Flóttamönnum sem sóttu um hæli á Íslandi fækkaði á milli áranna 2016 og 2017 og fjöldi þeirra sem voru í þjónustu Útlendingastofnunar eða sveitarfélaga dróst saman um þriðjung. Þá hafa færri flóttamenn sótt um hæli hér á landi það sem af er ári en gerðu það á sama tímabili í fyrra. Þetta má lesa úr tölfræði Útlendingastofnunar.
Alls sóttu 95 flóttamenn um alþjóðlega vernd á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2018. Flestir þeirra, eða 16 talsins, komu frá Írak. Alls hafa 17 manns fengið hæli hérlendis það sem af er ári.
Sá fjöldi sem sóttist eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi á fyrstu tveimur mánuðum ársins er mun fámennari sá sem sótti um slíka hérlendis á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2017. Þá sóttu samtals 140 manns um hæli, eða tæplega 50 prósent fleiri en gerðu það í byrjun yfirstandandi árs.
Færri komu í fyrra en árið áður
Á öllu síðasta ári sóttu 1.096 manns um hæli á Íslandi. Það eru færri en sóttu um hæli á Íslandi á árinu 2016. Þá fengu alls 135 alþjóðlega vernd og leyfi til að dvelja hér áfram, en árið 2017 voru alls 1.293 umsóknir um slíkt afgreiddar. Því fékk einn af hverjum tíu hælisleitendum sem fékk niðurstöðu í hæli á Íslandi. 38 þeirra komu frá Írak, 26 frá Afganistan og 21 frá Sýrlandi. Samtals voru 85 þeirra sem fengu hæli hérlendis frá þessum þremur löndum, eða tæplega tveir af hverjum þremur sem fengu slíkt.
Þeir sem hafa sótt um hæli og bíða eftir að mál þeirra fái afgreiðslu fá framfærslueyri. Hann er átta þúsund krónur fyrir einstakling á viku en 23 þúsund krónur hjá fjögurra manna fjölskyldu. Auk þess fær hver fullorðinn hælisleitandi 2.700 krónur í vasapening á viku og foreldrar fá viðbótar þúsund krónur fyrir hvert barn.
2,7 milljarðar til hælismála í ár
Fjöldi hælisleitenda hérlendis jókst mikið á árinu 2016. Þá var fjöldi þeirra sem komu hingað 1.130. Það þýðir að 34 fleiri flóttamenn sóttu um hæli á Íslandi á árinu 2016 en í fyrra.
Í uppgjöri ríkissjóðs vegna fyrstu sex mánaða ársins 2017 kom fram að hrein útgjöld vegna réttinda einstaklinga hafi verið 2,2 milljarðar króna sem var 1.251 milljónum meira en áætlað var. Þar sagði: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“ Hluti þess viðbótarkostnaðar var því vegna kostnaðar sem féll til á árinu 2016 en hafði ekki verið gert ráð fyrir í fjárlögum.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið í október 2017 þar sem hann sagði að kostnaður vegna hælisleitenda hérlendis gæti farið í sex milljarða króna á ári og jafnvel í 220 milljarða króna á ári miðað við sviðsmyndir sem settar hefðu verið fram.
Samkvæmt fjárheimild til útlendingamála í fjárlagafrumvarpi ársins 2018 er reiknað með að heildarframlög til hælismála verði um 2,7 milljarðar króna í ár, sem er helmingi lægri upphæð en lægri mörk þess bils sem Ásmundur nefndi í grein sinni.