1.
Ísland er meðal fremstu fiskveiðiþjóða heims. Sjávarútvegurinn skilar næst mest útflutningsverðmætum inn í þjóðarbúið og er rótgrótinn þáttur í íslensku atvinnulífi og menningu. Kreppt hefur að greininni vegna styrkingar krónunnar um tugi prósenta á síðastliðnum árum.
2.
Þrátt fyrir neikvæð áhrif þessarar þróunar á rekstrarniðurstöðu sjávarútvegarins er arðsemi greinarinnar góð og var hagnaður sjávarútvegsfélaga á árinu 2016 um 55 milljarðar króna.
3.
Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá byrjun árs 2010 og út árið 2016 voru 65,8 milljarðar króna. Eigið fé þeirra frá hruni og til loka árs 2016 batnaði um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 365,8 milljarða króna á örfáum árum.
4.
Þennan viðsnúning hafa eigendur útgerðanna meðal annars nýtt í að greiða hratt niður skuldir og í að auka fjárfestingu í geiranum. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja voru 319 milljarðar króna í lok árs 2016 og höfðu þá lækkað um 175 milljarða króna frá hruni. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum, sem eru til að mynda ný skip, var 22 milljarðar króna á árinu 2016. Hún var um 25 milljarðar króna að meðaltali árin á undan.
5.
Samkvæmt lögum um veiðigjald leggur Fiskistofa veiðigjald á og renna tekjur af því í ríkissjóð. Skráðir eigendur íslenskra fiskiskipa sem stunda veiðar á nytjastofnum sjávar bera gjaldið. Veiðigjald eru lagt á í þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar. Reiknistofn veiðigjalds er hlutfall af hreinum hagnaði í fiskveiðum og hluta af hagnaði fiskvinnslu.
6.
Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, en þá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Árin þar á eftir lækkuðu gjöldin skref fyrir skref niður í 4,8 milljarða árið 2016. Innheimt veiðigjöld ársins 2017 voru 8,4 milljarðar króna. Frumvarp um endurútreikning gerir ráð fyrir því að innheimt veiðigjöld ársins 2018 verði 8,6 milljarðar króna, en að teknu tilliti til sérstaks afsláttar fyrir minni sjávarútvegsfyrirtæki verða þau 8,3 milljarðar króna. Í gildandi fjárlögum var gert ráð fyrir því að veiðigjöld myndu skila tíu milljörðum krónum í ríkiskassann í ár, og byggir það á því að álögð veiðigjöld vegna fiskveiðiársins 2017/2018 voru áætluð 10,8 milljarðar króna. Þorri þeirra átti því að skila sér til ríkisins á þessu almanaksári.
7.
Í frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um breytingar á veiðigjöldum var lagt til að heimild til álagningar veiðigjalda yrði framlengd, en hún hefði ellegar runnið út 31. ágúst. Einnig var kveðið á um almenna lækkun veiðigjaldanna. Þannig skyldu veiðigjöldin miðast við afkomu sjávarútvegsins árið á undan í stað þriggja ára aftur í tímann eins og verið hefur. Þá fól frumvarpið einnig í sér sértæka lækkun veiðigjalda til lítilla útgerða með afsláttum til lítilla og meðalstórra útgerða.
8.
Hefði frumvarp þetta orðið að lögum myndi veiðigjaldið sem útgerðir greiða til ríkisins í ár, að teknu tilliti til afsláttar, lækka um 1,7 milljarðar króna og orðið 8,3 milljarðar króna. Það er svipað og innheimt veiðigjöld voru árið 2017, þegar þau voru 8,4 milljarðar króna. Lækkunina átti að framkvæma þannig að stærstu útgerðarfyrirtækin fá mestu veiðigjaldalækkunina í krónum talið. Um er að ræða krónutölulækkun á allan veiddan afla en auk þess er svokallaður persónuafsláttur útgerða hækkaður á minni útgerðir.
9.
Styrinn stendur fyrst og síðast um stórútgerðirnar og raunverulega stöðu greinarinnar. Ljóst er að staða stærstu fyrirtækjanna er gríðarlega sterk, á meðan sum þeirra minni berjast í bökkum. Þá er einnig ágreiningur um hvort frekari samþjöppun í greininni er ákjósanleg og hvort og þá hvernig frekari nýliðun sem og byggðasjónarmið eigi að vega við ákvarðanatöku líkt og álagningu veiðigjaldanna. Í greinargerð með frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar segir meðal annars: „Samantekið má segja að gæta verði þess að veiðigjald verði sanngjarnt en í því felst ekki síst að líta eftir fremsta megni til bestu upplýsinga hverju sinni um rekstrarafkomu og greiðslugetu sjávarútvegsfyrirtækja.“ Spurningin er hvort það markmið takist með umræddu frumvarpi.
10.
Á fimmtudag náðist samkomulag á þinginu um að draga frumvarpið til baka. Þess í stað var lagt fram nýtt frumvarp þar sem veiðigjöldin verða „framlengd“ óbreytt. Frumvarpið er aftur lagt fram af atvinnuveganefnd. Lögin munu falla úr gildi um áramótin í stað lok sumars en gert er ráð fyrir að sjávarútvegsráðherra mæli fyrir nýju frumvarpi um heildarendurskoðun laga um veiðigjald næsta haust. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gróft áætlaðar tekjur ríkisjóðs af veiðigjaldi tímabilsins 1. september til ársloka 2018 muni nema 3,6 milljörðum króna.