Hvorki lögregla né Ríkisendurskoðun hafa rannsakað atvik sem áttu sér stað í kringum alþingiskosningar á undanförnum árum og rökstuddur grunur er um að séu í andstöðu við lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.
6. grein laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda segir að óheimilt sé að veita viðtöku framlögum frá óþekktum gefendum. Í lögunum segir einnig að hámarksframlög lögaðila sem megi gefa stjórnmálasamtökum eða frambjóðendum séu 400 þúsund krónur. Stjórnmálasamtök skulu halda samstæðureikning fyrir allar einingar sem undir þau falla, svo sem sérsambönd, kjördæmisráð, eignarhaldsfélög og tengdar sjálfseignarstofnanir.
Nafnlaus vel fjármagnaður áróður
Fyrir síðustu tvær kosningar, sem fram fóru haustið 2016 og haustið 2017, voru nafnlaus fyrirbæri sem komu á framfæri kostuðum áróðri á samfélagsmiðlum og víðar á vefnum, mjög áberandi og augljóst að umtalsverðum fjármunum var kostað til þess að koma áróðrinum á framfæri.
Þá eru einnig rekin frjáls félagasamtök sem kaupa auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi í aðdraganda kosninga sem beinast gegn ákveðnum áherslum valdra stjórnmálaflokka, og ríma skýrt við áherslur annarra. Frjáls félagasamtök birta ekki ársreikninga opinberlega og því liggur ekki fyrir hversu miklum fjármunum er varið í umræddar auglýsingar né hverjir það eru sem greiða þá fjármuni.
Úr eigin vasa
Í síðasta mánuði féll héraðsdómur í máli almannatengils sem taldi Framsóknarflokkinn skulda sér fjármuni fyrir að hafa unnið við að lagfæra ímynd flokksins og þáverandi formanns hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, í kjölfar fréttafultnings af aflandsfélagaeignar Sigmundar Davíðs sem opinberuð var í Panamaskjölunum árið 2016. Almannatengillinn, Viðar Garðarsson, setti meðal annars á fót tvær varnarvefsíður sem innihéldu pólitískan áróður fyrir hönd Sigmundar Davíðs.
Í héraðsdómnum kom fram að Sigmundur Davíð hefði sjálfur greitt Viðari rúmlega eina milljón króna fyrir vefsíðugerðina og ýmis önnur viðvik sem tengdust undirbúningi þingkosninga haustið 2016. Á vefsíðunum tveimur komu ekki fram nöfn þeirra sem að þeim stóðu heldur stóð að önnur þeirra, Panamaskjolin.is, væri á vegum stuðningsmanna Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans. Sú síðari, Islandiallt.is, var sögð vera rekinn af hópi einstaklinga úr ýmsum áttum, með ólíkar stjórnmálaskoðanir, sem eigi það sameiginlegt að vera stuðningsmenn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Sú upphæð sem Sigmundur Davíð greiddi Viðari úr eigin vasa er langt umfram það sem einstaklingur má greiða í kosningaframlag.
Engin rannsókn farið fram
Ríkisendurskoðun hefur samkvæmt lögum um stjórnmálasamtök og frambjóðendur eftirlit með fjármálum þeirra. Kjarninn sendi fyrirspurn á stofnunina og spurði hvort hún hefði sýnt frumkvæði í því að rannsaka ofangreinda háttsemi.
Í svari Ríkisendurskoðunar segir að eftirlitsheimildir hennar séu bundnar við að skoða ársreikninga og gögn stjórnmálasamtaka og reikninga staðfestra sjóða. Í þeim tilfellum sem fjallað er um hér að ofan sé annars vegar um að ræða frjáls félagasamtök og hins vegar greiðslur frá einstaklingi. „Stofnunin hefur ekki heimildir til að kalla eftir gögnum frá eða rannsaka frjáls félagasamtök nema að því leyti sem birtist í reikningsskilum þeirra stjórnmálasamtaka sem viðkomandi styður. Því hefur Ríkisendurskoðun ekki haft frumkvæði að því að rannsaka birtingu efnis og kaupum á auglýsingaplássi frá félagasamtökum eða einstaklingum. Það flækir jafnframt málin að í mörgum tilfellum er ekki verið að birta auglýsingar til stuðnings ákveðnum flokki, heldur til að fæla frá stuðningi við einhvern annan ákveðinn flokk.“
Kjarninn beindi einnig fyrirspurn til lögregluyfirvalda og spurði hvort að annað hvort lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eða embætti ríkislögreglustjóra hefði rannsakað ofangreind mál. Í svari Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, kynningarfulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kemur fram að eftirgrennslan hafi leitt í ljós að mál sem þessi hafi ekki komið til rannsóknar.
Því liggur fyrir að engin eftirlitsstofnun eða rannsóknaraðili er að rannsaka hvort að fjármögnun nafnlausra áróðurssíðna, framlög til frjálsra félagasamtaka sem beita sér í kosningum eða greiðslur stjórnmálamanna sem eru hærri en lögbundin hámörk séu ólögleg eða ekki.
Í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), sem birt var í kjölfar alþingiskosninganna árið 2017 var þetta andvaraleysi gagnrýnt sérstaklega. Þar sagði meðal annars að umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi.
Fréttaskýringin birtist einnig í Mannlífi sem kom út í dag, 11. maí. Hægt er að lesa Mannlíf hér.