Skelfileg skotárás á skóla í Flórída, hinn 14. febrúar, hefur haft mikil áhrif á umræðu um byssutengda glæpi og skotárásir á skóla í Bandaríkjunum. Því miður hafa skotárásir á skóla verið algengar í Bandaríkjunum en það sem af er þessu ári eru þær 19 talsins.
Mannskæðust er árásin 14. febrúar á Marjory Stoneman Douglas High School í Parkland. Þá létust 17. Fjórtán nemendur og þrír starfsmenn skólans.
Ný lína í sandinn
Eftir þennan skelfilega atburð má segja að það hafi orðið straumhvörf í umræðu um byssueign og byssuglæpi í landinu. Ástæðan er ekki sú að þessi atburður sé einstakur, heldur sú að viðbrögð bekkjarsystkina þeirra sem létust hafa verið magnþrungin, þaulskipulögð og hnífbeitt.
Á þau hefur verið hlustað vegna þess að þau hafa verið skýr í málflutningi og náð eyrum fjölmargra sem mikil áhrif geta haft á sölu- og dreifingu skotvopna. Ekki aðeins stjórnmálamanna heldur líka forsvarsmanna fyrirtækja.
Segja má að einn stærsti sigurinn hafi unnist þegar stærsti vinnuveitandi Bandaríkjanna, WalMart, ákvað að hækka lágmarksaldur þeirra sem geta keypt byssur úr 18 í 21 ár. Þá voru teknar upp stífar reglur um sölu á svonefndum árásarvopnum, og hættulegustu byssurnar voru teknar úr sölu.
Í tilkynningu frá WalMart til kauphallar sagði einfaldlega, að málflutningur bekkjarsystkina þeirra sem létust í Parkland hafi náð eyrum stjórnar fyrirtækisins, sem hafi ákveðið að endurskoða reglur með það að markmiði að vera samfélagslega ábyrgari söluaðili skotvopna.
Stórfrétt
Þó tilkynningin hafi verið nokkuð hefðbundin, þá var henni tekið sem stórfrétt þegar hún birtist. Eftir áratugabaráttu fyrir breyttri byssumenningu og regluverki þegar kemur að byssum, þá var stærsti verslunarrekandi heimsins, sem er með 2,3 milljónir manna í vinnu í Bandaríkjunum, tilbúinn til þess að hlusta á sjónarmið þeirra sem bentu á fáranleikann í því, að 18 ára gömul ungmenni gætu gengið inn í verslun og keypt árásarvopn sem hönnuð eru til þess að drepa fólk í einu skoti og sem flesta á sem skemmstum tíma.
Pleased the FEC is also now investigation the @NRA. If NRA officials don't answer the simple questions in my letter to them asking them to explain their Russian links in 2016, then it suggests they have something to hide. https://t.co/qeiyAgVIOI
— Ted Lieu (@tedlieu) March 17, 2018
Eftir heimsókn ungmennanna í Hvíta húsið, þar sem þau ræddu við Donald Trump forseta og Mike Pence varaforseta, þá var ljóst að þeim var dauðans alvara með málflutningi sínum, um að nú væri nóg komið. Í þetta skiptið yrðu breytingar.
Hvað er Trump að tala um?
Þó Trump hafi lofað ungmennunum sem heimsóttu hann því, að bregðast við með endurskoðun byssulöggjafarinnar, þá er ekki gott að segja hvað hann raunverulega vill. Hin valdamiklu Samtök byssueigenda (NRA) hafa náð góðu talsambandi við forsetann, svo ekki sé meira sagt. NRA hafa fullyrt að ekki standi til að takmarka rétt fólks til þess að eiga og nota byssu af þeirri tegund sem það vill. Yfirlýsing um þetta birtist frá samtökunum eftir fund með Trump. Forsetinn sagði á Twitter eftir fund með NRA að hann hefði átt „frábæran“ fund með NRA, án þess þó að tjá sig neitt efnislega um hvað var rætt á fundinum.
NRA hefur gífurlega mikil ítök í bandaríska þinginu, og þá einkum hjá Repúblikönum. Samtökin hafa styrkt framboð einstakra þingmanna og barist ötullega fyrir því að Bandaríkjamenn geti nálgast byssur - af svo til öllum þekktum tegundum - með sem einföldumst hætti. Vitna samtökin oftast nær í stjórnarskrána, máli sínu til stuðnings. Allir eigi að hafa frelsi til að eiga skotvopn til að geta varið sig, segja samtökin.
Þau hafa með öllu neitað með að mögulega sé samhengi á milli hins auðvelda aðgengis að skotvopnum og síðan ótrúlegra margra byssuglæpa í Bandaríkjunum. Tölurnar eru beinlínis sláandi.
Tæplega 4 eru drepnir með byssu í Bandaríkjunum á hverja 100 þúsund íbúa, en algengt er að þetta hlutfall sé á bilinu 0,2 til 0,4 á Vesturlöndum.
Vopnaðir kennarar?
Þrátt fyrir að nú sé búið að hækka lágmarksaldur byssukaupenda í 21 ár í Flórída, og raunar víðar í ríkjum Bandaríkjanna, þá eru engu að síður blikur á lofti um hvaða stefnu þessi málaflokkur mun taka. Trump hefur talað fyrir því að kennarar fái heimild til að bera skotvopn í skólum, en þó einungis ef þeir hafa fengið þjálfun til þess. Flórída ríki hefur raunar þegar stigið fyrsta skrefið í þessa átt með breytingum á regluverki.
Framundan er áframhaldandi slagur um byssulöggjöfina, þar sem unglingarnir í Parkland eru í fararbroddi baráttunnar gegn núverandi byssulöggjöf. Þeir vilja að miklu takmarkanir séu settar á byssusölu, bakgrunnsathuganir verði hertar og komið í veg fyrir það - með öllum ráðum - að andlega veikir einstaklingar geti keypt byssur og notað þær.
Mörgum þykja þessar kröfur sjálfsagðar, en sagan segir okkur að það verði þrautin þyngri að þrýsta þessum breytingum í gegn. Hinn 24. mars verða samstöðufundir um öll Bandaríkin, og er meginkrafn sú að byssulöggjöfinni verði breytt í samræmi við kröfur unglinganna í Parkland.