Fáir fræðimenn hafa verið jafnáhrifamiklir á Vesturlöndum og Karl Marx. Hversu viðeigandi eru kenningar hans í dag, einni og hálfri öld eftir að þær litu fyrst dagsins ljós?
„Eitruð“ gjöf
Í smáborginni Trier í Suður-Þýskalandi var blásið til mikilla hátíðarhalda í dag. Ástæða þeirra er 200 ára afmæli heimspekingsins Karl Marx, frægasta íbúa borgarinnar, sem fæddist þar þann 5. maí árið 1818. Í tilefni dagsins hefur borgin einnig fengið að gjöf 5,5 metra háa bronsstyttu af fræðimanninum frá kínverskum stjórnvöldum sem virðingarvott við framlög Marx til kommúníska hugmyndafræði alþýðulýðveldisins.
Bronsstyttan nýja og jafnvel hátíðarhöldin sjálf eru ekki óumdeild, en mörg samtök hafa harðlega gagnrýnt hvers kyns dýrkun á hugmyndafræði sem einræðisríki hafa byggt tilveru sína á. Ulrich Delius, formaður mannréttindasamtakanna GfBV, kallaði styttuna „eitraða,“ bæði vegna þess hver lægi að baki henni og vegna hugmyndafræðinnar sem hún stæði fyrir.
Algjörlega rétt?
Trier er ekki eini staðurinn þar sem fæðingu Marx var fagnað, en fjöldamargir viðburðir voru einnig skipulagðir, t.d. á Englandi og í Argentínu. Þar að auki var tvegga aldar afmæli heimspekingsins þýska fagnað rækilega í Kína í gær, en þar sagði forseti landsins, Xi Jinping, kommúnistaflokkinn halda sér við hugmyndafræði Marx þar sem hún væri „algjörlega rétt.“
En hvaða kenningar eru þetta og hversu réttar teljast þær í dag? Hefur þessi hugmyndafræði fyrst og fremst leitt til stofnunar einræðisríkja líkt og Kína eða má einnig sjá áhrif hennar í menningu og stjórnkerfi frjálsra lýðræðisríkja í Evrópu? Umræddar spurningar hafa verið bitbein fræði-og stjórnmálamanna síðustu áratugina, en þær virðast enn vera jafnviðeigandi í dag og þær voru fyrir hundrað árum síðan.
Marxismi
Megininntak hugmyndafræði Marx, eða Marxisma, liggur í gagnrýni á hinu kapítalíska stjórnkerfi þar sem hægt sé að græða peninga með því eina skilyrði að maður eigi peninga. Eina leiðin sem fjármagnseigendur ná að græða sé með arðráni frá launþegum, sem sjá um að skapa öll verðmæti í samfélaginu. Þannig safnast peningar og fjármagn á æ færri hendur, á meðan verkafólki er haldið í skefjum með launum sem ráðast á samkeppnismarkaði.
Stikla úr nýrri mynd um æskuár Marx.
Þessar kenningar lagði Marx fram um miðja 19. öld á Englandi, þar sem iðnbyltingin var í hámarki og stóreignamenn græddu á tá og fingri á meðan meirihluti verkamanna bjuggu við ömurlegar aðstæður. Reyndar spáði Marx því að slíkt kerfi væri ósjálfbært og að hrun kapítalismans væri yfirvofandi. Samfélagsbreyting gegn ráðandi valdastéttum væri óhjákvæmileg og samkvæmt honum gæti slíkt aðeins gerst með byltingu.
Afleiðingar Marxisma
Í nafni þessarar kenningar hafa fjölmargar byltingar átt sér stað á síðustu 150 árum, með misjöfnum afleiðingum. Þekktastar eru þær sem háðar voru undir merkjum kommúnista, en margar þeirra enduðu illa, til að mynda uppreisnir Bolsévíka í Rússlandi árið 1917 og kommúnista í Kína árið 1949. Báðar uppreisnirnar leiddu til áratuga ógnarstjórnar og kostuðu milljónir mannslífa.
Hvers vegna er þá Marxisma enn fagnað ef afleiðingar uppreisna sem háðar voru í hans nafni eru svona hörmulegar? Svarið við því virðist ekki liggja í einræðisstjórnunum sjálfum, heldur í þeim straumhvörfum sem Marx olli á sviði heimspekinnar, félagsfræðinnar og hagfræðinnar.
Samkvæmt sagnfræðingnum Jane Humphries og rithöfundinum Richard Seymor liggja höfuðframlög Marx í greiningum hans á því hvernig kapítalismi mótar þjóðfélagið allt og hvers vegna átök væru nauðsynleg til þess að breyta valdakerfum. Sömuleiðis segir Ottó Másson, heimspekingur, ógnarstjórnir Sovétríkjanna og Kína ganga þvert á það sem Marx hafði í hyggju.
Í nýlegri skoðanagrein í New York Times er tekið í sama streng: Marxismi hefur hjálpað til við að útskýra kerfisbundna kúgun sem fundist hefur víða í samfélagi manna. Þannig eru nýlegar byltingar, líkt og #MeToo og Black Lives Matter, sprottnar upp úr sama hugmyndafræðilega brunni og byltingar kommúnista fyrr á 20. öld en ná jafnframt að knýja fram jákvæðar samfélagsbreytingar.
Áhrif Karl Marx gætir því víða um allan heim, tveimur öldum eftir fæðingu hans. Þótt spá hans um yfirvofandi hrun kapítalismans hafi ekki gengið upp hafa aðrir hlutar kenningar hans náð að koma sér fyrir í nútímasamfélagi. Hvort hugmyndafræði hans telst „algjörlega rétt“ er hins vegar umdeildari spurning.