Valitor Holding, dótturfélag Arion banka, hagnaðist um 940 milljónir króna í fyrra. Hluti af þeim hagnaði er tilkomin vegna eignar sem félagið á sem tengist sölunni á Visa Europe á sínum tíma.
Alls var hlutur Valitor Holding vegna þeirrar sölu um 9,1 milljarðar króna, samkvæmt viðtali við forstjóra félagsins í febrúar 2016. Við þá upphæð átt svo að bætast hlutdeild í framtíðartekjum sem kæmu til greiðslu síðar. Það er sú hlutdeild sem útskýrir hluta hagnaðar Valitor Holding í fyrra.
Uppgjör félagsins hefur ekki verið birt opinberlega en Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor Holding, staðfestir þetta í samtali við Kjarnann. Hann segir að Valitor Holding hafi verið að vaxa um 30 prósent á ári undanfarin ár og fjárfest mjög í gegnum rekstur í þeim vexti.
Valitor Holding er eignarhaldsfélag sem á nokkur önnur félög. Í fyrra keypti það til að mynda tvö erlend félög, IPS – International Payment Services Ltd. og Chip and Pin Solutions Ltd. inn í samstæðuna. Tilgangur kaupanna var að styrkja markaðsstöðu Valitor gagnvart söluaðilum í Bretlandi.
Helsta eign Valitor Holding er síðan greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor hf. Það félag, sem er rekstrarfélag, tapaði 446,4 milljónum króna í fyrra. Viðar segir að það tap sé meðal annars tilkomið vegna einskiptisliðar sem tengdist endurskipulagningu innan félagsins.
Viðskipti Valitor við Stripe munu minnka
Um mitt ár 2015 var tilkynnt að alþjóðlega stórfyrirtækið Apple hefði ákveðið að Bretland yrði fyrsta landið utan Bandaríkjanna þar sem boðið verður upp á ApplePay sem greiðsluleið.
Kjarninn fékk upplýsingar um að tilkynnt hafi verið um væntanlegar breytingar hefðu orðið á þessu viðskiptasambandi. Viðar segir það rétt. Stripe sé með áform um að fara sjálft að bjóða upp á svipaða þjónustu og Valitor veitir. „Stripe hafa tilkynnt okkur að viðskiptasambandið við okkur muni breytast og þróast. Þegar lengra líður frá þá munu viðskiptin minnka.“
Hann segir að Valitor séu að taka inn nýja stóra aðila inn í viðskipti um þessar mundir og vonir standi til að það sé hægt að kynna hverjir það séu á næstunni.
Tekist á um eignina
Valitor samstæðan hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Í síðustu viku greindi Fréttablaðið frá því að ekkert yrði af því að Valitor Holding yrði aðgreint frá bankanum áður en hann verður skráður á markað í næsta mánuði. Mikill vilji var hjá sumum erlendu hluthöfum Arion banka að greiða hlutabréf í Valitor Holding út í formi arðs til hluthafa áður en að skráningunni kæmi.
Kjarninn hafði áður greint frá því að að í kynningu sem ráðgjafar við sölu á Arion banka héldu fyrir lífeyrissjóði fyrr á þessu ári hefði komið fram að virði Valitor Holding væri verulega vanmetið í bókum Arion banka.
Eigið fé Valitor Holding er bókfært á um 16,3 milljarða króna í bókum Arion banka, samkvæmt upplýsingum sem veittar voru á kynningarfundunum. Í kynningunni segir að ef hlutur í Arion banka væri keyptur á verði sem er undir einni krónu fyrir hverja krónu af bókfærðu eigin fé megi álykta að „afsláttur hafi fengist á bókfærðu virði Valitor [Holding] hjá Arion“. Sé litið á þá margfaldara sem settir eru á eigið fé samanburðarfélaga Valitor [Holding] í Evrópu og Bandaríkjunum til að finna út markaðsverð þeirra þá megi „álykta sem svo að verðmæti félagsins gæti verið hærra en skráð virði Valitor [Holding] í bókum Arion“.
Í kynningunni var settur fram svokallaður afleiddur yfirtökumargfaldari á eigin fjár Valitor Holding og hann sagður vera 3,1. Miðað við það ætti virði Valitor Holding að vera yfir 50 milljarðar króna.