Fæstir kæra sig um að hafa með sér á baðherbergið óboðna gesti, sem heyra og sjá það sem þar fer fram. Sama gildir um svefnherbergið. Fæstir vita þó af því ef slíkir gestir gera sig heimakomna.
Í dag er nánast hver einasti maður með farsíma í vasanum eða töskunni, margir jafnvel með fleiri en einn. Sú tíð er löngu liðin að farsímarnir séu einföld tæki, sem hægt er að hringja úr, eða í. Þeir verða sífellt fullkomnari og eru, ásamt því að vera hinn hefðbundni sími, tölva, staðsetningartæki, myndavél, útvarp og jafnvel sjónvarp. Hægt er að fylgjast með fréttum nánast hvar sem er og hvenær sem er. Þessi fullkomna tækni býður semsé upp á fjölmargt sem engan hefði dreymt um fyrir örfáum árum.
En það að síminn búi yfir öllum þessum eiginleikum hefur líka aukaverkanir. Tæknin gerir öðrum kleift að fylgjast með þeim sem á, eða notar, símann. Hlustað á símtöl, séð við hvern er talað og hve lengi, hverjum símaeigandinn sendir smáskilaboð, hvar símaeigandinn er staddur hverju sinni o.fl. Ekki líkar öllum jafn vel að hægt sé að fylgjast með þeim og reyna þá að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir slíkt. Hlaða niður smáforritum (apps) sem eiga að útiloka njósnirnar. En „njósnararnir“ eru yfirleitt skrefi á undan og finna ætíð nýjar leiðir til að komast í gegnum varnirnar.
Stirð samskipti Rússa og Dana
Undanfarið hafa borist margar fréttir af meintum njósnum Rússa og innbrotum þeirra í tölvukerfi sem valdið hafa miklu tjóni. Fyrir skömmu sagði Claus Hjort Frederiksen varnarmálaráðherra Dana, og hafði reyndar áður sagt, að það hefðu verið rússneskir tölvuþrjótar sem brutust inn í tölvukerfi Mærsk skipafélagsins á síðasta ári og ollu þar gríðarlegu tjóni. Og í skýrslu Öryggisnefndar um tölvumál kemur fram að að það hafi verið Rússar sem brutust inn í tölvukerfi danska hersins og komust meðal annars í tölvupóst starfsmanna. Þessar fréttir og fleiri af svipuðu tagi hafa vakið ugg í brjósti danskra þingmanna. Samskipti Rússa og margra vestrænna ríkja hafa versnað mjög að undanförnu og þar eru Danir ekki undanskildir. Rússar hafa þrýst á Dani að heimila lagningu gasleiðslunnar Nord Stream2 sem á að liggja frá Rússlandi til Þýskalands um Eystrasalt og á nokkrum kafla um lögsögu Dana við Borgundarhólm. Danir hafar verið mjög hikandi og undir þrýstingi frá Bandaríkjamönnum og fleirum um að synja beiðni Rússa. Nýverið studdu Danir loftárásir Bandaríkjamanna, Frakka og Breta á Sýrland og vísuðu tveimur rússneskum sendiráðsstarfmönnum úr landi í kjölfar Skripal málsins svonefnda í Bretlandi.
Danskir þingmenn uggandi
Það sem hér hefur verið nefnt veldur því að danskir þingmenn eru uggandi og óttast að þeir séu undir smásjá Rússa. Dagblaðið Berlingske greindi fyrir nokkrum dögum frá því að danskur þingmaður, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hefði fyrir skömmu fengið sannanir fyrir því að Rússar hefðu hlerað símtal hans, í farsíma, við mann úti í bæ, og jafnframt horft á hann í gegnum linsuna á símanum. Þegar símtalið fór fram var þingmaðurinn á salerninu, að sinna nauðsynjaverki, eins og blaðið orðaði það. Annar þingmaður sagðist hafa sannanir fyrir því að brotist hefði verið inn í tölvu á skrifstofu hans á Kristjánsborg. Margir danskir þingmenn hrukku illilega við og sögðust hreint ekki hafa áttað sig á því að hægt væri, með lítilli þekkingu og fyrirhöfn að hlera síma og brjótast inn í tölvur. Í áðurnefndri umfjöllun Berlingske kom fram að margir danskir þingmenn eru mjög uggandi vegna fregna af framferði tölvuþrjóta, ekki síst Rússa. Þingmaðurinn Ida Auken sagði blaðamanni Berlingske að margir tækju símann með sér í svefnherbergið og á salernið „og maður áttaði sig ekki á því að í gegnum símann væri hægt að fylgjast með athöfnum fólks, síminn liggur kannski á náttborðinu og er hreint og beint að horfa á mann.“ Fleiri þingmenn hafa í viðtölum undanfarna daga talað á sömu nótum og segjast setja símann ofan í skúffu þegar þeir væru heima og einn þingmaður sagðist hafa fjarlægt sjónvarpið úr svefnherberginu „hver veit nema einhversstaðar sitji einhver og fylgist með manni“.
Plástur yfir linsuna og gamall Nokia í Rússlandsferðum
Sumir úr hópi danskra þingmanna segjast hafa límt plástur eða límmerki yfir linsuna á símanum, og tölvunni, í öryggisskyni. Í nokkrum nefndum danska þingsins er bannað að hafa símana með sér á fundi og í fyrra var greint frá því að þegar þingmenn fara til Rússlands eða Tyrklands hefðu þeir meðferðis „gamaldags“ Nokia síma sem erfitt væri að hlera og ekki eru með myndavél.
Handskrifuð minnisblöð
Peter Kofod Poulsen þingmaður Danska Þjóðarflokksins er með límt yfir myndavélaraugað á símanum og tölvunni og hann segist auk þess notast mikið við handskrifuð minnisblöð. Hann segist líka fara símalaus í göngutúr með samstarfsmönnum sínum í þinginu ef ræða þurfi viðkvæm mál „og þá bið ég samstarfsmanninn að skilja símann eftir á skrifstofunni.“
Lone Juul Dransfeldt Christensen sérfræðingur í öryggismálum segir það gott að þingmenn geri sjálfir ráðstafanir til að verjast eftirliti „það er nefnilega ótrúlega auðvelt fyrir erlend ríki að hlera stjórnmálamenn í öðrum löndum.“
Þingið gerir ráðstafanir
Pia Kjærsgaard forseti danska þingsins sagði í viðtali við Berlingske að margir þingmenn hefðu snúið sér til hennar og lýst áhyggjum vegna hugsanlegra hlerana og tölvuinnbrota „Og þær áhyggjur eru ekki ástæðulausar,“ sagði þingforsetinn. Pia Kjærsgaard sagði að þingið hefði þegar gert ýmsar ráðstafanir til að verjast hlerunum og tölvuinnbrotum og unnið væri að frekari ráðstöfunum. Hún vildi hinsvegar ekki upplýsa nánar um öryggismál þingsins.