EPA

Vígi þjóðernispopúlista stendur traust

Eftir nýyfirstaðnar kosningar í Ungverjalandi er ljóst að þjóðernispopúlismi er ekki á undanhaldi í Evrópu. Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur sýnt það og sannað að útlendingaandúð og hægri-öfga skoðanir eiga upp á pallborðið hjá almenningi.

Mikið umrót hefur verið í Evrópu undanfarin ár og hafa þjóðernisflokkar víðs vegar um álfuna skotið upp kollinum. Ljóst er að blikur eru á lofti og víða um lönd hafa þjóðernispopúlistar sótt í sig veðrið. Nærtækast er að benda á úrslit kosninga á Ítalíu í mars síðastliðnum og í Austurríki í desember á síðasta ári. Í báðum tilfellum báru hægri-öfga flokkar sigur úr býtum.

Nýjasta dæmið um þessa þróun er þó nýafstaðnar kosningar í Ungverjalandi en forsætisráðherrann, Viktor Orban, hefur tryggt sér þriðja kjörtímabilið í röð. Hann er alræmdur fyrir ummæli sín um innflytjendur og telja margir að lýðræðinu sé hreinlega ógnað í landinu eftir að hann komst til valda. Hægri-öfga flokkar í Frakklandi, Hollandi og víðar hafa mært innflytjendastefnu Orbans og tekið hana sér til fyrirmyndar.

Yfirvöld í Þýskalandi töldu að ekki væri öruggt fyrir flóttafólk að snúa til baka til Ungverjalands síðastliðið sumar. Aðstæður fólksins þar eru sagðar bagalegar en flóttamannabúðirnar eru girtar af og er það ekki frjálst ferða sinna. Háar girðingar hafa sömuleiðis verið reistar á landamærunum við nágrannaríki.

Fyrsta ríkið austan Járntjaldsins til að taka upp lýðræði

Í Ung­verja­landi búa tæp­lega 10 millj­ónir manna en það er ríki í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Landið var fyrsta austurevrópska ríkið til að ganga í NATO árið 1999. Fimm árum síðar fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Forseti Ungverjalands er kosinn af þinginu í fimm ár og gegnir aðallega táknrænu sameiningarhlutverki. Raunverulegt framkvæmdarvald er í höndum forsætisráðherra og ríkisstjórnar.

Landið var fyrsta ríkið austan Járntjaldsins sem tók upp lýðræðislega stjórnskipan í kjölfar mikilla mótmæla árið 1988. Þá var fjölflokkakerfi tekið upp og stéttarfélög og aðrar stofnanir fengu að starfa. Í október árið 1989 var kommúnistaflokkur landsins leystur upp og gaddavírsgirðing milli Ungverjalands og Austurríkis fjarlægð. Þetta gerði borgurum Austur-Þýskalands kleift að ferðast gegnum Ungverjaland til Austurríkis og Vestur-Þýskalands sem átti þátt í hruni kommúnistaríkisins Austur-Þýskalands. Árið 1990 voru haldnar frjálsar kosningar í Ungverjalandi en það er einmitt árið sem núverandi forsætisráðherra komst fyrst inn á þing.

Næstyngsti forsætisráðherra Ungverjalands

Viktor Orban í stjórnarandstöðu árið 1997 Mynd: Wiki CommonsViktor Mihály Orban fæddist í bænum Székesfehérvár í Ungverjalandi árið 1963 en hann er elstur þriggja bræðra. Hann lagði stund á nám í lögfræði þar sem hann lauk meistaragráðu frá Eötvös Loránd-háskólanum í Búdapest með ritgerð um samstöðuhreyfingu Lech Walesa í Póllandi. Hann stundaði jafnframt nám við Oxford-háskólann í stjórnmálafræði en hætti í námi árið 1990 til að snúa sér að stjórnmálum í heimalandinu.

Hann varð forsætisráðherra árið 1998, aðeins 35 ára að aldri, en hann var næstyngstur Ungverja til að gegna því embætti. Undir hans stjórn gekk Ungverjaland í NATO. Töluverðar breytingar má sjá á stefnu Orbans og flokks hans Fidesz frá þessum tíma. Hann var í fyrstu frjálslyndur og evrópusinnaður flokkur en varð síðar mun þjóðernissinnaðri. Núgildandi stefna flokksins ber þess glögg merki.

Líkti innflytjendum við sníkjudýr

Flokkur Orbans fékk flest atkvæði í kosn­ing­unum í land­inu síðastliðinn sunnudag, eins og fyrr segir, og fékk hann tvo þriðju af þingsætum eða tæplega 50 prósent atkvæða.

Kjör­sókn var 69 pró­sent en Orban talaði fyrir því að Ung­verja­land myndi verja gildi sín fyrir inn­flytj­endum og Evr­ópu­sam­band­inu. Hann tal­aði ein­dregið gegn nán­ari Evr­ópu­sam­vinnu á loka­metrum kosn­inga­bar­átt­unnar og líkti flótta­fólki og inn­flytj­endum við sníkju­dýr, sem ættu ekki að vera vel­komin í ung­verska menn­ingu.

Girðing á landamærum Síberíu og Ungverjalands
Wiki Commons

Alvaldur í ríki sínu

Enginn flokkur eða stjórnmálamaður í kosningunum í Ungverjalandi komst nærri því að ógna stöðu Orbans á hinu pólitíska sviði. Flokkur hans bætti við sig fylgi og helsti andstæðingurinn missti 10 sæti á þingi. Yfirburðir Fidesz hafa þó mögulega eitthvað með pólitíska einræðistilburði hans að gera. Athygli vakti þegar yfirvöld undir hans stjórn breyttu stjórnarskránni árið 2012 sem hafði þær afleiðingar að Orban og flokkurinn treystust í sessi. Dæmi um þetta er að ákvæði í nýju stjórnarskránni hljómar á þá leið að ekki er lengur leyfilegt að há kosningabaráttu í öðrum miðlum en ríkismiðlum.

Kjör­tíma­bilið sem er að hefjast verður hans fjórða við völd og hið þriðja í röð. Því verður ekki annað sagt en að Ungverjar séu búnir að taka afgerandi afstöðu í samskiptum við innflytjendur og málefni tengd þeim. Svipaða stemningu má sjá í fleiri löndum í Evrópu. Andstaða við þessi sjónarmið er vissulega til staðar innan Ungverjalands en Viktor Orban heldur sínu striki og tryggir áfram völd sín í einu af elstu ríkjum Evrópu.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar