Búið er að leggja fram þingsályktunartillögu um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Flutningsmenn tillögunnar eru þingmenn Samfylkingar og Pírata. Tillagan var send inn til Alþingis seint í gær. Ekki liggur nákvæmlega fyrir á þessari stundu hvenær hún verður tekin fyrir en líklegast verður farið fram á að koma henni á dagskrá á fimmtudag. Í yfirlýsingu frá Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þingflokkformanni Pírata frá því í morgun segir að hefð sé fyrir því að vantrauststillögur séu teknar á dagskrá þingsins við fyrsta tækifæri.
Kjarninn greindi frá því í gær að stjórnarandstöðuflokkarnir fimm hefðu allir tekið þátt í umræðu um að leggja fram vantrauststillögu á Sigríði vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu svokallaða. Þingflokksformenn þeirra funduðu í gærmorgun þar sem málið var rætt. Til stóð að annar fundur færi fram í dag, þriðjudag, þar sem þingflokksformenn og formenn stjórnarandstöðuflokkanna til að taka ákvörðun um hvort og þá hvenær tillaga um vantraust yrði lögð fram. Ljóst er að þau áform hafa breyst og nú hafa þingmenn tveggja flokka lagt fram vantrauststillöguna. Komist tillagan ekki á dagskrá á fimmtudag er ljóst að bíða verður eftir afgreiðslu hennar í nokkurn tíma, þar sem nefndarvika er á Alþingi í næstu viku og engir þingfundir haldnir.
Tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja afsögn
Landsréttarmálið snýst um það að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum. Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu.
Í nýlegri könnun sem Maskína vann fyrir Stundina kom fram að 72,5 prósent landsmanna vilja að Sigríður segi af sér embætti. Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“ Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist hins vegar á þingi í gær að hún beri fullt traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni, þar á meðal Sigríðar.
Umboðsmaður gerði veigamiklar athugasemdir
Umboðsmaður Alþingis sendi bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á föstudag, sem var gert opinbert í gær. Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frumkvæðisrannsókn á málinu í ljósi yfirstandandi umfjöllunar dómstóla og Alþingis um málið. Hann gerði hins vegar nokkrar veigamiklar athugasemdir við málsmeðferðina, meðal annars þá að hann teldi að sá tveggja vikna frestur, sem ráðherra hefur ítrekað borið við að hafi haft áhrif á möguleika hennar til að rannsaka málið, hafi ekki átt við í því tilfelli.
Að auki benti hann sérstaklega á skyldu sérfræðinga ráðuneytisins til að veita ráðherra ráðgjöf, til að tryggja að ákvarðanir hans séu lögum samkvæmt og að öll stjórnsýsla ráðherra og ráðuneytis sé í samræmi við ólögfesta réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Ráðherra hafi í þessu tilviki verið veitt sú ráðgjöf. Eins og kunnugt er vöruðu minnst þrír sérfræðingar ráðuneytisins Sigríði ítrekað við því að breytingar á lista Landsréttardómara og sá ófullnægjandi rökstuðningur sem þeim breytingum fylgdi gæti verið brot á stjórnsýslulögum, eins og síðar kom á daginn.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, mætti Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, í Kastljósi í gær til að ræða um mögulega vantrauststillögu. Þar sagði hún að einboðið væri að leggja fram slíka tillögu enda hefði ráðherrann brotið af sér af ásetningi. Páll sagði hins vegar að ef hann væri í stjórnarandstöðu þá myndi hann bíða „eftir öðru tækifæri til að vantreysta ráðherra því ég er alveg viss um það að næstum því allir þeirra eiga eftir að gera meiri mistök en þessi á því kjörtímabili sem er að byrja.“
Þurfa að minnsta kosti fjóra stjórnarliða
Þingmenn stjórnarflokkanna á Alþingi eru 35 talsins, en stjórnarandstöðunnar 28. Tveir þeirra, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, sem sitja bæði á þingi fyrir Vinstri græn, styðja þó ekki stjórnarsamstarfið í heild. Samkvæmt heimildum Kjarnans vonast stjórnarandstöðuflokkarnir til að þau tvö muni ekki leggjast gegn vantrauststillögu komi hún fram og því er lögð rík áhersla á að minnsta kosti annað þeirra sé viðstatt þegar kosið verður um vantrauststillöguna. Bæði Rósa og Andrés eru hins vegar á leið úr landi á næstu dögum.
Jafnvel þótt þau tvö myndu styðja vantrauststillöguna, og öll stjórnarandstaðan líka, þá myndi það ekki duga til þess að fá hana samþykkta. Til þess þarf líkast til tvo stjórnarþingmenn til viðbótar til að kjósa með henni. Hjáseta mun ekki duga.
Vantraust komst aftur í tísku
Vantrausttillögur hafa orðið ansi tíð fyrirbæri á síðustu tíu árum. Á þeim tíma hafa verið lagðar fram fimm tillögum um vantraust á ríkisstjórnir í heild sinni. Allar tillögurnar hafa verið annað hvort felldar eða afturkallaðar áður en að atkvæðagreiðsla fór fram. Síðast var lögð fram tillaga um vantraust á ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar árið 2016 í kjölfar Panama-skjalahneykslisins, en hún var felld. Fyrir bankahrun hafði ekki komið fram vantrausttillaga á ríkisstjórn frá árinu 1994. Raunar hefur vantrausttillaga á ríkisstjórn einungis einu sinni verið samþykkt, það var árið 1950.