Byrjað er að máta saman hvernig meirihlutasamstarf Viðreisnar og þeirra þriggja flokka sem voru í fráfarandi meirihluta í Reykjavík gæti litið út. Viðmælendur Kjarnans segja að óformlegir fundir hafi átt sér stað milli lykilmanna í Samfylkingu og Viðreisnar.
Stefnt sé að því að Dagur B. Eggertsson og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddvitar flokkanna í Reykjavík, eigi samtal í dag. Oddvitar Samfylkingar, Píratar og Vinstri grænna í Reykjavík hittust í gær til að leggja línur fyrir komandi viðræður.
Áhrifafólk í Sjálfstæðisflokknum hefur einnig verið duglegt að hafa samband við fólk innan Viðreisnar til að reyna að ýta athygli flokksins frekar að sér. Í þeim óformlegu samtölum hefur verið lögð áhersla á að finna lausnir á málaflokkum þar sem stefnur flokkanna eru nánast á öndverðu meiði svo hægt sé að ná saman um nýjan meirihluta.
Opinberar yfirlýsingar Viðreisnar eru þær að flokkurinn sé opinn fyrir því að vinna með öllum. Málefnalega er þó ljóst að mun einfaldara verður fyrir flokkinn að fara í samstarf með fráfarandi meirihluta en Sjálfstæðisflokknum, Miðflokki og Flokki fólksins sem töluðu t.d. gegn borgarlinu og yfirstandandi aðferðarfræði við þéttingu byggðar í kosningunum.
Ólíkar stefnur
Í stefnuskrá Miðflokksins stendur að margfalda eigi húsnæði í úthverfunum, standa vörð um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni og bæta gatnakerfið til að stytta ferðatíma.
Flokkur fólksins vildi greiða götu einkabílsins, fjölga mislægum gatnamótum og halda flugvellinum á sama stað.
Þegar kemur að veru flugvallarins í Vatnsmýri, er afstaða Viðreisnar skýr: „Finna þarf innanlandsflugi nýja staðsetningu í grennd við höfuðborgina, með þægindi og öryggi allra landsmanna að leiðarljósi. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýri þangað til að sú staðsetning liggur fyrir. Viðreisn telur að nýr flugvöllur í Hvassahrauni sé lausn sem skoða þurfi til hlítar.“
Hvassahraunsmöguleikinn er afrakstur vinnu Rögnunefndarinnar svokölluðu. Í henni sátu meðal annars Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Viðreisn vill aðra áferð
Það er þó ljóst að Viðreisn mun vilja aðra áferð á nýtt meirihlutasamstarf, verði af því. Þar er ekki vilji til þess að innkoma Viðreisnar í samstarfið verði eins og að nýtt hjól sé sett undir gamlan vagn til að hann geti rúllað áfram.
Eitt sem verður þar til umræðu er hvort að leita eigi að utanaðkomandi aðila til að taka að sér borgarstjórastólinn.
Þá mun Viðreisn fara fram á aukna áherslu á rafræna stjórnsýslu, gagnsætt og opið bókhald og innleiðingu jafnlaunastaðals. En stóra málið verður þjónusta við fyrirtæki. Viðreisn lagði mikla áherslu á það í kosningunum að endurskoða og einfalda þjónustu við atvinnulífið, að við endurskipulagningu ráða borgarinnar verði til eitt ráð sem horfi sérstaklega til atvinnumála og að samkeppnisstaða Reykjavíkur til að laða að sér fyrirtæki verði bætt með því að lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á síðari hluta komandi kjörtímabils.
Viðreisn vill líka að Reykjavík keppi að því að alþjóðleg fyrirtæki hafi starfsstöðvar sínar í borginni.
Menntamál líka mikilvæg
Auk þess er vilji til þess að menntamál verði í öndvegi hjá nýjum meirihluta. Í stefnuskrá Viðreisnar var meðal annars lögð áhersla á að gera sérstakan kjarasamning við kennara í Reykjavík og hækka þar með laun þeirra til að gera leik - og grunnskólana að eftirsóttum vinnustöðvum. Þá vill flokkurinn auka faglegt frelsi grunnskólakennara og gera tilraunir með ólík kennsluform.
Viðreisn telur einnig að of mikill tími skólastjóra fari „í rekstur skóla og ekki nægilegur tími í faglega forystu. Þessu ætlum við að breyta með því að semja um fjárveitingu til grunnskóla til þriggja ára í senn í stað eins árs. Þannig er hægt að auka sveigjanleika og svigrúm til skólaþróunar. Skólastjórar verði fyrst og fremst faglegir stjórnendur skóla.“ Þá vill Viðreisn að leikskólar séu opnir allt sumarið og foreldrar velji hvaða fjórar samfelldu vikur barnið fái frí.
Augljósasti ásteytingarsteinninn í menntamálum verður þó sá að Viðreisn vill fjölga valkostum í námi og styður fjölbreytt rekstrarform menntastofnana. Erfitt verður fyrir t.d. Vinstri græn að sætta sig við slíkt þar sem ein helsta áhersla þeirra í menntamálum er að vinda „ofan af markaðsvæðingu í skólakerfinu“.
Tveir aðrir valkostir ef útilokanir halda
Ef ofangreindir flokkar ná ekki saman um myndun meirihluta eru tveir aðrir kostir líklegastir í stöðunni, ef gengið er útfrá því að þeir fjórir flokkar, sitjandi meirihlutaflokkar og Sósíalistaflokkur Íslands, sem hafa opinberlega útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk standi við það.
Líkt og áður sagði getur Viðreisn unnið til hægri með íhaldssamari flokkunum Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins.
Annar möguleiki er að myndaður verði mjög vinstrisinnaður meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Sósíalista, Pírata og Flokks fólksins. Hann myndi hafa eins manns meirihluta, líkt og hinir tveir valkostirnir sem hér hafa verið nefndir.