1. Höfuðborg Íslands
Reykjavík er höfuðborg Íslands og miðstöð stjórnsýslu íslenska ríkisins. Þar eru helstu stofnanir löggjafa-, framkvæmda- og dómsvalds með heimilisfesti. Undantekningin er Landsréttur, sem er í Kópavogi. Reykjavík er auk þess eina borg landsins. Hún er 277,1 ferkílómetrar að stærð. Borgarstjóri Reykjavíkur er sem stendur Dagur B. Eggertsson.
2.Fjöldi Íbúa
Íbúum í Reykjavík hefur fjölgað um 3,7 prósent frá byrjun árs 2014 og fram til síðustu áramóta. Alls bjuggu 124.847 manns í höfuðborginni í byrjun þessa árs samkvæmt nýjustu tölum frá Hagstofu Íslands. Á höfuðborgarsvæðinu öllu bjuggu tæplega 223 þúsund manns um síðustu áramót.
3. Fjölmennasta hverfið
Fjölmennasta hverfi borgarinnar, samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar, er Vesturbær-Syðri, þar sem búa 10.831. Næst fjölmennasta hverfið er Efra-Breiðholt. Þar bjuggu 9.481 í upphafi árs 2018. Í þriðja sæti var Seljahverfið með 8.502 íbúa.
4. Fjölmennasta póstnúmerið
Í tölum Hagstofu Íslands er einnig hægt að sjá fjölda íbúa eftir póstnúmerum. Þar sést að flestir höfuðborgarbúa búa í póstnúmeri 105, eða 17.229 talsins. Þeim hefur fjölgað um 6,2 prósent á yfirstandandi kjörtímabili. Innan þess póstnúmers er meðal annars að finna Hlíðar, hluta Laugardals, Álftamýri og Múlahverfið. Póstnúmerið teygir sig auk þess alla leið niður að Snorrabraut og Norðurmýrin er því einnig innan þess póstnúmers. Næst fjölmennasta póstnúmerið er 112, eða Grafarvogur. Þar búa 16.931.
5. Fjöldi útlendinga
Öll íbúafjölgun í Reykjavík í fyrra var vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til borgarinnar. Borgarbúum fjölgaði um 2.800 á árinu 2017 og erlendum ríkisborgurum sem búa í höfuðborginni fjölgaði á saman tíma um 3.140. Þeir eru nú 15.640 talsins. Erlendum íbúum höfuðborgarinnar hefur fjölgað um 70 prósent frá byrjun árs 2012.
6. Heimilslausir
Óstaðsettum í Reykjavík, þeim sem eru ekki með skráð lögheimili eða búa á götunni, fjölgaði um 74 prósent á frá byrjun árs 2014 og fram að síðustu áramótum. Þeir eru nú 661 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Í fyrra fjölgaði þeim um 23,7 prósent alls.
6. Félagslegar íbúðir
Í lok árs 2016 átti Reykjavíkurborg 2.445 félagslegar íbúðir. Það voru 19,7 slíkar íbúðir á hverja þúsund íbúa. Í fyrra fjölgaði þeim um á annað hundrað. Til samanburðar má nefna að í Garðabæ eru 35 slíkar íbúðir, 30 í Mosfellsbæ og 16 á Seltjarnarnesi. Í lok árs 2016 átti Reykjavík um helming alls félagslegs húsnæðis í landinu. Ef nærliggjandi sveitarfélögin fimm á höfuðborgarsvæðinu myndu ætla að ná Reykjavík í framboði á slíku þyrftu þau að fjölga félagslegu húsnæði um 1.080.
7. Batnandi afkoma
A-hluti borgarinnar, sem er sú starfsemi hennar sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð með skatttekjum, hefur verið í járnum á undanförnum árum. Árin 2014 og 2015 var hún til að mynda neikvæð upp á 16,4 milljarða króna. Þetta breyttist 2016 þegar afkoma hennar var jákvæð um 2,6 milljarða króna. Í fyrra var rekstarniðurstaðan svo jákvæð um tæpa fimm milljarða króna, sem var 3,2 milljörðum krónum betri niðurstaða ne reiknað hafði verið með í áætlunum.Rekstrarniðurstaðan áfram að vera góð árin 2019 til 2022 og vera þá lægst 5,6 milljarðar króna árið 2019 og mest 10,8 milljarðar króna.
8. Fasteignagjöld hækkað mikið
Innheimt fasteignagjöld í Reykjavík hafa aukist um 50 prósent frá árinu 2010. Vegna þess árs innheimti Reykjavíkurborg tæplega 12,1 milljarð króna í fasteignagjöld. Samkvætm ársreikningi skiluðu fasteignaskattarrúmum 16 milljörðum árið 2017 og eiga, samkvæmt fjárhagsáætlun, að skila 20,3 milljörðum króna árið 2018. Þessi mikla tekjuaukning er drifin áfram af því að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað gríðarlega á undanförnum árum og raunverð fasteigna hefur aldrei verið hærra en það er nú um stundir.
9. Húsnæðismál
Í lok árs 2017 voru 52.115 íbúðir í Reykjavík. Á árinu 2017 var hafin smíði á 923 nýjum íbúðum og er það sami fjöldi og á sl. ári þegar smíði hófst á 922 íbúðum. Að jafnaði frá árinu 1972 hefur verið hafin smíði á 623 íbúðum á ári. Flestar voru þær árið 1973 með 1133 íbúðir, 992 árið 1986 og 983 árið 2005. Fæstar voru þær yfir árin 2009 til 2011 þar sem hafin var smíði á 159 íbúðum árið 2009, einungis 10 íbúðum árið 2010 og 113 árið 2011. Fjöldi nýrra íbúða á sl. ári var sá fjórði mesti frá 1972 og árin 2016 og 2015 með fimmta og sjötta mesta fjölda yfir 45 ára tímabil. Töluverð aukning er því í byggingu nýrra íbúða á síðastliðnum árum.
10. Stærsta fyrirtækið
Borgin á nokkur fyrirtæki. Mikilvægast og umsvifamest þeirra er Orkuveita Reykjavíkur, sem Reykjavíkurborg á langstærstan hlut í. Rekstur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur skilaði drjúgum hagnaði á síðasta ári, eða 16,3 milljörðum króna. Staða fyrirtækisins hefur breyst mikið á síðustu árum, en hún var mjög erfið þegar ráðist var í aðgerðaráætlunina „Planið“ árið 2011. Hún átti að skila liðlega 50 milljörðum króna í betri sjóðstöðu út árið 2016 en niðurstaðan varð um 60 milljarðar.