Bandaríska sjónvarpsstöðin og framleiðandinn ABC hefur tekið sjónvarpsþátt Roseanne Barr af dagskrá eftir svívirðilega rasískt tíst sem Roseanne sendi frá sér. Sýningar á tíundu þáttaröðinni um hina umdeildu Roseanne Connor og fjölskyldu hennar hófust í mars, 21 ári eftir að sýningum á níundu þáttaröðinni lauk, og var henni almennt vel tekið.
Í tístinu tók Roseanne fyrir Valerie Jarrett, sem hún vísaði til sem VJ, sem gegndi stöðu sérstaks ráðgjafa Baracks Obama fyrrverandi forseta. Sagði hún Valerie vera afkvæmi Bræðralags múslima og kvikmyndanna um Apaplánetuna.
Roseanne hefur síðar eytt tístinu og beðist afsökunar. Það dugði þó ekki til og í yfirlýsingu sjónvarpsstöðvarinnar þar sem tilkynnt var um að þættinum yrði hætt kom fram að tístið hefði verið bæði andstyggilegt og viðbjóðslegt. Til stóð að ráðast í framleiðslu á elleftu seríunni en ekkert verður úr. Hún hefur síðar tíst nokkrum sinnum og beðið aðdáendur sína að vorkenna sér ekki. Að auki bað hún þá hundurði sem vinna að þáttunum en hafa nú misst vinnuna afsökunar. Annars staðar sagðist hún hafa tíst þetta um miðja nótt undir áhrifum róandi lyfsins Ambien og bað fólk um að grípa ekki til varnar fyrir hana þar sem tístið hafi verið óverjandi.
Roseanne hefur ávallt verið umdeild. Hún hóf feril sinn í uppistandi en fékk síðar sinn eigin þátt sem sló aldeilis í gegn. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem misheppnað grín hennar fellur í grýttan jarðveg en Kjarninn rifjaði upp nokkur skipti sem Roseanne fór yfir strikið.
Árið 1990 bauð eigandi hafnarboltaliðsins San Diego Padres Rosanne, sem þá hafði notið mikillar velgengni eftir tvær seríur af þætti sínum, til að koma og syngja þjóðsönginn fyrir leik liðsins. Roseanne ákvað að vera sjálfri sér lík og öskraði lagið frekar en söng. Að lokinni sýningunni hrækti hún á jörðina og greip í klofið á sér og gerði þannig grín að hafnarboltaleikmönnum.
Roseanne sat fyrir hjá gyðingatímaritinu Heeb árið 2009 sem gerði út á háðsádeilur. Þar kom hún fram í Hitlersbúningi og fékk á sig mikla gagnrýni. Roseanne, sem er gyðingstrúar sjálf, sagðist í kjölfarið hafa verið að gera grín að Hitler - ekki fórnarlömbum hans.
Another @therealroseanne "joke" pic.twitter.com/OGEUvw6PQ4
— I. Cohen (@IRCards3) May 29, 2018
Árið 2014 birti Roseanne heimilisfang manns að nafni George Zimmerman á Twitter. Sá var hverfisvaktmaður og hafði skotið 17 ára dreng. Niðurstaða rannsóknar málsins var sú að Zimmerman hafi skotið í sjálfsvörn en Roseanne birti heimilisfangs hans og foreldra hans. Þau fóru síðar í mál við Roseanne og vildu meina að birtingin hafi gert það að verkum að þau þurftu að flýja heimili sitt og síðar yfirgefa það alfarið. Málinu var vísað frá.
Það hefur ekki gengið nægilega vel á Twitter hjá Roseanne á þessu ári. Í mars gaf hún í skyn að einn af nemendum Parkland skólans í Flórída sem lifðu af skotárásina þar og gengu kröfugöngu í Washington til að herða skotvopnareglur, hefði heilsað að hætti nasista. Tístið féll í vægast sagt grýttan jarðveg og var eytt - eins og svo mörgum tístum Roseanne.