Kveðið hefur við nýjan tón í kjarabaráttu á Íslandi á undanförnum mánuðum. Stéttarfélög sem ná til þriðjungs vinnumarkaðsins á Íslandi hafa krafist víðtækra kerfisbreytinga í íslensku efnahagslífi og boðað til átaka verði þeim ekki hrundið af stað. Hverjar yrðu afleiðingar boðaðra breytinga og við hverju ætti að búast ef til átaka kæmi milli stéttarfélaga annars vegar og atvinnurekenda og stjórnvalda hins vegar?
Í ávarpi sínu á verkalýðsdeginum fyrsta maí boðaði Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar, til baráttu fyrir miklum samfélagsbreytingum í samstarfi við VR, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar. Samkvæmt henni munu félögin meðal annars krefjast launahækkanna, breytinga á skattkerfinu og „uppstokkunnar“ í húsnæðismálum. Svipaðar áherslur mátti heyra hjá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, sama dag, en í viðtali við fréttastofu RÚV boðaði hann til átaka sem „hafa ekki sést í áratugi“ verði kröfum stéttarfélaganna ekki mætt.
Breyttur tónn
Ummæli Ragnars og Sólveigar á þriðjudaginn eru í takti við fyrri yfirlýsingar þeirra sem, ásamt öðrum nýjum forystumönnum verkalýðshreyfingarinnar, gagnrýna fyrri stjórnir stéttarfélaganna fyrir aðgerðarleysi. Samkvæmt þeim hafa stéttarfélögin sofnað á verðinum á sama tíma og misskipting hefur farið vaxandi og öryggi verkafólks á vinnumarkaði hefur minnkað. Til viðbótar við harðari yfirlýsingar hefur nýleg ákvörðun kjararáðs um miklar kauphækkanir embættismanna ríkisins auk hækkunar á launum ríkisforstjóra aukið á spennu á vinnumarkaðnum svo um munar.
Félagsmenn VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar eru samtals rúmlega 66 þúsund talsins, eða um þriðjungur allra Íslendinga á vinnumarkaði. Möguleiki er á að fleiri stéttarfélög taki upp herskárri stefnu í garð atvinnurekenda, en kosið verður um nýja stjórn Alþýðusambandsins í haust. Fari svo að fólk með svipaðar áherslur og Ragnar og Sólveig taki forystu þar færi sá armur verkalýðshreyfinginnar með umboð meirihluta vinnumarkaðsins, eða um 100.000 launþega. Þar sem fjöldi félagsmanna er umtalsverður auk þess sem sjóðir Eflingar og VR eru í góðum málum er því ljóst að verkfallsaðgerðir stéttarfélaganna gætu haft mikil áhrif á íslensk fyrirtæki í vetur, ef af þeim verður.
Þar sem hætta á verkfalli stéttarfélaganna er raunveruleg og trúverðug, hverju geta þau þá áorkað?
Launaskriðið
Fyrst og fremst má vænta krónutöluhækkana á launum félagsmanna þegar kjarasamningar renna út næstu áramót. Þessar hækkanir, ásamt ákvæðum um bætt kjör starfsmanna á vinnustað, eru hinar hefðbundnu leiðir stéttarfélaganna til að ná fram auknum tekjujöfnuði og slaka á spennuna á vinnumarkaði.
Hins vegar, ef litið er á þróun síðustu ára virðist tekjuójöfnuður ekki vera stærsta vandamálið sem íslenskir launþegar standa frammi fyrir í dag. Hagfræðingar hafa bent á Gini-stuðul landsins, sem er lægstur allra OECD ríkja og hefur haldist lágur frá 2010. Enn fremur nefnir Viðskiptaráð hátt launastig hérlendis og tiltölulega lága framleiðni miðað við önnur lönd sem ástæðu þess að svigrúm til launahækkana sé lítið. Hafi Viðskiptaráð rétt fyrir sér er mikil hætta á að stórfelldar krónutöluhækkanir launþega yrðu verðbólgu að bráð og myndu ekki skila sér í raunverulegum kjarabótum.
Óöryggi á húsnæðismarkaði
Hækkun launa eru þó ekki einu breytingarnar sem forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hafa boðað. Bæði Ragnar og Sólveig hafa talað fyrir umbreytingu á húsnæðismarkaðnum, þar sem ótækt sé að lágtekjuhópar geti ekki gengið að öruggu húsnæði. Vísbendingar um vaxandi óöryggi launþega á húsnæðismarkaði má finna í nýrri úttekt Íbúðalánasjóðs, en þar segir að hækkun húsnæðisverðs síðustu ára auk fækkunar á félagslegum íbúðum hafi leitt til þess að staða leigjenda hafi farið versnandi.
Meðal leiða sem forystumenn VR og Eflingar hafa nefnt til að stemma stigu við þessa þróun er fjölgun félagslegra íbúða, en einnig vaxtalækkanir, laga- og skattkerfisbreytingar auk aðgerða gagnvart verðtryggðum lánum. Slíkar kröfur eru víðtækari en áður hefur sést hjá verkalýðshreyfingunni og krefðust beinna samninga við stjórnvöld og jafnvel Seðlabankann. Í þessu tilviki yrði farið út fyrir hefðbundnar átakalínur milli launafólks og atvinnurekenda með slíkum kerfisbreytingum og þrýstingur settur á ríkisstjórnina til að fara að kröfum stéttarfélaganna.
Aftur á móti er óvíst hversu miklar kröfur félögin geta sett fram í þessum málum. Ekki einungis myndu boðaðar breytingar reyna á pólitísk áhrif stéttarfélagana og sjálfstæði Seðlabankans, heldur yrði einnig erfiðara að beita verkfallsvopni þeirra gegn stjórnvöldum með jafnmarkvissum hætti og í hefðbundinni kjarabaráttu. Stjórnvöld virðast að sama skapi ekki líkleg til að ganga að kröfum stéttarfélaganna, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf lítið fyrir skæruverkfallsyfirlýsingar Ragnars Þórs í kvöldfréttum Stöðvar 2 á miðvikudagskvöldið.
Mest í heimi
Samkvæmt tölum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) kemst ekkert land í heimi nálægt Íslandi í fjölda launþega sem eiga aðild að stéttarfélögum. Ólíkt öðrum Vesturlöndum hafa ítök félaganna einnig aukist á síðustu árum, en árið 2016 náði hlutfall félagsbundinna einstaklinga til 90% vinnumarkaðsins, til samanburðar við 50-65% í Skandinavíu. Samhliða þessu er pólitískt vægi félaganna í kjarabaráttu meira hér en annars staðar, þar sem boðuð verkföll hefðu alvarlegri afleiðingar.
Með breyttum áherslum nýrra forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar hafa kröfur þeirra orðið harðari en áður. Einnig, þar sem helsta ógn við kjör lágtekjufólks liggur frekar í óöryggi á húsnæðismarkaði heldur en misskiptingu tekna, hafa stéttarfélögin róið á ný mið og krefjast nú víðtækra kerfisbreytinga í stað einungis launahækkana sinna félagsmanna. En þrátt fyrir mikil ítök og harðari áherslur er óvíst hversu langt stéttarfélögin ná með kröfur sínar um allsherjarkerfisbreytingar við stjórnvöld. Svarið við því mun líklega fást í vetur þegar ný stjórn ASÍ verður kosin og kjarasamningar renna út.