Nýr rekstrarrammi dönsku fjölmiðlanna á að taka gildi í ársbyrjun 2019. Hann verður mjög breyttur frá núverandi samningi, sem var gerður árið 2014, í stjórnartíð Helle Thorning-Schmidt. Það samkomulag var gert með svonefndu „breiðu samkomulagi“ sem þýddi að meirihluti stjórnarandstöðunnar studdi hann og því var ekki hróflað við samkomulaginu á því fjögurra ára tímabili sem það tók til.
Nú er komið að því að ganga frá nýjum „ramma“ en nú náðist ekki „breitt samkomulag“ sem þýðir að stjórnarandstaðan er óbundin og gæti gert breytingar komist hún til valda eftir næstu kosningar, sem verða væntanlega á næsta ári.
Nefskattur í stað afnotagjalds
Nýi rekstrarramminn gerir ráð fyrir mjög miklum breytingum varðandi fjölmiðlana. Mestar verða breytingarnar á DR, danska ríkisútvarpinu, en fjárframlög til stofnunarinnar verða skorin niður um samtals 20% (ca 700 milljónir danskra króna, tæpir 12 milljarðar íslenskir) á næstu fimm árum. Afnotagjaldið verður afnumið en þess í stað kemur nefskattur, með þessari breytingu hverfur söluskatturinn. Árlegur nefskattur verður kr. 1.285.- pr. einstakling (rúmlega 21 þúsund íslenskar). Með þessari breytingu úr afnotagjaldi í nefskatt borgar einstaklingur sem býr einn, minna en áður, tveir í heimili borga svipað og áður en fyrir þriggja manna heimili verður gjaldið hærra en það var áður.
Hefur lengi verið stefna að minnka umfang DR
Ekki er hægt að segja að þessi breyting á rekstrarrammanum komi á óvart. Hægri flokkarnir, bláa blokkin svonefnda, í dönskum stjórnmálum hafa lengi talað fyrir því að minnka umfang DR, sem þeir segja alltof fyrirferðarmikið á dönskum fjölmiðlamarkaði og skapa þurfi aukið svigrúm fyrir aðra fjölmiðla. Danski þjóðarflokkurinn, sem segja má að stjórni ríkisstjórninni, bakvið tjöldin, hafði reyndar lýst því yfir að skera bæri starfsemi DR niður um 25%. Flokkurinn hefur lengi haft horn í síðu DR og sakað stofnunina um að vera flokknum andsnúið í fréttaflutningi.
Á þessu ári hefur DR til umráða um það 3,8 milljarða króna (ca 62 milljarðar íslenskir) en sú upphæð lækkar í áföngum niður í 3,1 milljarð árlega (tæpa 52 milljarða íslenska) á næstu fimm árum. Fyrir þessa peninga rekur DR sex sjónvarpsrásir og átta útvarpsrásir. Tvær þessara sjónvarpsrása eru ætlaðar börnum, tólf ára og yngri, en Danski þjóðarflokkurinn hafði sett það skilyrði að ekki yrði hróflað við barnaefninu.
Litið til baka, til ársins 1925
Á fréttamannafundinum fyrir utan Kristjánsborgarhöll, í myrkrinu aðfaranótt sl. föstudags (29. júní), sagði Mette Bock að hún sæi fyrir sér að horfið yrði til þeirra sjónarmiða og markmiða sem sett voru þegar DR, sem þá hét Statsradiofonien, hóf starfsemi 1. apríl 1925. Semsé menningar og fræðsluhlutverk. „Mér finnst við tala of mikið um magn þegar DR á í hlut, en ég vil gjarna að meira verði talað um gæði,“ sagði ráðherrann. Það þýðir ekki fræðsluþætti um járn- og steinöld frá morgni til kvölds, eða þætti fyrir sérvitringa, en það þýðir danskt gæðaefni, á hærri stalli en það sem aðrir bjóða.
Að mati ráðherrans rær DR um of á sömu mið og margir aðrir fjölmiðlar. Þegar fréttamenn vildu nánari útskýringar á því hvað DR ætti ekki að gera sagðist Mette Bock ekki blanda sér í þær ákvarðanir. Benti hinsvegar á að í ágúst og september yrði unnið að gerð nýs almannaþjónustusamnings fjölmiðlanna. Þar yrði nánar kveðið á um hlutverk DR. Í „rammanum“ er gert ráð fyrir að DR starfræki fjórar sjónvarpsrásir, í stað sex nú og fækki útvarprásunum úr átta í sex. Maria Rørbye Rønn útvarpsstjóri DR segir að sá mikli niðurskurður sem DR er ætlað að sæta muni bitna á dagskránni, slíkt sé óhjákvæmilegt.
Margt fleira í „rammanum“
Nýi rekstrarramminn fjallar ekki bara um DR. Þar er kveðið á um að stafrænir fjölmiðlar skuli undanþegnir virðisaukaskatti , einsog prentmiðlarnir eru í dag. Þetta er breyting sem mælist vel fyrir. Styrkir til svæðisbundinna fréttamiðla verður aukinn, styrkur til kvikmyndaframleiðslu hækkar um 120 milljónir á ári (ca. tvo milljarða íslenska). Enginn hefur neitt við þessar ákvarðanir að athuga.
Radio24syv
Í „rammanum“ er kveðið á um að útvarpsstöðin Radio24syv skuli að hluta flytjast frá Kaupmannahöfn vestur fyrir Stórabelti, annað hvort til Fjóns eða Jótlands. Radio24syv fær hluta afnotagjaldanna (og nefskattsins þegar hann verður tekinn upp). Útsendingar hófust árið 2011 og stöðinni var ætlað að vera talmálsrás, þar sem fréttir og fréttatengt efni, ásamt umfjöllun um menningarmál, væri í fyrirrúmi, líkt og P1 rás DR. Forsvarsmenn Radio24syv hafa lýst efasemdum um þá ákvörðun að stöðin skuli flutt vestur fyrir Stórabelti, segja að hvort sem mönnum líki það betur eða verr sé Kaupmannahöfn miðpunktur landsins hvað fréttir og þjóðmál áhræri. Krafan um flutning stöðvarinnar er komin frá Danska þjóðarflokknum.
TV2 verður ekki selt
Það hefur lengi verið stefna stjórnarflokksins Venstre að selja sjónvarpsstöðina TV2. Útsendingar TV2 hófust haustið 1988, stöðin er, að nær öllu leyti, í eigu ríkisins og að mestu fjármögnuð með auglýsingum, fær þó hluta afnotagjaldsins gegn því að reka fréttastofu. Fréttastofan er öflug og stenst fullkomlega samanburð við fréttastofu DR en annars er dagskráin blanda af öllu mögulegu. TV2 sendir út, ólíkt DR, morgunsjónvarp. Ríkisstjórnin hafði ætlað sér að sala á TV2 yrði hluti nýja fjölmiðlasamkomulagsins en þar spyrnti Danski þjóðarflokkurinn við fótum og stjórnin hætti við allar fyrirætlanir um söluna. „Í bili,“ sagði Mette Bock menningarmálaráðherra.
Andúðarfnykur
Eins og áður sagði standa stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíaldemókratar og Radikale Venstre ekki að nýja fjölmiðlasamkomulaginu „rammanum“. Þeir eru þannig ekki bundnir af fjögurra ára gildistíma þess. Talsmenn beggja flokka segja „rammann“ aðför að DR, aðför sem beri öll merki andúðar á flaggskipi danskra fjölmiðla. Sú andúð litist af viðhorfum fulltrúum stjórnarflokkanna, og ekki síst Danska þjóðarflokksins á ríkisfjölmiðlinum. Talsmenn flokkanna tveggja segja það verða sitt fyrsta verk, komist þeir í stjórn eftir kosningar að „rúlla rammanum“ til baka. „DR á að vera, eins og það er í dag, fyrir alla,“ sagði talsmaður Radikale Venstre. „Það er andúðarfnykur af þessari ákvörðun.“
Hvort fjölmiðlasamkomulagið, og sér í lagi niðurskurðurinn á DR, verði kosningamál í næstu þingkosningum er engin leið að segja fyrir um. Árum saman hafa skoðanakannanir sýnt að Danir bera mikið traust til DR, þykir það gott eins og það er í dag. Ekki er gott að segja hvernig fyrirhugaðar breytingar á stofnuninni mælast fyrir.