Ekkert liggur fyrir um það hvaða hulduaðilar stóðu að nafnlausum áróðri í kringum alþingiskosningarnar 2016 og 2017 og ekkert liggur fyrir hvort stjórnmálasamtök sem lúta eftirliti Ríkisendurskoðunar hafi „staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.“ Þá er vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast fyrir um hverjir standi á bak við þær.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í skýrslu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um aðkomu og hlutdeild hulduaðila í kosningum til Alþingis. Skýrslan er átta blaðsíður og var unnin að beiðni þingmanna úr fjórum flokkum.
Í greinargerð með skýrslubeiðninni kom fram að nafnlausar auglýsingar sem beindust gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum hefðu verið áberandi á samfélagsmiðlum fyrir alþingiskosningar haustin 2016 og 2017. Í skýrslunni segir: „Þær síður sem voru mest áberandi voru Kosningar 2016 og Kosningar 2017 sem beindu spjótum sínum að flokkum á vinstri væng stjórnmálanna og Kosningavaktin sem rak áróður gegn flokkum á hægri vængnum. Umræddar síður voru allar vistaðar á samfélagsmiðlinum Facebook. Ekkert bendir til þess að umræddar herferðir hafi verið ólöglegar miðað við núgildandi lög og því er vandséð hvað stjórnvöld geti gert til að grafast nánar fyrir um hverjir stóðu á bak við þær.“
Í skýrslunni segir að eftirlit Ríkisendurskoðunar beinist fyrst og fremst að fjármálum stjórnmálasamtaka og ekkert liggi fyrir um hvort stjórnmálasamtök sem lúta því eftirliti hafi staðið á bak við umræddar herferðir eða notið góðs af þeim þannig að slíks framlags bæri að geta í reikningum stjórnmálasamtakanna eða einstakra frambjóðenda.
Æskilegt að í gildi væru reglur
Í niðurstöðukafla skýrslunnar segir að grípa þurfi til aðgerða til að koma í veg fyrir „óeðlileg áhrif á kosningar þar sem stjórnmálasamtök, aðilar tengdir þeim eða aðilar sem draga taum tiltekinna stjórnmálaafla geta beitt sér með óprúttnum hætti án þess að kjósendur geti áttað sig á hver eigi í hlut eða varað sig á annarlegum hvötum og hagsmunum sem kunna að búa að baki.“
Þar stendur einnig að gæta þurfi að því að reglur sem tryggja eigi gagnsæi fjármögnunar stjórnmálastarfsemi virki eins og til er ætlast. Sama kunni að eiga við um herferðir í þágu tiltekinna málefna án þess að þær tengist tilteknum stjórnmálasamtökum. „Þá væri æskilegt að í gildi væru reglur um pólitískar auglýsingar, ekki síst í aðdraganda kosninga, og óháð miðlunarformi.“
Í niðurstöðunum segir að engar vísbendingar séu um aðkomu erlendra aðila að kosningabaráttu hér á landi líkt og verið hefur í mörgum öðrum ríkjum. „Fyllsta ástæða er þó til að vera á varðbergi. Fylgjast þarf vel með umræðu í öðrum Evrópuríkjum um aðgerðir til að draga úr umfangi og áhrifum rangra og villandi upplýsinga og eftir atvikum fara í sams konar leiðir hér á landi og þar er verið að ræða.“
Athugasemdir ÖSE
Í greinargerð með skýrslubeiðninni, sem lögð var fram í mars, kom meðal annars fram að í skýrslu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í kjölfar alþingiskosninganna árið 2017 hafi sagt að „að umboð eftirlitsaðila til eftirlits með ólögmætum og nafnlausum kosningaáróðri á netmiðlum væri ófullnægjandi. Athugasemdir ÖSE eru alvarlegar og renna stoðum undir mikilvægi þessarar skýrslubeiðni.“
Þar sagði enn fremur að leggja þyrfti mat á það hvort stjórnmálaflokkarnir sem hag höfðu af herferðunum teldust hafa hlotið framlag sem nemur kostnaði við framleiðslu og dreifingu þeirra og ef svo er, hvort gerð hafi verið grein fyrir þeim framlögum í ársreikningum stjórnmálaflokkanna. „Þá þarf að komast að því hverjir stóðu að áróðrinum og kanna tengslin milli þeirra og stjórnmálaflokkanna sem buðu fram til Alþingis.“
Samkvæmt skýrslu forsætisráðherra er ekkert af þessu hægt.
Framlög til stjórnmálaflokka hækkuð um 127 prósent
Það var nokkuð arðbært að komast inn á Alþingi eftir síðustu kosningar, þar sem framlög til stjórnmálaflokka voru hækkuð um 127 prósent á milli jóla og nýárs 2017 samkvæmt tillögu sex þeirra átta flokka sem sæti eiga á Alþingi nú. Nú fá flokkarnir 648 milljónir króna árlega til að skipta á milli sín. Flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá samtals 347,5 milljónir króna úr ríkissjóði í ár og framlög til þeirra hækka um 195 milljónir króna. Stjórnarandstöðuflokkarnir fá 300,5 milljónir króna, sem er 137 milljónum króna meira en þeir hefðu fengið ef framlögin hefðu ekki verið hækkuð.