða menntun, atvinnulausum fjölgaði mikið. Með tilheyrandi vandamálum.
Árið 2010 birti ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen áætlun um ýmis konar aðgerðir til að sporna við því sem ráðherrann kallaði „gettómyndun“. Fram til þess tíma hafði ekki verið til nein eiginleg skilgreining á því hvað gettó væri en stjórnin hafði nú látið vinna slíka greiningu. Þar voru tilgreind fimm atriði og ef þrjú þeirra, eða fleiri eiga við um viðkomandi hverfi flokkast það undir gettó:
- Meira en 40 prósent íbúa á aldrinum 18 til 64 ára eru án atvinnu eða stunda ekki nám.
- Hlutfall innflytjenda og afkomenda þeirra er meira en 50 prósent.
- 3 prósent 18 ára eða eldri hafa brotið lög um vopnaburð eða fíkniefna.
- 50 prósent íbúa á aldrinum 30 til 59 ára eru án lágmarksmenntunar.
- Laun fólks á aldrinum 15 til 64 ára, og ekki stundar nám, ná ekki 55 prósentum meðallauna samsvarandi hóps á sama atvinnusvæði.
Þetta er semsé sú skilgreining sem notuð hefur verið frá árinu 2010. Þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðgerðir breyttist fátt. Í dag eru hverfin sem flokkast undir gettó skilgreininguna talin vera 22, þau eru víða um land en þau stærstu í Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum.
Burt með gettóin
Margir hafa á undanförnum árum ítrekað bent á nauðsyn þess að grípa til róttækra aðgerða, hamla gegn því að í borgum og bæjum landsins verði til sérsamfélög fólks af ákveðnum uppruna. Fólks sem nýtur góðs af „kerfinu“ en vill að öðru leyti sjálft ráða sínum málum að flestu leyti. Gagnrýnisraddirnar verða sífellt fleiri og háværari. Þetta hefur ekki farið fram hjá stjórnmálamönnunum. Og nú vill ríkisstjórnin grípa til aðgerða. Róttækra aðgerða. Áætlun ríkisstjórnarinnar, sem átta ráðherrar kynntu í Mjølnerparken síðastliðinn fimmtudag, er í tuttugu og tveimur liðum. Nokkur atriði vekja þar mesta athygli. Lars Løkke hafði fyrir nokkrum vikum sagt að nauðsynlegt væri að breyta íbúasamsetningunni í gettóunum og í því skyni teldi hann jafnvel rétt að rífa sumar íbúðablokkir og breyta öðrum. Með því væri unnt að lækka hlutfall íbúða í opinberri eigu (þar sem innflytjendafjölskyldur búa gjarna). Fjárhagsaðstoð til þeirra sem hyggjast flytja í gettóhverfi verði lækkuð, í því skyni að gera eftirsóknarverðara að setja sig annars staðar niður. Þeir sem njóta styrks til nýaðfluttra (aðlögunarstyrkur) fái ekki að setjast að í gettóum, styrkurinn verði þá felldur niður.
Mörg fleiri atriði eru í áætlun stjórnarinnar en það sem lang mesta athygli og umræður hefur vakið er sú tillaga að strangari refsing, nánar tiltekið tvöföld refsing, liggi við brotum sem framin eru í gettóum (eða á svæðum sem lögreglan tilgreinir) en í öðrum hverfum eða bæjarhlutum. Það skiptir ekki máli hvar sá brotlegi er búsettur, heldur hvar hann fremur afbrotið. Þetta telja margir sérfræðingar sem fjölmiðlar hafa rætt við algjörlega útilokað að geti staðist, refsing geti ekki verið strangari vegna brots sem framið er t.d í Mjølnerparken en samskonar brots í Gentofte (sem ekki er gettó). Í viðtali við dagblaðið Berlingske lýsti Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra undrun sinni á því að þetta atriði skyldi vekja svo mikla athygli. Margir þingmenn hafa lýst stuðningi við fyrirætlanir stjórnarinnar en efast um þetta tiltekna atriði. Flestir virðast á einu máli um að nauðsynlegt sé að grípa til ráðstafana til að snúa við blaðinu. Allt sem reynt hafi verið til þessa hafi reynst gagnslítið en ef látið verði reka á reiðanum vaxi vandinn og verði að lokum óleysanlegur Gordionshnútur.