Sala í matvöruverslunum Haga dróst saman um 6,8 prósent milli ára, magnið sem þær seldu minnkaði um 3,3 prósent og viðskiptavinum þeirra fækkaði um 1,4 prósent. Alls minnkaði vörusala félagsins, sem er stærsti smásali á Íslandi, um 6,6 milljarða króna og var 73,9 milljarðar króna á síðasta rekstrarári. Hún hefur ekki verið lægri frá því fyrir rekstrarárið 2013/2014. Ef tekið er tillit til aflagðrar starfsemi dróst salan um 4,5 prósent.
Þetta er meðal þess sem kom fram í kynningu sem Finnur Árnason, forstjóri Haga, hélt á aðalfundi félagsins sem fram fór á miðvikudag.
Rekstrarár Haga er annars konar en annarra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Það stendur yfir frá 1. mars til lok febrúar hvers árs. Í ársreikningi Haga, sem birtur var í maí, kom fram að rekstrarhagnaður félagsins hafi dregist saman úr sex milljörðum króna á rekstrarárinu 2016/2017 í 4,1 milljarð króna á því sem nú er nýlokið. Hagnaður Haga nánast helmingaðist, fór úr fjórum milljörðum króna í 2,4 milljarða króna. Eiginfjárstaða félagsins er mjög sterk, en eiginfjárhlutfallið er 61,1 prósent.
Costco áhrifin
Helstu ástæður þess að samdráttur varð í rekstrinum eru nokkuð augljósar. Sú sem mestu máli skipti var breytt rekstrarumhverfi eftir innkomu Costco á íslenskan matvörumarkað í maí 2017. Í kjölfar þeirrar opnunar sendu Hagar frá sér tvær afkomuviðvaranir vegna þess sölusamdráttar sem áttu sér stað á fyrstu mánuðunum eftir að Costco hóf starfsemi. Samkvæmt könnun sem birt var í Viðskiptablaðinu eiga 67 prósent Íslendinga meðlimakort í Costco, eða hafa átt slíkt. Og 85 prósent þeirra hafa endurnýjað kortið eða ætla sér að gera það. Costco virðist því vera komið til að vera.
Hlutabréf í Högum lækkuðu mikið í kjölfar innkomu Costco á íslenskan markað, eða um 33,8 prósent á árinu 2017. Þau hafa hækkað umtalsvert það sem af er árinu 2018 þótt þau séu enn 15 prósent verðminni en þau voru í maí 2017.
Ætla að kaupa Olís á 10,4 milljarða
Í kynningunni á aðalfundi Haga voru einnig taldir til aðrir þættir sem orsaki afkomuna. Þar á meðal eru verðhjöðnun, kostnaðarhækkanir þar sem launaþáttur vegur mest, lokanir verslana (Þeim fækkaði úr 52 í 46 á rekstrarárinu), tekjutap vegna tímabundinna lokana á verslunum sem verið var að breyta og einskiptiskostnaður upp á 445 milljónir króna vegna leiguskuldbindinga sem greiddar voru þegar ákveðið var að loka Hagkaup í Holtagörðum.
Ofangreindar hagræðingar eru ekki einu viðbrögðin sem Hagar hafa gripið til vegna eðlisbreytinga á samkeppnisumhverfinu. Félagið reyndi að kaupa Lyfju en Samkeppniseftirlitið hafnaði þeim samruna sumarið 2017. Í apríl sama ár tilkynntu Hagar um að félagið ætlaði að kaupa Olís. Samkeppniseftirlitið andmælti þeim samruna í skjali sem það sendi á Olís í lok janúar síðastliðinn en stjórn Haga samþykkti í kjölfarið að ganga til sáttaviðræðna við eftirlitið til úrlausnar þeim þáttum sem taldir eru raska samkeppni. Því er gengið út frá því að Hagar klári kaupin. Í kynningunni kom fram að vænt kaupverð sé 10,4 milljarðar króna, sem er umtalsvert hærra en þeir 9,1 milljarðar króna sem upphaflega stóð til að greiða fyrir olíufélagið. Ástæðan er góð afkoma Olís á árinu 2017.
Gildi bókaði um starfskjarastefnu
Á aðalfundinum var samþykkt að hækka stjórnarlaun í Högum um tíu prósent. Stjórnarformaður félagsins fær nú 660 þúsund krónur greiddar á mánuði, varaformaðurinn 495 þúsund krónur og aðrir stjórnarmenn 330 þúsund krónur.
Þá var ný starfskjarastefna samþykkt en hún er óbreytt frá því sem áður var. Athygli vakti að Lífeyrissjóðurinn Gildi lagði fram sérstaka bókun vegna þessa og sat síðan hjá við afgreiðslu starfskjarastefnunnar ásamt þremur öðrum stórum lífeyrissjóðum sem eru á meðal helstu eigenda Haga.
Í bókun Gildis segir m.a. að samkvæmt hluthafastefnu Gildis telji sjóðurinn „rétt við ákvörðun launa forstjóra að líta til innri þátta félags, launadreifingar innan þess og launa sem ætla má að forstjóra bjóðist á þeim markaði sem félagið starfar á.[...]mikilvægt er í tilfelli Haga hf. að stjórn félagsins upplýsi nánar um það með hvaða hætti heildarlaun stjórnenda eru mótuð og við hvaða samanburð þau miða“.
Í bókuninni er því enn fremur beint til stjórnar að „sundurliða framvegis greiðslur til stjórnenda þannig að greiðslur samkvæmt árangurstengdu launakerfi komi fram og að skýrsla um framkvæmd starfskjarastefnu verði útbúin og hér eftir birt með góðum fyrirvara fyrir aðalfund félagsins“.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, var með 70,5 milljónir króna í laun og hlunnindi á síðasta rekstrarári. Það eru tæplega 5,9 milljónir króna á mánuði. Til viðbótar greiddi félagið 13,3 milljóna króna framlag í lífeyrissjóð fyrir Finn. Samanlagðar greiðslur Haga til Finns (laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur) lækkuðu um 1,9 milljónir króna á milli rekstrarára.